fbpx
Gunnar og jón vefur

Hart í bak

Á hverju ári dynja á okkur PISA-kannanir sem staðfesta að börnin séu heimsk og ljót og að unglingspiltar geti ekki lengur lesið sér til gagns. Á sama tíma dregur jafnt og þétt úr bóklestri og veruleg ástæða er til að hafa áhyggjur af stöðu ljóðsins. Það litla sem þó er lesið, munu vera formúlukenndir reyfarar, táningabækur um galdrakarla og forynjur og sjálfshjálparbækur. Þær síðastnefndu ganga að sögn út á að kenna fólki að vera besta útgáfan af því sjálfu.

 

Fréttaritari Framsíðunnar hefur afar óljósar hugmyndir um hvernig hans besta útgáfa gæti litið út, en hann þekkir verstu útgáfuna aðeins of vel. Hún brýst yfirleitt fram á fótboltaleikjum og innifelur að hreyta skömmum í dómara. Leikurinn gegn Vestra í dag var ekki hans stoltasta stund.

 

Áður en haldið er áfram með syndajátningarnar og marxísku sjálfsgagnrýnina er rétt að byrja á að gera grein fyrir byrjunarliði, liðsuppstillingu og praktískum upplýsingum varðandi leikinn. Fréttaritarinn var seinn fyrir, enda fastur á aðalfundi frá því vel fyrir hádegi sem sniglaðist áfram með umræðum um reikninga og skýrslu stjórnar. Leikurinn var því við það að byrja þegar rennt var í hlað á metansvelgnum. Í símanum biðu skilaboð frá hinum sauðtrygga Val Norðra þess efnis að 12,5 gráðurnar á hitamælinum segðu ekki alveg satt og það væri lúmskt kalt á vellinum.

 

Meiðsli og leikbönn eru að leika okkur Framara grátt þessa dagana. Már og Tryggvi voru hvorugur í hópi vegna meiðsla, Haraldur í leikbanni og Kyle á bekknum, væntanlega tæpur. Í stað hans kom Gunnar inn í miðvarðarstöðuna við hlið Hlyns. Orri og Matthías voru bakverðr, Unnar og Albert á miðjunni. Hilmar og Fred á köntunum og Þórir og Alexander frammi.

 

Vestramenn eru stórir og stæðilegir, með þjálfara sem kann öll trixin í bókinni. Meira en aldarfjórðungur er frá því að Bjarni Jóh. var við stjórnvölinn hjá okkur Frömurum. Að nafninu til átti hann raunar að heita aðstoðarþjálfari Ásgeirs Sigurvinssonar, en leikmönnum frá þeim tíma ber saman um að hlutverk Bjarna hafi verið síst minna í því samstarfi.

 

Ísfirðingar sigla nokkuð lygnan sjó í deildinni og virtust mættir til að verja stig frekar en að sækja þrjú. Framarar komu hins vegar sókndjarfit til leiks og eftir tæpar tíu mínútur kom fyrsta markverða tækifærið þegar Hilmar átti bylmingsskot sem varið var í horn. Eftir hornspyrnuna skaut Orri naumlega yfir.

 

Kornungur dómari leiksins var taugaveiklaður frá fyrstu stundu og missti tökin á leiknum strax eftir stundarfjórðung. Þá stakk Albert sér í gegnum vörn Vestra og aftasti maður tók þann kostinn að brjóta á honum. Albert náði þó fyrst að stinga inn á Fred sem var kominn einn í gegn þegar dómarinn stöðvaði sóknina með því að flauta – til þess eins að gefa gult spjald sem hefði svo auðveldlega mátt vera rautt.

 

Tveimur mínútum síðar lá boltinn í neti gestanna eftir ágæta aukaspyrnu og sérdeilis slakan varnarleik skoraði Alexander af stuttu færi. Aðstoðardómarinn

flaggaði hins vegar rangstöðu, sem var illskiljanlegt þar sem boltinn fór af varnarmanni Vestra. Það er ekki útilokað að fréttaritarinn og félagar í stúkunni hafi af þessu tilefni hrópað sitthvað sem ekki yrði endurtekið við aðrar aðstæður.

 

Það var þó hjóm eitt miðað við það sem gerðist rétt í kjölfarið, nánar tiltekið á tuttugustu mínútu. Einn Vestramaðurinn fór harkalega í Fred sem var nýbúinn að losa frá sér boltann, brot sem sannarlega hefði verðskuldað gult spjald, brasilíska undrið slæmdi hendi til hans og sá hvítklæddi fleygði sér til jarðar með harmkvælum. Dómarinn var fljótur að rífa upp rauða spjaldið sem var harðneskjulegt en vissulega heimskulegt af okkar manni að lyfta höndinni og refsingin því í samræmi við ströngustu reglur. Rafael hinn spænski slapp hins vegar við spjald fyrir upprunalega brotið.

 

Að vera manni færri í sjötíu mínútur er ekkert grín í fótboltaleik og því ljóst að Framarar yrðu að endurskipuleggja sig hratt. Vestramenn virtust þó síst verða sókndjarfari við liðsmuninn heldur héldu áfram að liggja til baka og bíða eftir sínum tækifærum.

 

Á 25. mínútu sprengdi Alexander sig í gegnum vörn gestanna og náði ágætu skoti rétt fram hjá marki um leið og aðvífandi varnarmaður kom og straujaði hann niður. Að því er virðist augljóst víti en ekkert dæmt. Fréttaritarinn uppgötvaði hugtök í orðaforða sínum sem hann vissi ekki að hann byggi yfir.

 

Unnar, sem var einn okkar bestu manna í dag, átti hörkuskot að marki eftir hálftíma leik sem markvörður Vestra varði vel. Besta færi fyrri hálfleiksins kom þó á 40. mínútu þegar Orri slap einn í gegn en mistókst að koma boltanum fram hjá markverðinum.

 

Þegar ein mínúta var eftir að venjulegum leiktíma sauð upp úr á ný. Rafael frá Súðavík fór þá halloka í einvígi við Þóri, öxl í öxl, uppi við endamörk Frammarksins. Hann ætlaði að svara fyrir sig með því að gefa vænt olnbogaskot til baka í öxl Þóris (eins og menn gera) en misreiknaði sig og sló hann í andlitið. Aðstoðardómarinn flaggaði þegar og rautt spjald virtist óumflýjanlegt. Niðurstaðan varð hins vegar gult spjald, sem var óskiljanlegur úrskurður í ljósi allra aðstæðna. Sem betur fer voru engin börn í námunda við fréttaritarann á þessum tímapunkti. Engill dó.

 

Seinni hálfleikur byrjaði rólega og Nonni þjálfari ákvað að breyta ekki liðsuppstillingunni um sinn. Langbesta færi leiksins leit þó dagsins ljós á fimmtugustu mínútu, nánast upp úr engu. Alexander lyfti boltanum inn á Þóri sem var jafn sannfærður og allir aðrir á vellinum (aðrir en aðstoðardómarinn) um að hann væri rangstæður. Flaggið fór ekki á loft og fátt virtist auðveldara en að skora, en boltinn rataði beint í hendurnar á markverðinum. Sannkallað dauðafæri í súginn og í kjölfarið virtist Þórir sleginn út af laginu.

 

Þegar rúmur hálftími var eftir gerði Fram tvöfalda skiptingu. Aron Þórður og Alex komu inná fyrir Hilmar og Orra. Bölsýnismenn á pöllunum töldu þessa skiptingu óráð og voru fullvissir um að skaphundurinn Alex yrði fljótur að næla sér í rautt spjald í svona tilfinningaþrungnum leik. Annað kom í ljós.

 

Beint í kjölfarið á skiptingunni átti Fram tvær góðar sóknir þar sem Alex kom við sögu. Sókn Framara þyngdist og á 63. mínútu var Unnar klipptur niður. Dómarinn ákvað að lyfta gula spjaldinu, en skokkaði þó fyrst að Unnari til að spyrja hann um númerið á andstæðingnum. Mjög sannfærandi.

 

Frábær aukaspyrna Alberts á 65. mínútu af löngu færi stefndi í bláhornið en óþarflega góður Vestramarkvörðurinn varði með tilþrifum. Þrátt fyrir liðsmuninn voru Framarar miklu líklegri í þessum leikhluta.

 

Þórir fór af velli fyrir Magnús og síðar Alexander fyrir Aron Snæ. Tíminn hélt áfram að líða og markalaust jafntefli virtist sífellt líklegra. Á 87. mínútu tóku gestirnir hins vegar forystuna óvænt og þvert gegn gangi leiksins. Einn Vestramaðurinn skallaði boltann augljóslega í eigin hönd og sendi svo á samherja sem skoraði. Ólafur markvörður mótmælti kröftuglega, en þó með mun hófstilltara orðbragði en fréttaritarinn og sessunautar hans, 0:1. H****tis, f***íng f***…

 

Reiðistigið í stúkunni náði nýjum hæðum og jafnvel dagfarsprúðustu starfsmenn stéttarfélaga sögðu sitthvað sem benti til að þeir væru ansi langt frá því að vera besta útgáfan af sjálfum sér. Leikmenn Framsliðsins voru hins vegar lausnamiðaðri og lögðu allt í að fá eitthvað út úr leiknum.

 

Í uppbótartíma höfðu þeir árangur sem erfiði. Fram tók hornspyrnu sem Alfreð tók og sendi í fallegum boga í yst í teiginn. Þar kom Gunnar miðvörður aðvífandi, hrinti á bakið á einum Vestramanninum með báðum höndum og afgreiddi knöttinn svo glæsilega í markhornið. Augljósasta bakhrinding í heimi en ekkert dæmt, 1:1.

 

Eins furðulega og það hljómar, var það bara betra að jöfnunarmarkið hafi borið að með þessum hætti. Eftir að hafa verið sviknir um brottvikningu, vítaspyrnu og löglegt mark dæmt af – hefði það einfeldlega verið mjög ófullnægjandi að hirða heimavallarstig með góðu og gildu marki. Með svona jöfnunarmarki upplifði maður í það minnsta einhvern snert af réttlæti og dreytillinn úr markapelanum bragðaðist óvenju vel. Næsta stopp: Reykjanesbær á miðvikudag.

 

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!