Fréttaritari Framsíðunnar er maður sem hugsar mikið um klæðaburð og stíl, sem kunnugt er. Fatnaður hans er útpældur og tekur einatt mið að aðstæðum og mótherjum hverju sinni. Sárasjaldan hefur honum orðið hált á svelli tískunnar, þótt óneitanlega hafi það verið pínkulítið vandræðalegt um árið þegar hann mætti í þverröndóttum, grænum og hvítum pólóbol á Evrópuleik Fram og The New Saints frá Wales. Í ljós kom að nýju dýrlingarnir höfðu tekið Íþróttafélag Kópavogs sér til fyrirmyndar við búningahönnun…
Minnugur þessa vandræðalega augnabliks um árið, kom aldrei til álita að mæta í gula vestinu góða á leik gegn Skagamönnum í Safamýri í kvöld. Grár vindjakki utanyfir þunnu gráu ullarpeysuna var raunar mun hentugari klæðnaður í nepjunni. Enginn saknaði gula vestisins, því allra augu voru á flottustu flíkunum: glansandi fínu og ofboðslega bláu jökkunum sem Toggi úr handboltanum mokaði út til gesta og gangandi fyrir leik. Annar hver maður í stúkunni skartaði þessum ofursvölu jökkum, sem verða öfundarefni allra andstæðinga okkar í Bestu deildinni í sumar. Hlýtur að vera dálítið svekk fyrir stórfiskana í deildinni að nýliðarnir séu bæði flottastir í tauinu og um leið miklu þroskaðri andlega.
Fréttaritarinn kom seint í fínumannaboðið, með varaþurrk og sinaskeiðabólgu eftir að hafa kysst ungabörn og tekið í spaðann á alþýðunni í frambjóðandasnatti dagsins. Nonni þjálfari var búinn að kynna byrjunarliðið og því var ekki annað að gera en að reyna að púsla saman leikskipulagi með hjálp Fótbolta.net. Því verður líklega best lýst sem strangheiðarlegu 4-4-2, sem við sjáum nú ekki á hverjum degi hjá Framliðinu.
Ólafur stóð vitaskuld í markinu með þá Delphin Thsiembe og Þóri Guðjónsson í miðvörðunum. Þórir lenti óvænt í þessari nýju stöðu á undirbúningstímabilinu en skilar henni vel. Var traustur í sínum aðgerðum og kom boltanum vel fram á völlinn. Már og Alex voru í sitthvorri bakvarðarstöðunni. Hlynur Atli og Indriði Áki voru í hjarta miðjunnar, með Albert fyrir framan sig. Fred á öðrum kantinum og Jannik einhvern veginn mitt á milli þess að vera frammi og á hinum kantinum og Gummi Magg fremstur.
Valur Norðri var nýkominn heim úr vinnuferð í Portúgal og treysti sér ekki á völlinn. Líklega tekur hann ekki inn nægilega mikið lýsi, sem er frekar glatað fyrir matvælafræðing. Það var því enginn markapeli með í för. Fréttaritarinn kom sér hins vegar fyrir á kunnuglegum slóðum við miðjan völlinn og sat á milli mömmu Þóris Guðjónssonar og Sævars Guðjónssonar. (Hér er rétt að taka fram að Þórir Guðjónsson og Sævar Guðjónsson eru ekki bræður. Fréttaritarinn var altso með móður Þóris sér á hægri hönd og Sævar sér á vinstri hönd.) Og þar var nú ekki töluð vitleysan. Þremur röðum neðar sátu Geiramenn, glerfínir í nýju jökkunum sínum. Hefur komið nægilega skýrt fram hversu flottir jakkar þetta eru?
Leikurinn byrjaði rólega og fátt rataði í minnisbók fréttaritarans ef frá er talið hrós til hins danska Janniks fyrir að spila einn manna í stuttermabol og stórt spurningamerki við treyju Óla markvarðar, sem minnti óþægilega mikið á HK-búninginn – en auðvitað getum við ekki unnið tískuslaginn á öllum sviðum. Smásmugulegur eftirlitsmaður KSÍ gæti sömuleiðis gert athugasemd við að Skagamarkvörðurinn var í keimlíkri treyju og báðir voru í rauðum stuttbuxum og rauðum sokkum. Dómaratríóið var raunar líka í rauðum sokkum og gerði Óskar með hattinn vel í því að vekja athygli þeirra á þeirri staðreynd með jöfnu millibili.
Eftir tíðindalítinn fyrsta stundarfjórðung tóku Framarar að bæta í sóknina. Albert átti góða stungu inn á Alex sem var nærri kominn í kjörfæri og sama gerðist skömmu síðar þegar Þórir var nærri búinn að koma boltanum í gegn á Albert. Skagamenn fengu sín færi og Óli þurftu að verja vel á 19. mínútu.
Þegar fyrri hálfleikur var akkúrat halfnaður átti Alex góða sendingu á Albert sem stóð utarlega í teignum og lagði boltann umsvifalaust fyrir markið þar sem Guðmundur Magnússon kom aðvífandi og skoraði af harðfylgi, 1:0.
Því miður var eins og botninn dytti úr leik Framara við markið. Eftir að hafa verið mun líflegri tíu mínúturnar á undan virtist liðið skorta ákveðni og gulklæddir fikruðu sig framar á völlinn. Þótt Framarar ættu skyndisóknir var þunginn í Skagasókninni meiri og jöfnunarmarkið kom ekki á óvart. Það kom þegar um fimm mínútur voru eftir af hálfleiknum. Alex átti glæfralega hreinsun sem virtist ætla að enda með stórkostlegu sjálfsmarki en fór í horn. Úr hornspyrnunni barst boltinn á Skagamann sem var gjörsamlega óvaldaður á fjærstönginni. Hann skaut að marki, Óli henti sér fyrir boltann en línuvörðurinn mat það sem svo að skotið hafi farið yfir línuna. Við skulum bara vona að það hafi verið rétt.
Kaffið var drukkið stíft í hléi þar sem stuðningsfólk kepptist við að ná upp kjarnhita. Mikið var skrafað um nýja völlinn í Úlfarsárdal, sem enginn virðist almennilega vita hvort verði tilbúinn fyrir næsta heimaleik. Var þetta kveðjuleikur í Safamýri eða fær gamli völlurinn eina kveðjuveislu í viðbót? Spyr sá sem ekki veit.
Framarar mættu ákveðnir til leiks eftir hlé og eftir nokkurra mínútna leik skapaðist stórhætta þar sem Guðmundur slapp einn í gegn eftir sendingu frá Alex, en línuvörðurinn tók feil á íþróttagreinum og veifaði ruðning á Jannik sem hafði hlaupið utan í einn Skagamanninn. Nokkru síðar fór flaggið aftur á loft, að þessu sinni á Guðmund sem talinn var rangstæður eftir sendingu frá Þóri. Tæpt var það. Besta færið kom þó vafalítið á 52. mínútu þar sem Fred fékk boltann vel inni á eigin vallarhelmingi en skeiðaði upp allan völlinn, stakk af aftasta varnarmann ÍA en var of lengi að láta skotið ríða af og sóknin rann út í sandinn.
Sem fyrr segir er Fram á förum úr Safamýri og því ekki króna sett í viðhald á vellinum. Það sást þegar gera þurfti hlé á leiknum þegar gat kom í ljós á öðru markinu. Um svipað leyti dó vallarklukkan og eru allar tímasetningar upp frá því byggðar á lauslegri tilfinningu frekar en nákvæmum mælingum. Rétt eftir að klukkan dó settist Þórir niður og þurfti að yfirgefa völlinn, líklega eftir einhverja tognun. Ég, mamma hans og Sævar vorum öll sammála um að það hefði verið óheillaspor. Tryggvi kom inná og Hlynur færði sig í miðvörðinn. Mínútu síðar átti Gummi skot rétt framhjá Skagamarkinu.
Magnús kom inná fyrir Fred þegar 25 mínútur voru eftir en um það leyti var farið að fjara undan leiknum sem varð frekar lítið fyrir augað næstu mínúturnar. Það var helst baráttuþrekið í Jannik sem hljóp upp og niður kantinn og barðist um alla bolta sem kætti kalda vallargesti. Líklega þó frekar Framarana. Skagastuðningsmennirnir skemmtu sér hins vegar við að baula á Albert í hvert sinn sem hann kom nálægt boltanum. Það er óþarfa viðkvæmni. Það er löng hefð fyrir því að Framarar bjargi verðmætum af Skipaskaga.
Þegar um tíu mínútur voru eftir meiddist Alex og virtist sárþjáður. Erfitt var að sjá hvort um samstuð hefði verið að ræða eða hvort hann hafi einfaldlega misstigið sig illa. Vonandi reynast meiðslin ekki alvarleg en Orri kom þegar inná og um leið leysti Alexander Már Jannik af hólmi.
Síðustu tíu mínúturnar voru afar fjörlegar. Bæði lið fengu dauðafæri, en Framararnir þó ívið fleiri. Þegar flautað var til leiksloka máttu okkar menn vera svekktari með að fá bara eitt stig. Við erum þó komin á blað í deildinni og það í svona fáránlega flottum jökkum. Næst er það Stjarnan í frystiklefanum sem Garðbæingar kalla stúku. Þá er nú gott að eiga eitthvað dúðað og töff.
Stefán Pálsson