U18 ára landslið kvenna vann glæstan sigur á Slóvakíu í öðrum leik liðsins í undankeppni EM í dag, en mótið fer fram í Serbíu.
Leikurinn var hnífjafn fyrstu mínúturnar en íslenska liðið var þó ívið sterkara og um miðjan fyrri hálfleikinn var staðan orðin 10-6, Íslandi í vil. Í framhaldinu tók við slæmur kafli hjá stelpunum okkar og Slóvökunum tókst að snúa leiknum sér í hag. Í stöðunni 11-12 tók íslenska liðið leikhlé og liðin skiptust síðan á mörkum fram að hálfleik þar sem staðan var 14-15, Slóvakíu í vil.
Í síðari hálfleik var komið að Slóvökunum að fara betur af stað og náðu þær mest þriggja marka forskoti. En þegar rétt tæplega 10 mínútur voru eftir af leiknum settu stelpurnar okkar í fluggírinn og náðu að jafna leikinn, 24-24. Á lokasprettinum náði Ísland síðan að gera út um leikinn og niðurstaðan því frábær íslenskur sigur, 29-26.
Íslensku stelpurnar sýndu á köflum flotta spilamennsku, en sigurinn skóp engu að síður frábær vörn og mikilvægar markvörslur á lykilaugnablikum í leiknum.
Sannkallaður liðssigur, en markahæstar voru þó þær Elín Klara Þorkelsdóttir með 9 mörk og Thelma Melsted Björgvinsdóttir með 6 mörk.
Síðasti leikur liðsins verður á fimmtudaginn gegn heimastúlkum í Serbíu, en eftir sigur Serba gegn Slóvenum í dag er ljóst að það verður úrslitaleikur um laust sæti í A-keppni EM árið 2023. Leikurinn hefst kl. 17.00 að íslenskum tíma og verður sýndur beint á www.EHFTV.com.
Markaskor:
Elín Klara Þorkelsdóttir – 9 mörk
Thelma Melsted Björgvinsdóttir – 6 mörk
Lilja Ágústsdóttir – 4 mörk
Tinna Sigurrós Traustadóttir – 3 mörk
Inga Dís Jóhannsdóttir – 3 mörk
Sara Dröfn Richardsdóttir – 2 mörk
Katrín Anna Ásmundsdóttir – 1 mark
Þóra Björg Stefánsdóttir – 1 mark
Embla Steindórsdóttir – 3 mörk
Katrín Anna Ásmundsdóttir – 2 mörk
Ingunn María Brynjarsdóttir – 13 varin skot
Share this post
Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email