Það er yndislegt þegar vorið kemur til Íslands, grasið tekur að grænka og fuglarnir að syngja. Best er þó þegar fótboltinn byrjar að rúlla og flautað er til leiks á Íslandsmótinu. Er í raun hægt að hugsa sér nokkuð skemmtilegra en að leika fyrsta heimaleikinn á móti sögufrægasta fótboltaliði landsins. Félagi sem er þekkt fyrir kröfuharða og ástríðufulla stuðningsmenn, en leggur þó alltaf áherslu á létt og skemmtilegt spil? Já, Hafnfirðingar eru svo sannarlega lukkunnar pamfílar. En nóg um leikinn í Kaplakrika á mánudag, dembum okkur í að fjalla um leik kvöldsins.
Það var sérkennilegur fiðringur í maga fréttaritara Framsíðunnar á leiðinni á völlinn. Fréttaritarinn er oft harlagóður, stundum ágætur en sjaldan bestur. Sjö ára kynningar- og útbreiðslustarfi Fram á stöðum eins og Grenivík og Fáskrúðsfirði er lokið og félagið komið á ný í efstu deild – sem hefur að því tilefni verið endurskírð sem „Besta deildin“. Þar er allt best. Besta umfjöllunin. Bestu sjónvarpsauglýsingarnar. Besta kaffið og bestu rigningarskúrarnir. Meira að segja skýrslurnar eftir tapleiki eru bestar.
Fínumannasamkvæmið var í Framsalnum þar sem boðið var upp á besta kaffið og bestu nautahakkskássuna. Með því var framreitt brauð, sem fréttaritarinn er ekki fjarri því að hafi verið best. Það var stemningin í hópnum, en flestir þó varfærnir. Fréttir af viðbótum við hópinn hafa verið að berast fram á síðustu stundu og hætt við að mannskapurinn verði stundarkorn að hrista sig saman.
Nonni mætti, ávarpaði hópinn og gerði lítið úr bölsýnisspám. Benti á að þrátt fyrir meiðsli nokkurra leikmanna væru sterkir menn sem kæmust ekki einu sinni á bekkinn. Leikaðferðin í þessum fyrsta leik á móti KR væri sú sama og við hefðum meira og minna keyrt á í fyrra: 4-2-3-1, þótt raunar værum við núna með mannskap sem biði upp á fleiri og fjölbreytilegri uppstillingar.
Ólafur Íshólm var vitaskuld í markinu og fyrirliði. Miðverðir voru Gunnar Gunnarsson og dansk/kongólski nýliðinn Delphin Tshiembe. Hann virðist vera varnarmaður þeirrar gerðar sem liggur alls ekkert á að koma frá sér boltanum (sem Jón Sveinsson hlýtur að telja mikinn kost). Í bakvörðunum voru Alex Freyr og Jesús Yendis frá Venesúela. Aftast á miðjunni voru þeir Orri Gunnarsson og Indriði Áki. Sérstaklega gaman að sjá Orra í byrjunarliði, en það hefur nú ekki gerst oft á síðustu árum í hans makalausu meiðslagöngu. Albert Hafsteinsson var fremst á miðjunni með Má Ægisson og Fred hvorn á sínum kanti. Gummi Magg uppi á toppi.
Leikurinn byrjaði rólega og fréttaritarinn og skjaldsveinninn tryggi, Valur Norðri með markafleyginn langbesta, höfðu nægan tíma til að virða fyrir sér mannhafið á rækilega uppseldum vellinum. Geiramenn höfðu hitað upp á nálægri ballskákarstofu og voru jafnvel komnir í ofþjálfun þegar leikurinn hófst. Kemur fyrir á bestu bæjum. (Sáuð þið hvað ég kom einum bestu-brandara áreynslulaust fyrir hérna!)
Eftir tíu mínútna leik leit fyrsta færið dagsins ljós og endaði með marki. Einn KR-ingurinn skeiðaði upp kantinn og upp að endamörkum, Gunnar renndi sér á eftir honum en missti af boltanum sem hrökk fyrir markið, þar sem eitthvað fát kom á Alex sem missti hann fyrir tærnar á aðvífandi KR-ingi sem skoraði auðveldlega, 0:1. (Í ljósi þess að þessir pistlar hafa nú öðlast nýjan lesendahóp stuðningsmanna annarra liða í bestu deildinni er rétt að útskýra strax að það er ekki til siðs í þessum leikskýrslum að nafngreina aðra leikmenn en Framara. Þetta er ekki gert af illvilja eða í niðrandi tilgangi. Nöfn leikmanna annarra félaga vekja einfaldlega ekki áhuga okkar – þeir skipta okkur ekki máli.)
Fréttaritarinn og Valur Norðri bölvuðu hressilega í hljóði. Aðrir ekki jafn mikið í hljóði. Meira um það síðar.
Eftir þetta ferlega slysalega upphafsmark, sem afar erfitt var að túlka sem best á nokkurn hátt, reyndu Framarar að vinna sig aftur inn í leikinn. Ekki liðu þó nema fjórar mínútur áður en ógæfan reið yfir á nýjan leik. KR-ingur tók aukaspyrnu (nei, ég er ekkert að grínast með þetta – ég mun í lengstu lög forðast að nafngreina þá) sem rataði beint á kollinn á öðrum svarhvítum sem stangaði glæsilega í netið. Áttu varnarmennirnir okkar að vera betur staðsettir? Jújú, kannski – en fyrst og fremst var þetta bara helvíti flott aukaspyrna.
Að lenda 0:2 undir eftir kortér var ekki hluti af besta planinu og Framarar á pöllunum óttuðust algjört hrun. Vörnin virtist ósamstillt og aðalvandamálið var að Vesturbæingarnir gátu hlaupið í gegnum miðjuna óáreittir að vild. Leikmönnum Fram til hróss létu þeir ekki hugfallast og reyndu að sækja. Jesú hinn venesúelski átti flotta stungu inn á Guðmund sem var óheppinn að ná ekki til boltans. Fréttaritarinn varð strax hrifinn af þessum leikmanni sem er greinilega hörkuspilari og á eftir að leggja mikið upp fyrir okkur í sumar. Fljótlega í kjölfarið fengu Framarar 2-3 ágætis hálffæri eftir að Alex eða kantmennirnir komust upp að endamörkum og sendu fyrir, en okkar mönnum tókst ekki að ná almennilegum skotum á markið.
Sóknin virtist vera að þyngjast jafnt og þétt, en eftir langa sóknarlotu Fram eftir tæplega hálftíma leik unnu KR-ingar boltann, ruku í skyndisókn og skoruðu eftir að hver Framarinn á fætur öðrum virtust stilla sig um að stoppa sóknina með broti. Prúðmennska er fín, en þetta er nú einum of.
Með þriggja marka forystu gátu KR-ingar dregið sig aftar á völlinn og látið tímann líða. Framarar sóttu en sköpuðu lítið og yfirleitt vantaði herslumuninni. Undir lok fyrri hálfleiksins var Jesú sparkaður fólskulega niður út á miðjum velli og var honum skipt út af í hálfleik fyrir Tryggva Snæ sem fór á kantinn og Már í bakvörðinn. Pétur dómari sá ekki ástæðu til að draga fram gula spjaldið, sem var rangt og ekki eina atriðið í leiknum sem fór í taugarnar á Frömurum í stúkunni. Það verður hins vegar ekki komist hjá því að nefna að nokkrir of tilfinningaríkir stuðningsmenn fóru langt yfir strikið í hrópum sínum og köllum. Við Framarar erum ekki skríll og það er ekki í boði að öskra að dómurum eða leikmönnum andstæðinganna að þeir séu ræflar og aumingjar, hvað þá innan um fjölda barna. Þetta er ekki í lagi og taki þeir til sín sem eiga. Við erum stödd á fótboltaleik en ekki Búnaðarþingi.
Stemningin í hléi var örlítið blúsaðri en fyrir leik. Nema þá helst hjá Páli KR-formanni, frænda fréttaritarans sem einhvern veginn hafði kjaftað sig inn í Framherjakaffið. Skjaldsveinninn Valur gerði svo dýrindis eplaköku með rjóma góð skil og bað um að því væri komið á framfæri að þetta væri besta eplakakan með frábæru jafnvægi epla og kanils. Ef allt fer í skrúfuna hjá okkur á fótboltavellinum gæti Fram í það minnsta opnað veisluþjónustu.
Seinni hálfleikur var mun skárri en sá fyrri. KR-ingarnir fengu vissulega sín færi og létu Framvörnina svitna, en Framarar áttu einnig sínar sóknarlotur. Albert, sem hafði látið lítið fyrir sér fara fyrir hlé hresstist talsvert og þeir Már og Alex áttu góða spretti. Eftir rétt um klukktíma leik uppskáru Framarar, þar sem Guðmundur náði eftir snarpa sókn að leggja boltann fyrir Má sem minnkaði muninn í 1:3.
Fljótlega eftir markið gerðu Nonni og Aðalsteinn tvöfalda skiptingu. Orri og Fred fóru af velli fyrir Hosine Bility og Jannik Holmsgaard. Skömmu síðar kom Hlynur inn fyrir Delphin. Fimmta og síðasta skiptingin var svo undir lokin þegar Magnús Ingi leysti Guðmund af hólmi.
Fyrst eftir markið virtust Framarar ætla að láta hné fylgja kviði og opna leikinn upp á gátt. Gummi Magg átti fínan skalla á 78. mínútu sem Beit… ég meina KR-markvörðurinn varði vel. Sá var aftur á ferðinni nokkrum mínútum síðar þegar Már átti bylmingsskot að marki. Allar vonir um fræga endurkomu voru þó slegnar í jörðina þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. KR skoraði fjórða markið sem var nánast endurtekning á því þriðja, þar sem Framarar voru komnir of framarlega á völlinn, misstu boltann og gestirnir ruku upp og skoruðu. Framvörnin leit afar illa út í þessu marki. Ekki hennar besti dagur. (Nei Stefán, nú hættir þú.)
Litlu mátti muna að Frömurum tækist að vinna þó ekki væri nema seinni hálfleikinn þegar við fengum víti í uppbótartíma. Albert hafði rétt áður skallað í stöngina og Jannik var kippt niður þegar hann reyndi að ná frákastinu. Vítaspyrna Alberts rataði hins vegar í fangið á KR-markverðinum og 1:4 tap varð staðreynd.
Það er engin ástæða til að fara á taugum þótt ekki hafi tekist að hefna ranglætisins frá ´95 (aldrei gleyma, aldrei fyrirgefa) að þessu sinni. Vörnin bar þess merki að vera ekki fullmótuð, við söknum Arons Þórðar af miðjunni og sóknin þarf að smella. En þegar það gerist þá verður þetta allt í lagi. Besta lagi, nánar tiltekið.
Stefán Pálsson