Lúðvík Gunnarsson landsliðsþjálfari U15 ára landsliðs Íslands í knattspyrnu valdi nýverið hóp drengja til þátttöku á Hæfileikamóti N1 og KSÍ sem fram fór í Egilshöll dagana 19. – 20. september. Alls voru 66 leikmenn fæddir árið 2006 valdir til æfinga og áttum við Framarar fimm fulltrúa í þeim hópi. Að ósekju hefðum við mátt eiga fleiri fulltrúa í hópnum, margir sem gera tilkall og eflaust einhverjir sem munu fá tækifæri á síðari stigum.
Að þessu sinni voru þeir Breki Baldursson, Heiðar Davíð Wathne, Ívar Björgvinsson, Þorri Stefán Þorbjörnsson og Þorsteinn Örn Kjartansson valdir frá Fram. Allir eru þessir drengir á yngra ári í 3. flokki Fram og stóðu sig vel með öflugu liði 4. flokks í sumar.