fbpx
Halli gegn Keflavík vefur

Rúgbrauð

 „Ertu franskbrauð eða rúgbrauð?“ – var vinsæl spurning til krakka hér fyrr á árum, oftar en ekki fylgdu henni einhver glímutök eða bóndabeygjur. Á Íslandi voru almennt framleiddar þrjár tegundir brauða: franskbauð, rúgbrauð og normalbrauð. Það var ekki fyrr en seinna að bökurum datt í hug nýjar uppskriftir og brauðheiti og það þá einvörðungu til að svindla á verðlagsnefnd sem passaði upp á prísinn á vísitölubrauðunum til að rauðu striking í kjarasamningunum héldu.

Allir vildu vera rúgbrauð, því allir vissu að franskbrauð væri fáránleg óhollusta sem leiðindaskarfurinn Thorbjörn Egner var búinn að úthúða í verkum sínum. Börn sem úðuðu í sig franskbrauði vöktu hugrenningatengsl við framlágan Skúla Helgason í hlutverki Jens ganga svipugöngin til tannlæknisins. – Í öðrum fréttum: téður Skúli var ekki mikið upplitsdjarfari í lok leiks í kvöld.

En er rúgbrauð eitthvað svo frábært? Uuu… nei, það að brauð sé dökkbrúnt gerir það ekki hollt. Rúgbrauð er svo sneisafullt af sykri að strangt til tekið er það kaka, á sama hátt og tómatur er strangt til tekið ber og banani er krydd eða eitthvað. Þetta gæti Valur Norðri útskýrt enda er hann matvælafræðingur. Rúgbrauð er í raun fullkomlega glötuð fæða, nema með plokkara. Þá er það ómissandi.

Fyrr í kvöld kom lítill hópur Framara saman og borðaði plokkara. Hann var lostæti og rúgbrauð með. Ómælt. Desertinn var þó bestur: skrifað var undir nýjan tveggja ára samning við brasilíska töframanninn Fred. Betri fréttir gátu Framarar ekki fengið á þessu napra septemberkvöldi. (Þetta reyndust raunar einu góðu fréttirnar á þessu napra septemberkvöldi.)

Illu heilli var Fred borgaralega klæddur. Hann tók út seinni leikinn í leikbanninu sem hann var dæmdur í eftir Vestraleikinn. Það var skarð fyrir skildi. Færni hans í að prjóna sig í gegnum varnir andstæðinganna hefðu skipt sköpum í kvöld. (Höskuldarviðvörun: þessi skýrsla er ekki að fara að enda vel.)

Leikbann Freds voru ekki einu fjarvistirnar sem Nonni þjálfari þurfti að kljást við. Gunnar var líka banni og Alex tognaði í Keflavíkurleiknum. En við áttum þó í ellefu manna byrjunarlið. Ólafur stóð á milli stanganna. Kyle og Hlynur miðverðir, Haraldur og Matthías bakverðir. Orri og Unnar afstast á miðjunni með Albert fyrir framan sig. Alexander og Aron Þórður á köntunum og Þórir frammi. Dagsskipunin var augljóslega að sækja upp hægri kantinn, þar sem talið var að Grindvíkingar væru veikir fyrir.

Grindavík er með gott lið og eitt af þeim betur spilandi í deildinni. Það var því örlítill kvíði í furðulega fámennri stuðningssveit Framara á pöllunum. Líklegt má telja að endalaust hringl með hvort leikir verði með eða án áhorfenda hafi ráðið því að svo margir kusu að sitja heima.

…nema þau hafi lesið veðurspánna? Eftir æsilegar upphafsmínútur þar sem Grindvíkingar vörðu tvívegis á marklínu og gerðu heiðarlega tilraun til að gefa vítaspyrnu, brast á með haggléli á fjórðu mínútu. Matvælafræðingurinn Valur greip í skyndi til regnhlífar sem hann spennti upp, enda hálfgert franskbrauð, en fljótlega var þó komist að þeirri niðurstöðu að skárra væri að halda kúlinu og láta haglið berja sig. Tilhugsunin um fótboltaleiki í Vestmannaeyjum, Akureyri og á Grænlandi síðar í haust verður stöðugt uggvænlegri.

Hjálparsveit skáta var ekki mætt á staðinn þegar hryðjunni slotaði og Framarar gátu haldið áfram að stýra leiknum og reyna að byggja sér upp sóknir. Það gerðist helst upp hægri kantinn, helst með samspili Haraldar og Alberts. Alltof oft virtust sóknirnar þó taka of langan tíma, þurfa of margar snertingar eða vanta örlítið meiri hörku eða neista. Í stað þess að skjóta einfaldlega á markið léku okkar menn eins og að Fred væri inni á vellinum en ekki uppi í félagsheimilinu að gæða sér á plokkara og rúgbrauði.

Grindvíkingar létu sér vel líka að liggja til baka og verjast, enda vissu þeir af eldfljótum framherjum sínum sem gætu refsað hratt með skyndisóknum eftir hálftíma leik nýttu þeir sér augnabliks andvaraleysi í Framvörninni. Okkar eigin Guðmundur Magnússon sneri af sér varnarmann Fram og lagði á félaga sinn sem skoraði. Varnarmenn Fram kvörtuðu, vildu líklega rangstöðu sem ómögulegt var þó að segja til um. Dómarinn kærði sig kollóttann. Og úr því að fréttaritarinn er leiðinlega oft búinn að þurfa að hnýta í dómara í þessum pistlum í ár, er víst rétt og skylt að taka það fram að Jóhann Ingi Jónsson stóð sig vel með flautuna í kvöld.

Markið virtist slá Framara tímabundið út af laginu og fátt bar til tíðinda það sem eftir leið fyrri hálfleiks. Framarar sóttu og reyndu að spila sig alla leið í gegn en síðasta sendingin brást oftast. Unnar átti eitt af örfáum eiginlegum skotum á markamínútunni (sem er víst ekkert markamínúta lengur ef marka má internetið sem sjaldnast lýgur). Undir blálokin virtist boltinn hrökkva í höndina á Hlyni í vítateignum. Dómarinn sleppti því réttilega en við höfum séð annað eins dæmt fyrr í sumar.

Það var slegist um kaffikönnuna í leikhléi. Stemningin var þó bærileg, enda hafa Framarar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar komið sterkir til baka eftir að hafa lent undir. Í ljósi „ástandsins“ var þó ekki boðið upp á kaffibrauð, sem hefði þó gert mjög mikið til að undirbyggja hina langsóttu brauðmetismyndlíkingu þessa pistils.

Allt annað var að sjá til bláklæddra eftir hlé. Eftir um fimm mínútna leik skilaði það sér. Albert sendi á Aron Þórð sem  skeiðaði upp hægri kantinn (hvað annað) og sendi fyrir á Alexander sem afgreiddi boltann vel í netið, 1:1. Í kjölfarið kom hver sóknin á fætur annarri og langflestar að marki gestanna.

Frá 55. til 65. mínútu rötuðu fimm Framsóknir í minnisbókina sem vænlegar eða mjög góðar. Þórir og Alexander komu við sögu í langflestum þeirra – en sem fyrr var eins og Framarar væru ragir við að skjóta og freistuðu þess að spila sig alla leið í gegn.

Sem fyrr segir eru Grindvíkingar með hörkulið og þeir fengu sínar skyndisóknir. Ólafur varði mjög vel í Frammarkinu á 66. mínútu, en á næstu fimm mínútum fengu Framarar fjögur færi eða hálffæri. Næsta mark virtist liggja í loftinu – sem hefði verið afskaplega vel þegið, því septembernepjan hefði vel þolað fleiri sjússa úr markapelanum góða.

Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka fengu Framarar sitt besta færi þegar Alexander og Albert stungu sér í gegnum Grindavíkurvörnina. Albert komst einn á móti markmanni en tók sekúndu of langan tíma í afgreiðsluna og skot hans var varið. Örskömmu síðar sólaði Unnar hvern Grindvíkinginn á fætur öðrum og komst að lokum í hörkufæri sem var líka vel varið.

Gestunum fækkaði um einn inn á vellinum þegar tíu mínútur voru til leiksloka eftir brot á Unnari. Á þessum tímapuntkir voru hvekktir stuðningsmenn í stúkunni orðnir býsna langeygðir eftir skiptingu – vitandi af bæði Tryggva og Má á bekknum. Már kom að lokum inná fyrir Matthías en þá ekki fyrr en um 2-3 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma, fulllítið til að hafa nein teljandi áhrif.

Sóknarþungi Framara undir lokin var á kostnað varnarinnar á köflum. Ólafur átti stórkostlega markvörslu á 83. mínútu eftir eina skyndisóknina og á 85. mínútu var fáránlegur klaufagangur í vörninni við að koma boltanum í burtu sem hefði hæglega getað endað með vítaspyrnu og kostaði Unnar sitt annað gula spjald og þar með leikbann á móti Þór á Akureyri, sem eru afleit tíðindi.

Rétt fyrir lok venjulegs leiktíma sveif boltinn rétt fyrir framan marklínu Grindvíkinga án þess að nokkur næði að pota honum þessa fáeinu sentimetra inn í markið. Vonbrigðastuna fór um pallana og börnin sem sett höfðu verið á trommurnar misstu út takt.- raunar ekki þann fyrsta þetta kvöldið.

Það er gömul og gild regla í fótbolta að þér er refsað fyrir að nýta ekki færin þín. Eftir allar þessar sóknir og mýgrút færa og hálffæra sem okkar liði tókst ekki að nýta, þá hlutu gulklæddir að refsa. Og í bláblálokin í uppbótartíma kom kröftug skyndisókn þar sem vörnin okkar virtist því miður bregðast, 1:2. Fram er fallið niður í þriðja sætið og örlögin eru ekki lengur alfarið í okkar höndum. En það er hellingur eftir. Sigur á Akureyri er lífsnauðsyn. (Einhver lokabrandari um rúgbrauð til að ramma inn þemað sem ég nenni ekki að semja eftir gallsúran tapleik.)

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!