Ólafur Íshólm Ólafsson markvörður Fram er fæddur árið 1995. Ólafur er uppalinn Fylkismaður og lék með öllum yngri flokkum Fylkis og upp í meistaraflokk áður en hann skipti yfir í Breiðablik árið 2017.
Hann kom á láni til okkar Framara í febrúar 2019 og lék með okkur þar til hann var kallaður aftur til Breiðabliks um mitt sumar 2019. Haustið 2019 samdi Ólafur svo við Fram og í lok síðasta tímabils framlengdi hann samning sinn við félagið út keppnistímabilið 2023.
Ólafur átti virkilega gott tímabil í hinu frábæra Framliði sem setti stigamet og fór taplaust í gegnum Lengjudeildina í sumar. Ólafur lék 23 leiki í deild og bikar á tímabilinu. Með aðstoð liðsfélaga sinna hélt hann markinu hreinu á útivelli í deildinni frá því í maí og fram í lok ágúst. Fyrsta markið sem Ólafur fékk á sig á útivelli skoruðu Þróttarar framhjá honum í 18. umferð.
Hann var einn af burðarásum liðsins og einn af leiðtogum hópsins. Góð frammistaða Ólafs fór ekki framhjá sparkspekingum og var hann valinn í lið ársins á fotbolti.net og á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.
Ólafur hefur gegnt stöðu varafyrirliða og borið fyrirliðabandið í fjarveru Hlyns Atla Magnússonar. Ólafur er mikill liðsmaður sem fer fyrir með góðu fordæmi og lætur vel í sér heyra inni á vellinum.
Þá er hann góður félagi innan sem utan vallar og góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í félaginu.
Alls hefur Ólafur spilað 95 leiki í tveimur efstu deildum Íslandsmótsins og bikarkeppninni. Þar af hefur Ólafur leikið 60 deildar- og bikarleiki fyrir Fram og vonandi munum við Framarar njóta krafta hans sem lengst.
Til hamingju Ólafur Íshólm.
Myndir af Ólafi er hægt að finna hér http://frammyndir.123.is/pictures/
Við óskum þeim sem voru tilnefndir til hamingju, sannarlega glæsilegur hópur.
Njótið áramótanna en förum varlega.
Knattspyrnufélagið Fram