Í lagi sínu „Imagine“ frá árinu 1971 kynnir söngvaskáldið John Lennon draumsýn sína um samfélag án aðgreiningar, þar sem búið er að má út öll landamæri og þar sem allar þjóðir heims taki saman höndum og vinni að sameiginlegu markmiði. Hver hefði trúað því að sléttum fimmtíu árum síðar myndi útópía hippans frá Liverpool raungerast? Og að það myndi verða á leikskýrslu fótboltaliðsins Vestra í Lengjudeildinni? Hvílíkir tímar til að lifa!
Knattspyrnufélagið Fram tók á móti liði Sameinuðu þjóðanna í Sambamýri í dag. Veðrið var ákjósanlegt til fótboltaiðkunar. Hlýtt en smásúld. Fréttaritar Framsíðunnar mætti í fallega gula vestinu sínu og gráu ullarpeysunni. Kraftgúgglun leiðir í ljós að grár og gulur eru fullkomlega félagslega viðurkennd litasamsetning, nánast sígild. Margt má segja um klæðarburð fréttaritara, en hann fer aldrei úr húsi án þess að ráðfæra sig við lýðnetið um stíl og litaval, enda augljóslega vor þrátt fyrir að vera klassískur hrútur. Aðrir í stúkunni voru í grámóskulegu flísi eða gorítexi – vanda sig krakkar!
Það var fjölmennt í fínumannahittíngnum í veislusalnum fyrir leik. Framarar leika eins og hugur manns og það sést á mætingunni. Andlit sem ekki hafa sést lengi eru farin að dúkka upp á nýjan leik. Þessu ber að fagna eftir alltof mörg ár af beiskjublöndum smákaffisamsætum fyrir leiki þar sem helmingur viðstaddra er Guðjónsson eða Orrason.
Fréttaritarinn mætti þó of seint til að heyra fulltrúa liðsstjórnar kynna byrjunarliðið. Ekki að það hafi verið af miklu misst. Jón Sveinsson er búinn að finna sína vinningsuppskrift og byrjunarliðið því lítt breytt frá einum leik til annars. Ólafur í markinu, Kyle og Gunnar hafsentar, Halli og Alex bakverðir. Aron Þórður aftastur á miðjunni með Indriða fyrir framan sig, Tryggva og Fred á sitthvorum vængnum, Albert fyrir framan og Þóri uppi á toppi. Það er ekkert grín að sprengja sig inn í þetta lið.
Framarar hófu leikinn af krafti á meðan liðsmenn Þjóðabandalagsins lágu til baka. Ekkert óvænt við það. Flest lið munu mæta á Framvöllinn í ár og pakka í vörn. Það tók afmælisbarnið Albert og Þóri ekki nema mínútu að skapa fyrsta alvöru færið. Þetta yrði langur eftirmiðdagur fyrir gestina að vestan…
Þótt flestir leikmanna Vestra séu ættaðir frá suðurhéruðum Ísafjarðarbæjar hafa þeir tileinkað sér kunnuglegt vestfirskt vinnusiðferði og afstöðu til fótbolta: það er leikið eins stíft og dómarinn leyfir og rétt rúmlega það. Einar Ingi leyfir talsvert og kippir sér lítið upp við að leikmenn noti hendur og það nýttu gestirnir sér óspart frá fyrstu mínútu. Öfugt við það sem gerðist í örlagaríkum leik sömu liða í fyrra létu okkar menn það ekki slá sig út af laginu og héldu fullkomlega ró sinni frá upphafi.
Eftir rúmlega tíu mínútna leik gerðu Framarar heiðarlega tilraun til að skora mark ársins þar sem Albert komst í dauðafæri við markteigslínu, einn Vestramaðurinn kom aðvífandi og náði að renna sér fyrir skot hans, boltinn barst aftur á Albert sem sendi á Fred sem reyndi bakfallsspyrnu sem sleikti markslána.
Eftir tæplega tuttugu mínútna leik urðu gestirnir fyrir áfalli þegar markvörðurinn hneig niður og þurfti í kjölfarið að yfirgefa völlinn, tognaður á nára. Arftaki hans átti eftir að hafa í nægu að snúast.
Eftir 25. mínútna leik fékk Tryggvi knöttinn rétt fyrir utan vítateig og var fljótur að hugsa og stakk inn á Fred sem afgreiddi hann í netið með viðkomu í einum Djúpmanninum, 1:0 og Framarar á pöllunum kættust.
Undir eðlilegum kringumstæðum hefði nú verið komið að markafleygnum góða með rándýrum skoskum einmöltungi – en því var ekki til að dreifa. Enn og aftur brást skjaldsveinninn Valur Norðri! Afsakanirnar verða sífellt fábjánalegri og að þessu sinni þóttist hann þurfa að hlaupa Laugaveginn!!?? Miðað við spandexklæðnaðinn og alla hælsærisplástrana gerir fréttaritarinn þó ráð fyrir að hann hafi amk ætlað sér að taka hálfa Suðurlandsbrautina líka.
Mark Framara breytti litlu um gang leiksins. Vestramenn komust ekkert áfram gegn sultuslakri Framvörninni, þar sem Aron Þórður átti sérlega fínan leik ásamt hafsentunum sem hreinsuðu í burtu allt það litla sem til þeirra barst. Lítið bar annars til tíðinda fram að leikhléi fyrir utan ágætt skot Indriða Áka framhjá og dauðafæris Tryggva þar sem varamarkvörður Vestra varði glæsilega.
Framherjakaffið í veislusalnum var tíðindalítið. Hörðu kleinuafgangarnir urðu mjúkir og fínir eftir dýfu oní ylvolgan uppáhellinginn. Lykilatriðið hér er væntingastjórnun – fréttaritarinn er nýsnúinn úr skólaferðalagi norður í land þar sem fararstjórar máttu gera sér að góðu meint kaffi úr svokallaðri Senseo-vél, en það eru græjur sem kaupahéðnar pranga inn á hrekklaust fólk sem sjálft drekkur ekki kaffi til að gefa gestum. Ljótt, ljótt sagði fuglinn.
Tónninn í stuðningsmönnum var ágætur í hléi. Engu að síður fannst engum að Framliðið hefði almennilega nennt að skipta upp úr öðrum gír. Öllum var þó ljóst að annað mark myndi steindrepa leikinn.
Vestramenn hlutu að freista þess að hleypa leiknum upp í byrjun seinni hálfleiks og lið þeirra varð öllu marksæknara en verið hafði í þeim fyrri. Langbesta færið kom strax á annarri mínútu þegar Óli varði frábærlega og Kyle mátti í kjölfarið hafa sig allan við að hreinsa í burt á marklínu. Ágæt áminning um að ekki má sofna á verðinum gegn liðum á borð við Vestra.
Eftir þessar fyrstu mínútur tóku Framarar völdin á ný. Tryggvi komst í dauðafæri á 50. mínútu en varamarkvörður Vestra greip til handboltamarkvörslu á síðustu stundu, strax í kjölfarið komst Þórir í fínt færi en skallaði naumlega yfir.
Lítið var um færi á báða bóga en okkar menn klárlega alltaf með yfirhöndina. Stemningin í stúkunni var með besta móti. Gorítex- og flíspeysuliðið renndi örlítið niður og leit öfundaraugum til fréttaritarans í vestinu fína. Hlýtt veðrið og stöðulegir yfirburðir urðu til þess að mannskapurinn brást í söng – ekki einu sinni heldur þrisvar meðan á leiknum stóð var kyrjað hið sígilda kvæði „Framarar – Framarar – Framarar“ við texta Steinars Bergs. Það er einu skipti oftar en allt sumarið 2015.
Eftir nærri klukkutíma leik fengu Framarar hornspyrnu. Kyle stökk hæst allra og náði hörkuskalla að marki sem Vestramarkvörðurinn varði snilldarlega. Boltinn hraut hins vegar fyrir fætur bandaríska ofurmennisins sem þrumaði honum upp í markhornið. Hafsent sem getur líka notað lappirnar í vítateig andstæðinganna? Hvaða örlaganorn mútuðum við til að uppskera slíka gæfu? 2:0 – núna máttu stigin þrjú heita í höfn.
Framarar tóku fótinn aðeins af bensíngjöfinni í kjölfar marksins og litlu mátti muna að Vestri refsaði fimm mínútum síðar eftir fágæta skógarferð Óla í markinu en skalli sóknarmanns þeirra fór langt framhjá.
Næstu mínúturnar voru Framarar mun nær því að bæta þriðja markinu við en gestirnir að klóra í bakkann. Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka var svo komið að fyrstu skiptingu Nonna þjálfara (sem Mogginn líkir við Leeds-stjórann – þýðir það að hann sendi Aðalstein til að liggja á gægjum á æfingum annarra liða?) Indriði Áki og Tryggvi fóru af velli fyrir Gumma Magg og Danny Guthrie.
Okkar allra besti Guðmundur hefur ekki komið mikið við sögu í sumar en hann þurfti ekki langan tíma til að láta finna fyrir sér að þessu sinni. Á 77. mínútu tóku Framarar hornspyrnu – og Gummi í treyju númer 77 (skemmtilegt!) tók knöttinn niður og afgreiddi smekklega í bláhornið, 3:0.
Tveimur mínútum eftir markið freistaði dómarinn þess að minnka metin með furðulegum vítaspyrnudómi á Kyle – þar sem flestum á vellinum mátti vera ljóst að hann var löngu búinn að spyrna boltanum í burtu áður en aðvífandi Vestramaður hljóp á hann. Súðvíkingurinn Kundai Benyu er hins vegar maður með sterka réttlætiskennd og gat ekki hugsað sér að skora úr svona svindlvíti og sópaði boltanum yfir úr vítaspyrnunni.
Fréttaritarinn er alveg maður í að viðurkenna að hann er ennþá örlítið starströkk í hvert sinn sem gamla úrvalsdeildarkempan Guthrie kemur við sögu. Þetta kortér sem hann fékk nú úr að spila var afar tíðindalítið, ef undan er skilið eitt atvik á 81. mínútu þegar maðurinn með sveru kálfana fékk boltann og náði gjörsamlega geðveikri sendingu beint í tærnar á Alberti sem náði því miður ekki að koma boltanum í netið. Mættum við fá meira að heyra!
Tveimur mímútum síðar koma lokamarkið. Aron Þórður átti góða sendingu upp að endamörkum þar sem Albert kom aðvífandi og sendi fyrir markið – varnarmaður Vestra náði að komast fyrir skot Þóris (og líklega brjóta á honum) en það skipti ekki máli því Gummi Magg kom aðvífandi og skoraði sitt annað mark, 4:0. Leikur búinn.
Í kjölfarið gerði Jón þrefalda skiptingu. Halli, Aron Þórður og Þórir fóru af velli en þeir Alexander, Óskar og Arnór Daði komu inná. Gleðilegt að sjá Arnór Daða koma inn í liðið á ný. Breiddin í hópnum okkar er ískyggileg.
Lokaflautið gall og Framarar á pöllunum fögnuðu vel og tóku undir í zigga-zagga. Ég veit vel að stjórnendur félagsins eru á fullu í væntingastjórnun og hamra á því að taka beri einn leik í einu – en fréttaritarinn ætlar samt að láta vaða: við erum bara með drulluflott lið eins og staðan er í dag. Bestu menn okkar eru langbestu leikmenn deildarinnar. Við erum með langbesta hópinn. Við skorum að vild og vörnin okkar er óárennileg. Meira að segja volga og beiska kaffið okkar og hörðu kleinurnar bera af í samanburði við aðra. Lengi megi það standa!
Næsti leikur er gegn Selfossi á útivelli. Þar verður enginn fréttaritari, sem sökkar feitt. Ástæðan er sú að táningurinn á heimilinu er víst að útskrifast úr grunnskóla og í þessu samfélagi pólitískrar rétthugsunar kallar það víst á „samverustund fjölskyldunnar“. Hvað varð um gömlu góðu dagana þegar börn héldu upp á þennan áfanga í hópi vina á Hallærisplaninu með Absolut Vodka í Fanta Lemon. Er ekkert lengur heilagt?
Stefán Pálsson