fbpx
Gummi magg Þrenna

Veislan

Í Íslendingasögunum nennti enginn að blása til veislu fyrir minna en viku eða tíu daga. Veisluhöld stóðu uns hver deigur dropi var drukkinn eða veislugestir búnir að brenna ofan af sér kofann og kenna svo ættinni af næsta bæ um brunann, eftir því hvort gerðist á undan. Þannig eiga partý að vera.

Samfélag hraða og spennu, með síminnkandi athyglisspani vegna óhóflegrar samfélagsmiðlanotkunar og smættunar allra tilfinninga niður í örstutt myndskeið hafa gert það að verkum að veisluþol almennings hefur skroppið stórkostlega saman. Klukkutími eða tveir í mesta lagi og þá knýr athyglisbresturinn dyra og við þurfum að leita uppi næsta hamstrahjól til að halda okkur uppteknum í stundarkorn. Ljótt, ljótt sagði fuglinn.

Það var því gleðilegt að fá að taka þátt í sleitulausum þriggja daga veisluhöldum í Úlfarsárdal um þessa helgi. Og ekki var tilefnið dónalegt, Knattspyrnufélagið Fram eignaðist alvöru heimavöll í fyrsta sinn í sögunni – og hvílíkur heimavöllur að auki!

Öfundsjúkur Víkingur hrósaði nýja Framsvæðinu með þeim orðum að þar „virtist vera mikið af fersku lofti sem endurnýjast mjög hratt“ – og að sumu leyti mátti það til sanns vegar færa á laugardaginn þegar fréttaritarinn og skjaldsveinninn mættu vel tímanlega fyrir leik Fram og Knattspyrnufélags Hlíðarenda í 2. deild kvenna. Annan leikinn í röð mættu Framarar liði sem auglýst hefur knæpu á keppnistreyju sinni, en KH var eitt sinn með auglýsingu frá hipsterabarnum Session. Vel gert!

Eftir að hafa villst um endalausa ganga og veislusali í klukkustund var tímabært að koma sér til sætis. Þar var rjómi stuðningsliðsins samankominn: Sigurður Freyr, Skonrokksbræður, Einar Kárason og Kamilla dóttir hans sem er sagnfræðingur eins og fréttaritarinn og skemmtilegri á internetinu en pabbi sinn. Öll voru í hátíðarskapi.

Flestar stúkur við íslenska fótboltavelli eru þeirrar gerðar að annað hvort sér maður ekki neitt með blindandi sólina í augunum eða króknar úr kulda í skugganum. En ekki á nýja og fína vellinum okkar! Onei. Það var brakandi sól svo mannskapurinn svitnaði eins og svín, en útsýnið óaðfinnanlegt. Það blés á vellinum en í sætunum bærðist ekki hár á höfði. Þessi völlur er verkfræðiundur! Mætingin var svo frábær, 3-400 manns sem hlýtur að vera met.

Eftir tvær mínútur lá boltinn í neti Framkvenna eftir skyndisókn gestanna, sem kunna greinilega ekki mannasiði og finnst bara sjálfsagt að skora fyrsta markið á annarra manna völlum! (Allar ábendingar um að við höfum gert slíkt hið sama á Akureyri um daginn eru vinsamlega afþakkaðar.)

Þetta örlitla og óvænta mótlæti sló okkar lið ekki út af laginu. Framarar blésu til sóknar og Jessica Ray, hörkugóður bandarískur framherji okkar, jafnaði eftir tæplega tuttugu mínútna leik, 1:1. Það var staðan í hálfleik en Framarar í fínumannastofunni höfðu litlar áhyggjur í hléi, en létu nægja að snúast í hringi og dást að dýrðinni. Hvað er fólk að heimta þjóðarhallir og -leikvanga þegar þetta er allt fyrir hendi rétt fyrir innan Bauhaus?

Framliðið byrjaði ekki af alveg sama krafti eftir hlé og fyrir og KH fór að færa sig aðeins framar á völlinn. Eftir klukkutíma leik tók Ana Da Costa Brai, önnur bandarísk stúlka, forystuna fyrir Fram með skoti af stuttu færi eftir góða sóknarlotu. Tíu mínútum síðar virtist Jessica Ray hafa gert út um leikinn með þriðja markinu – kvóti dagsins fullur: Framkonur hafa skorað þrjú mörk í öllum fjórum leikjum sínum í sumar! Beint í kjölfarið náðu hins vegar gestirnir að minnka muninn með frekar slysalegu marki og þótt Hlíðarendaliðið næði lítið að ógna það sem eftir var vörpuðu Framarar í stúkunni öndinni léttar þegar flautar var til leiksloka. Næstu tveir leikir stelpnanna ættu að vinnast og þá væri staðan í deildinni orðin mjög vænleg!

Sunnudagurinn var annar dagur veislunnar miklu. Örlítið rykaður fréttaritari, sem hafði verið í afmæli borgarstjórans kvöldið áður, mætti þrátt fyrir það og gúffaði samviskusamlega í sig pylsum sem meistaraflokksmenn úr handbolta og fótbolta framreiddu af vindvirkni og alúð. Borgarstjórinn sjálfur var furðubrattur miðað við aðstæður og flutti eina af fjölmörgum ræðum vígsluhátíðarinnar, áður en kom að trúðaleikjum og frumflutningi nýja Framlagsins sem Hreimur hefur riggað upp og er með miklum þjóðhátíðarblæ.Hljómburðurinn er frábær og gott að vita til þess að Íslendingar þurfi ekki lengur að óttast það að vinna Júróvisjón. Við munum bara halda keppnina í Úlfarsárdal og Þorgrímur Smári verður kynnir.

Lokahnykkur veislunnar miklu fór svo fram um kvöldmatarleytið í kvöld. Ástæðan fyrir þessum ólánlega leiktíma 18:00 var sú að mótherjarnir, Eyjamenn, þurftu að komast heim með síðustu vél eða báti. Ekki það að tímasetningin hafi spillt fyrir mætingunni. Völlurinn var smekkfullur og staðið út um allt. Fréttaritarinn, sem var seinn fyrir, hafði þá fyrirhyggju að fela skjaldsveininum að taka frá sæti – sem hann gerði svikalaust við hliðina á Hilmari úr handboltanum og strákgutta á hans vegum. Framar í sömu röð sat mamma Þóris. Fleiri nöfn verða ekki talin upp hér, nógu fjári er þessi pistill að fara að verða langur hvort sem er.

Það voru átta mínútur á vallarklukkunni þegar fréttaritarinn mætti móður og másandi, búinn að leggja í síðasta lausa bílastæðið í póstnúmeri 113. Var ég búinn að tala nægilega um vallarklukkuna? Það er tómt rugl að halda þessa Evrópsku kvikmyndahátíð í Hörpu, við breytum þessu bara í bílabíó í dalnum með geggjuðu útsýni yfir Akrópólis norðursins eins og sífellt fleiri kalla Grafarholtið í dag.

En þótt mínúturnar væru bara átta, voru þegar komin tvö mörk og félagi Valur Norðri endursagði þau eftir minni á meðan fréttaritarinn saup á taðvolgu viskíinu. Hitabeltisloftslagið á þessum velli er slíkt að líklega gæti þurft að skipta markafleygnum út fyrir kæliflösku. Það er skilgreiningin á lúxusvandamáli…

Eyjamenn höfðu sem sagt af frekju og dónaskap ákveðið að skora fyrsta markið úr vítaspyrnu eftir tvær mínútur. Aðdragandi vítisins var víst fullkomin endurtekning á vítinu fyrir norðan í seinustu umferð. Það þarf nú meira en svona gleðispilla til að slá Framara út af laginu. Strax á næstu mínútu átti Þórir langa sendingu fram, markvörður Eyjamanna brá sér í skógarferð og Guðmundur Magnússon, sem skorar alltaf um þessar mundir, átti ekki í minnstu vandræðum með að pota honum í netið. Svona lýsti félagi Valur þessu og ekki færi hann að ljúga, verandi hjartahreinn og frá Kópaskeri. Valur hafði annars dregið með sér vinnufélaga á völlinn, sá er úr Eyjum en getur ekkert gert að því og tók að sér að bera í bætifláka fyrir dómaratríóið meðan á leik stóð. Það var ekki lítið verk.

Spurði einhver um byrjunarlið? Jú: Óli í markinu. Hlynur og Þórir miðverðir. Alex og Már bakverðir. Indriði Áki aftast á miðjunni með Albert og Tiago fyrir framan, Fred og Jannik á köntunum og Gumma frammi. Allt mjög beisik.

Leikurinn var með gríðarlega háu tempói þessar fyrstu mínútur. Gummi átti gott skot framhjá á tíundu mínútu og þremur mínútum síðar kom hann boltanum í netið eftir sendingu frá Alberti en var flaggaður rangstæður. Það hefur staðið tæpt.

Þegar fyrri hálfleikur var nákvæmlega hálfnaður komust gestirnir yfir á nýjan leik. Stungusending barst inn fyrir Framvörnina þar sem fremsti maður ÍBV virtist augljóslega rangstæður en upp fór flaggið ekki. Í kaffispjallinu í hléi var þeirri kenningu varpað fram að Þórir sem hafði tognað og lá við hliðarlínuna hefði verið talinn hafa áhrif á leikinn og gert aðra réttstæða. Hvað sem því líður þurfti Þórir að yfirgefa völlinn vegna þessara meiðsla sem er hábölvað því hann er bráðnauðsynlegur í hjarta varnarinnar. Gunnar leysti hann af hólmi.

Við tók tímabil þar sem Eyjamenn notuðu hvert tækifæri til að leggjast í völlinn við minnsta hnjask. Merkilegt hvað sársaukaþröskuldurinn lækkar við að komast yfir í fótboltaleikjum. Þess á milli nældu þeir sér í stöku hornspyrnur sem sköpuðu allar stórhættu þar sem þær enduðu í fríum sköllum, sem rötuðu þó aldrei á markið. Í tvö skiptin virtist sem svo að þeir hvítklæddu hafi með því að reka hausinn í boltann komið í veg fyrir að hann flygi rakleitt í netið.

Framarar áttu þó færi á móti. Jannik kom við sögu í tveimur hálffærum en í hvorugt skiptið tókst að ógna Eyjamarkinu að ráði. Betur tókst til á 38. mínútu þegar Jannik hljóp upp að endamörkum og virtist vera búinn að missa boltann aftur fyrir, en náði þó á síðustu stundu að pota fyrir markið þar sem varnarmanni ÍBV fannst skynsamlegt að hlaupa utan í Gumma og fella hann. Víti og okkar maður skoraði með stuttu tilhlaupi og föstu skoti sem markvörðurinn var þó nánast með hendur á, 2:2.

Fínumannastofan var troðin í hléi. Ráðherrar og fyrrum borgarstjórar voru í hópnum og krásirnar upp á tvær Michelinstjörnur – mátti svo sem ekki minna vera, enda leikurinn kostaður af sælkerabúð. Ekki skil ég hvað fólk er að væla yfir að missa Grillið á Hótel Sögu undir úfna stúdenta þegar hægt er að fá miklu betri mat á Framleikjum. Almenn samstaða var um að mörkin yrðu fleiri og líklega færi þetta 5:3. Gummi Torfa lék á als oddi og þóttist ekkert stressaður yfir því að nafni hans sé að gera atlögu að markametinu frá 1986.

Seinni hálfleikur byrjaði með sömu látum. Tiago og Fred voru næstum búnir að prjóna sig í gegn eftir tvær mínútur. Tveimur mínútum síðar átti Már frábæra sendingu á Tiago sem fór upp að endamörkum og sendi fyrir þar sem Gummi þurfti rétt að stíga fram og setja bringuna í boltann, 3:2 og okkar maður búinn að tryggja sér boltann í leikslok! Tíu mínútum síðar virtist Tiago ætla að ná annarri stoðsendingu en Jannik náði ekki teygja sig nægilega til að ná góðum skalla úr dauðafæri.

Þegar hálftími var eftir fengu Eyjamenn aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig Framara. Óli varði spyrnuna glæsilega í slá, þaðan skoppaði boltinn í miðjan teiginn þar sem Framarar voru of seinir að átta sig og einn gesturinn náði að jafna metin. Skrambinn! Sjö mínútum síðar skall svo huirð nærri hælum við Frammarkið þegar gestirnir náðu skoti upp úr engu sem small í stönginni.

Þegar leið á hálfleikinn tók að draga allverulega af Alberti og hann yfirgaf völlinn eftir eitthvað hnjask. Tryggvi kom inn í staðinn og var nærri búinn að skora skömmu síðar eftir sendingu frá Fred. Þegar tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma virtist Tiago ýtt niður rétt fyrir utan vítateigslínu en dómarinn var á öðru máli.

Tveimur mínútum síðar virtist brotið á Jannik innan teigs. Ekkert dæmt og í kjölfarið sauð uppúr. Gummi Magg tók hraustlega tæklingu og í hamagangnum í kjölfarið nældi hinn dagfarsprúði varamarkvörður Stefán Þór sér í rautt spjald fyrir uppbyggilegar ráðleggingar sínar til embættismanna leiksins. Rauða spjalið var hins vegar hvergi nærri þegar Fred var sparkaður niður rétt fyrir utan vítateig Eyjamanna örskömmu síðar – dómarinn væntanlega metið það sem svo að annar varnarmaður Eyjamanna hafi staðið fyrir innan atvikið.

Enn áttu nokkur færi og hálffæri eftir að líta dagsins ljós. Skot frá Fred sleikti slánna þegar þrjár mínútur voru eftir. Jesús kom inn á fyrir Alex í uppbótartíma og undir blálokin fengu Eyjamenn enn einn fría skallann upp úr hornspyrnu. Það er alveg spurning að fara að æfa þessi atriði eitthvað!

Þegar lokaflautið gall lögðust leikmenn unnvörpum í grasið enda gjörsamlega búnir á því eftir ótrúlega hraðan og líflegan leik – þótt mistökin hafi verið óþarflega mörg á báða bóga. Fréttaritarinn ætlar ekkert að tjá sig um dómgæsluna, enda hvort sem er í hálfgerðu hitamóki í kvöldsólinni og telst þó ekki til heitfengari manna. Það er líka erfitt að einbeita sér að smáatriðum í fótboltaleikjum með náttúrufegurð og arkitektúr sem þennan fyrir augunum sem fanga athyglina.

Jafntefli í sex marka leik voru ekki óskaúrslitin sem lokahnykkur í þriggja daga veislu, en þau eru fullkomlega í okkar anda. Við erum lið sem fær þrjú mörk á sig og bregst við því með því að reyna að skora fjögur. Næsta verkefni er bikarkeppnin á Akureyri, þar sem við munum væntanlega senda 3ja flokkinn til leiks ef ég þekki þjálfarateymið rétt. Við munum samt vinna.

Stefán Pálsson

Mynd Fótbolti.net

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!