fbpx
ragnheidur

Hver verður “Íþróttamaður Fram” 2021 ? Þau eru tilnefnd

Tilnefnd frá Almenningsíþróttadeild Fram

Dalrós Inga Ingadóttir – Dalrós Inga er fædd 2003. Hún er alin upp sem Framari og æfði m.a. handbolta með félaginu þegar hún var í grunnskóla. Hún byrjaði síðan að hlaupa með Skokkhópi Fram árið 2019 og hefur eiginlega ekki stoppað síðan.

Dalrós byrjað að stunda hlaup í framhaldi af því að hafa fengið að prófa að mæta með foreldrum sínum á æfingar hjá Skokkhópi Fram. Henni líkaði mjög vel við æfingarnar, þjálfarana og félagsskapinn og hafði því mjög gaman af því að mæta á æfingar. Í framhaldinu fór hún að hlaupa lengri vegalengdir og fór því að leita að enn meiri áskorunum og stundar nú æfingar með UltraForm í Grafarholti. Smátt og smátt hefur keppnishlaupunum fjölgað og vegalengdirnar orðið lengri. Dalrós er aðeins 18 ára gömul og getur því átt framtíðina fyrir sér í hlaupunum. Almenningsíþróttadeildin og Skokkhópur Fram eru stolt af þessum glæsilega fulltrúa ungu kynslóðarinnar.

Helstu afrek og keppnishlaup ársins hjá Dalrós árið 2021 eru:

Fimmvörðuháls – 28 km, 1. sæti í kvennaflokki.
Súlur Vertical (28 km, 3. sæti í kvennaflokki)
Austur Ultra (20 km, 3. sæti í kvennaflokki)
7 tinda hlaupið (38,2 km, 3. sæti í kvennaflokki)
Laugavegurinn (55 km, 4. sæti í sínum aldursflokki meðal kvenna)
Salomon Hengill Ultra Trail 28 km
Bakgarður Náttúruhlaupa – Heiðmörk – 100 km

Tilnefnd frá Knattspyrnudeild Fram

Erika Rún Heiðarsdóttir – Erika Rún miðvörður er fædd árið 2001 en hún hóf ferilinn sinn hjá Snæfellsnes. Aðeins 14 ára gömul var hún farin að spila meistaraflokksleiki með Víking Ó og spilaði alls 16 leiki með þeim. Árið 2018 leik hún nokkra leiki með sameiginlegu liði Aftureldingar/Fram/Víking Ó. áður en hún fór út til Valencia að spila.  Eftir að heim var komið gekk hún í raðir Aftureldingar árið 2019, lék 18 leiki með þeim á því tímabili. Erika Rún gekk svo í raðir Fram árið 2021 eftir að hafa verið frá í um eitt tímabil vegna meiðsla.Erika Rún lék 14 leiki fyrir félagið í sumar/haust, var fyrirliði liðsins og skoraði sitt fyrsta mark fyrir Fram. Erika er jákvæður leiðtogi, lætur vel í sér heyra inn á vellinum og stjórnar vörninni með sóma. Hún er frábær manneskja innan vallar sem utan. Hún er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins, tekur ávallt vel á móti öllum og er hress og skemmtileg.Við í Fram eru stolt af fyrirliðanum okkar og teljum hana vera til fyrirmyndar bæði sem íþróttamaður og manneskja.

Tilnefnd frá Taekwondodeild Fram

Jenný María Jóhannsdóttir – Jenný hóf á árinu keppni í B flokki, sem er viðurkenndur alþjóðlegur keppnisflokkur og sá flokkur sem brottfall úr keppni er sem mest. Það voru fá keppnismót á árinu en Jenný lét þó engan bilbug á sér finna og vann silfur verðlaun í öllum þrem flokkum Íslandsmótsins í tækni og stimplaði sig í framhaldinu inn í A landslið Íslands í tækni.
Jenný er einstaklega jákvæð og hlý manneskja með þægilega nærveru og vinsæl innan deildarinnar. Jenný fékk viðurkenningu fyrir mestar framfarir á árinu.


Tilnefndur frá Taekwondodeild Fram

Leevi Kaunio Sveinbjörnsson
– Leevi hefur vaxið gríðarlega á líðandi ári, bæði sem íþróttamaður og sem manneskja. Hann sýndi miklar framfarir á árinu, vann sig úr C flokki upp í B flokk, sem er viðurkenndur alþjóðlegur keppnisflokkur, ásamt því að vinna sér sæti í B landsliði Íslands í tækni.
Leevi er einn duglegasti iðkandinn sem deildin hefur átt. Hann tekur leiðsögn einstaklega vel og er hann frábær fyrirmynd fyrir liðsfélaga sína sem og nýja iðkendur og er hann án efa lykilmaður í framtíð deildarinnar.


Tilnefndur frá Knattspyrnudeild Fram

Ólafur Íshólm Ólafsson – Ólafur Íshólm markvörður Fram er fæddur árið 1995.  Ólafur er uppalinn Fylkismaður og lék með öllum yngri flokkum Fylkis og upp í meistaraflokk áður en hann skipti yfir í Breiðablik árið 2017. Hann kom á láni til okkar Framara í febrúar 2019 og lék með okkur þar til hann var kallaður aftur til Breiðabliks um mitt sumar 2019.  Haustið 2019 samdi Ólafur svo við okkur Framara og í lok síðasta tímabils framlengdi hann samning sinn við félagið út keppnistímabilið 2023.

Ólafur átti virkilega gott tímabil í hinu frábæra Framliði sem setti stigamet og fór taplaust í gegnum Lengjudeildina í sumar.   Ólafur lék 23 leiki í deild og bikar á tímabilinu.  Með aðstoð liðsfélaga sinna hélt hann markinu hreinu á útivelli í deildinni frá því í maí og fram í lok ágúst.  Fyrsta markið sem Ólafur fékk á sig á útivelli skoruðu Þróttarar framhjá honum í 18. umferð.  Hann var einn af burðarásum liðsins og einn af leiðtogum hópsins.  Góð frammistaða Ólafs fór ekki framhjá sparkspekingum og var hann valinn í lið ársins á fotbolti.net og á sjónvarpsstöðinni Hringbraut. 
Ólafur hefur gegnt stöðu varafyrirliða og borið fyrirliðabandið í fjarveru Hlyns Atla Magnússonar. 
Ólafur er mikill liðsmaður sem fer fyrir með góðu fordæmi og lætur vel í sér heyra inni á vellinum.  Þá er hann góður félagi innan sem utan vallar og góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í félaginu.

Tilnefndur frá Handknattleiksdeild Fram

Stefán Darri Þórsson –  Stefán Darri er fyrirliði karlaliðsins og mikil fyrirmynd yngri leikmanna.  Duglegur, fórnfús og meiri Framara er erfitt að ímynda sér.  Hann leiðir liðið með góðu fordæmi ásamt því að vera einn af bestu leikmönnum liðsins.  Hann spilaði afar vel fyrir okkur á síðasta tímabili og byrjar núverandi tímabil af sama krafti og áður.  Hann er alltaf tilbúinn að aðstoða og leggja sitt af mörkum fyrir félagið sem er ómetanlegt.  Stefán Darri var valinn mikilvægasti leikmaður Fram á síðasta tímabili.

Tilnefnd frá Handknattleiksdeild Fram

Þórey Rósa Stefánsdóttir – Þórey Rósa býr yfir miklum drifkrafti sem hún nýtir óspart til að hvetja liðsfélaga sína áfram.  Hún hefur jákvætt viðhorf og leggur sig alltaf 100% fram í öll verkefni og á hverri einustu æfingu.  Hún hefur skorað mikið með okkar frábæra kvennaliði undanfarin tímabil.  Hún hefur verið afar dugleg við að leggja sitt af mörkum fyrir félagið og er mikil fyrirmynd yngri leikmanna.  Enda ekki margir leikmenn innan okkar raða sem hafa orðið Evrópumeistarar en það gerði Þórey Rósa einmitt vorið 2013 með liði Tvis Holstebro.

Knattspyrnufélagið Fram óskar öllu þessu glæsilega íþróttafólki til hamingju með tilnefninguna. Við munum svo tilkynna um valið á “Íþróttamanni Fram” 2021, fimmtudaginn 30. des.  Nánar síðar. 

Knattspyrnufélagið Fram 

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!