Jólin koma snemma hjá meistaraflokki kvenna þetta árið. Fimm ungir og efnilegir leikmenn voru að skrifa undir samninga og framtíðin verður sífellt bjartari.
Kristín Gyða Davíðsdóttir er 18 ára varnarsinnaður miðjumaður sem getur einnig leyst vinstri bakvörð. Hún hefur spilað með Fram síðustu 2 tímabil sem lánsmaður frá Aftureldingu en er nú alfarið komin yfir til okkar.
Oddný Sara Helgadóttir er tvítugur sóknarsinnaður miðjumaður sem gekk til liðs við Fram frá FH fyrir síðasta tímabil. Oddný býr yfir miklum hraða og tækni og kann að skora mörk.
Oddný og Kristín Gyða gegndu báðar lykilhlutverki í velgengni síðasta tímabils. Það eru því frábærar fréttir fyrir liðið að þær semji báðar við liðið til næstu tveggja ára.
Þrír nýjir leikmenn hafa svo gengið til liðs við félagið.
Fanney Birna Bergsveinsdóttir og Ásta Fanney Hreiðarsdóttir eru báðar mjög efnilegir 18 ára sóknarmenn sem koma frá Víkingi.
Guðlaug Embla Helgadóttir er svo virkilega spennandi 17 ára miðvörður sem kemur frá Breiðablik.
Allar gera þær tveggja ára samning við félagið og við hlökkum gríðarlega til að sjá þær blómstra með félaginu á nýjum og glæsilegum velli í Úlfarsárdal næstu árin.
Knattspyrnudeild Fram