Um árabil var það fastur liður þegar líða tók að leikslokum í heimaleikjum Knattspyrnufélagsins Fram að Siggi Svavars heitinn hóf upp raust sína í hátalarakerfi Laugardalsvallar og tilkynnti um valið á manni leiksins. Það voru ekki dónaleg metorð og verðlaunin ekki síðri: út að borða á Lauga-Ási og geisladisk að eigin vali frá Steinum.
Steinar hf, útgáfufyrirtæki okkar allra besta Steinars Bergs, sem er m.a. textahöfundur viðlagsins: „Framarar – Framarar – Framarar (endurtekið eftir þörfum)“ stofnaði plötuútgáfu sína árið 1975. Fyrsta plata hins nýja fyrirtækis var„Ingimar Eydal og hljómsveit“ – sneisafull af slögurum sem áttu eftir að greipa sig í heilabörk þjóðarinnar.
Árið 1975 var ekki búið að finna upp hugtakið drusluskömmun. Þvert á móti var slík framkoma viðurkennd félagsleg hegðun og sjálfsagt þótti að hæðast að konum sem þóttu lausar á kostunum. Í samræmi við það gildismat var upphafslag plötunnar sænsk gamanvísa sem Sigurður Þórarinsson snaraði og kallaði „Raunasögu úr sjávarþorpi“. Þar segir frá Sigríði dóttur Ásgeirs nokkurs í litlu þorpi úti á landi, sem er ekki við eina fjölina felld í ástarmálum. Hlýst af því barn og er sýslumaður kallaður til leiks. Þótti þetta hin mesta skemmtun á áttunda áratugnum. (Höskuldarviðvörun: mögulegir barnsfeður reynast mýmargir.)
Það var rjómablíða og sterk sól þegar áhorfendur fóru að tínast inn á völlinn í Sambamýri síðdegis. Margir höfðu mætt um morguninn í getraunakaffið til að tryggja sé miða. Fregnir dagsins af covid-smitum gætu þó gefið til kynna að þetta verði síðasti leikurinn á þessu ári sem við stuðningsmennirnir fáum að njóta í eigin persónu. Veit ekki með ykkur, en þessi veira fer ekki á jólakortalistann hjá fréttaritara Framsíðunnar.
Fréttaritarinn og Valur vörslumaður mættu tímanlega og fengu sæti á besta stað og gátu notið fjölbreyttrar tónlistar sem spannaði sviðið allt frá reykvísku gangsterarappi til ítalskra júróvisjónlaga. Tónlistin naut sín vel í græjunum sem einhver hrekkleysinginn stal í liðinni viku en skilaði snarlega þegar í ljós kom að þær tengdust knattspyrnufélaginu Kórdrengjum. Í nálægum sætum voru íþróttafréttamaður RÚV á frívakt og stjórnendateymi Skonrokks frá níunda áratugnum, sem veitti tónlistarvalinu blessun sína þótt enginn væri að spila The Smiths.
Byrjunarlið Fram skipuðu Ólafur Íshól í markinu. Kyle og Gunnar voru í miðvörðunum (Hlynur byrjaði á bekknum) og Haraldur og Alex í bakvarðarstöðunum. Unnar aftastur á miðjunni með Albert fyrir framan sig. Orri og Fred leitandi út á kantana og Alexander og Þórir frammi. Sókndjörf uppstilling.
Lið mótherjanna verður ekki talið upp hér fremur en fyrri daginn, en Þróttarar tefldu þó fram nýju þjálfarateymi. Gamli þjálfarinn fékk sparkið eftir tap gegn Magna á þriðjudag en í hans stað voru ráðnir þeir Kalli Jóns, Gústi læknisins, Nonni Sæmundar, Fúsi Sigurleifs, Palli á Goðanum og Denni í Efstabæ. Með þessu þjálfarafargani er ljóst að Þróttarar munu eiga mjög erfitt með að virða ný fyrirmæli um fjöldatakmarkanir. Framarar hlýða Víði og treysta Nonna og Aðalsteini sem fyrr.
Það var hálfundarlegt andrúmsloft á pöllunum og það skilaði sér út á völlinn. Stuðningsmenn beggja liða voru taugaveiklaðir og þöglir – þó heyrðist öllu meira í gestunum, einkum þegar á leið. Framarar voru seinir í gang og sköpuðu sér sáralítið fyrstu tíu mínúturnar. Á þeim tíma náðu Þróttarar að koma sér í eitt dauðafæri sem Óli varði með hálfgerðri handboltamarkvörslu. Annars bar það helst til tíðinda að spænskur framherji Þróttar var með ólíkindum pirraður, reifst og skammaðist frá fyrstu mínútu og nældi sér í uppsafnað gult spjald strax eftir sex mínútur – sem er… spes. Honum tókst þó einhvern veginn að hanga inn á vellinum út fyrri hálfleik og fékk þá skiptingu.
Eftir þessa hægu byrjun hrukku Framarar í gang og stjórnuðu spilinu næstu 25 mínúturnar. Flestar sóknir gengu út á að sækja upp kantinn Haraldarmegin og senda fyrir. Færin komu hvert af öðru og frá tíundu mínútu til þeirrar fjórtándu skráði fréttaritarinn fjórar góðar sóknir. Úr þeirri fimmtu kom svo markið, en aldrei þessu vant var það af hinum kantinum. Orri (sem átti frábæran leik fyrstu 70 mínúturnar þar til hann fór að þreytast) átti stórkostlega sending utan af kanti fyrir markið á Þóri sem þurfti þó að gera helling til að koma sér í stöðu til að skalla í netið, 1:0.
Tvö góð Framfæri litu dagsins ljós beint í kjölfarið, en Þróttarar áttu þó sínar skyndisóknir og sannast sagna reyndist þeim óþarflega auðvelt að brjótast í gegnum miðjuna hjá okkar mönnum. Alex sópaði boltanum rétt yfir eigin mark í svellkaldri hreinsun á 23. mínútu. Beint í kjölfarið varði Óli vel og ekki í síðasta sinn í leiknum. Allir vita að fréttaritari Framsíðunnar er hlutlægur fram í fingurgóma og lætur enga tilfinningasemi þvælast fyrir dómum sínum – en Ólafur Íshólm er tvímælalaust besti markvörður þessarar deildar.
Næstu mínútur fengu Framarar nokkur færi til að auka forystuna. Alexander komst einn í gegn en Þróttarmarkvörðurinn varði frábærlega og beint í kjölfarið fékk framherjinn tvö góð færi til að komast á blað. Undir blálokin skaut Fred yfir í tvígang en hinu megin á vellinum hafði Óli tvívegis þurft að taka á honum stóra sínum.
Framarar löptu kaffi í hléi og muldu ástarpunga. Hvarvetna mátti sjá fólk með snjallsíma á lofti að tékka á stöðunni í öðrum leikjum. Þar var engar góðar fréttir að finna.
Seinni hálfleikur byrjaði nákvæmlega eins og sá fyrri. Þróttarar höfðu greinilega fengið orð í eyra frá átta manna þjálfarateymi sínu og það lá á okkar mönnum fyrstu mínúturnar. Raunar var ekkert lífsmark með Framlíðinu fyrr en á 51. mínútu þegar Orri náði skoti á mark röndóttra. Í kjölfarið virtust okkar menn hrökkva í gang á nýjan leik og við náðum nokkrum marktækifærum sem flestum lauk þó með alltof lausum skotum eða yfir eða framhjá.
Alexander komst í dauðafæri á 65. mínútu eftir mjög góðan undirbúning Þóris, sem á hrós skilið fyrir frammistöðuna í dag. Inn vildi boltinn ekki. Albert virtist sömuleiðis hafa allan tímann í veröldinni til að skora tveimur mínútum síðar eftir fínan undirbúning frá Alex en skotið fór framhjá.
Bölsýnismenn á bekkjunum muldruðu sitthvað um að liðum hefndist oft fyrir að nýta ekki svo mörg góð færi. Ekkert bólaði þó á skiptingu af bekknum, þótt verulega væri farið að draga af sumum okkar manna.
Fyrsta skiptingin kom ekki fyrr en á 83. mínútu og þá eftir að Albert varð fyrir njaski eftir ítrekuð smábrot Þróttara. Hlynur kom inná í augljóslega varnarsinnaðri skiptingu. Næstu tvær skiptingar komu í uppbótartíma. Fyrst Hilmar fyrir Orra og svo Aron Þórður fyrir Alexander. Á þeim tímapunkti voru Framarar hins vegar búnir að tökin á miðjunni og komnir í hálfgerða nauðvörn á móti gestum sem þrátt fyrir allt voru ekki að sækja neitt. Besta færið á þessum tíma kom þó í hlut Framara þegar Þórir skaut framhjá úr frábæru færi í blálokin eftir góða sending frá Hlyni sem hefðir e.t.v. bara átt að láta vaða sjálfur.
Taugatrekkjandi sigur á móti einu af botnliðunum og það er visst áhyggjuefni hversu brothættir okkar menn hafa verið í tveimur síðustu leikjum þrátt fyrir að ná að stýra öllum stigunum í hús. Það segir sína sögu að Ólafur Íshólm var valinn maður leiksins, þótt hvorki fái hann út að borða á Lauga-Ási né geti hann valið sér geisladisk frá Steinum. Önnur úrslit hjálpuðu okkur ekki neitt og mótið er enn ekki í okkar höndum einvörðungu. Ekki má yfir miklu hlakka, en við verðum einfaldlega að vinna þessa tvo leiki sem eftir eru og vonast til að það komi okkur í hlýtt og notalegt ból.
Stefán Pálsson