Hafið þið heyrt um aðeins minna þekktu útgáfuna af Öskubusku? Þessa þar sem eftir brúðkaupið ekur sporvagn yfir prinsinn fagra, Öskubuska fær nýrnasteina og vonda stjúpan reynist hafa keypt hlutabréf í bæði Marel og Síldarvinnslunni og fær raunveruleikaþátt á Vísi… Ekki? Það var samt leikritið sem var sett á svið í Úlfarsárdalnum í dag. Lesið áfram á eigin ábyrgð, þetta er ekki saga fyrir grátgjarna.
Fréttaritarinn sá fram á að verða seinn fyrir á leik Fram og KA í Dal draumanna, þar sem hann þurfti fyrst að afgreiða ógnarfjölmenna sögugöngu í Fossvogskirkjugarði. Blessunarlega hafði hins vegar sprungið á Fokkernum sem átti að flytja KA-menn suður. Leikstjórn KA hefur væntanlega gefið fjórða dómaranum orð í eyra vegna þessarar tæknilegu vanhæfni en síðan var leiknum frestað um klukkutíma. Það þýddi að Fréttaritarinn hafði nægan tíma til að aka eins og fínn maður uppeftir, finna stæði – sem er ekkert grín – og blanda geði í fínumannaboðinu. Yrðum við karlar í krapinu eða snáðar í snjónum? Um það voru skoðanir skiptar yfir ítalska ofnréttinum og hrásalatinu.
Liðsuppstilling Fram var óbreytt frá hetjulega jafnteflinu gegn Val. Óli í markinu. Delphin og Brynjar miðverðir. Már og Alex bakverðir. Hlynur aftastur á miðjunni. Indriði Áki og Almarr fyrir framan hann. Fred og Tiago hvor á sínum kanti og Gummi frammi. Stúkan virtist prýðilega full og því kom nokkuð á óvart í lok leiks þegar áhorfendatölur voru kynntar rétt rúmlega 700. Þarna hljóta einhver börn að vera vantalin í það minnsta. Það vantaði allavega ekki valinkunna Framara og þarna var m.a. Jói Nissa, bókavörðurinn geðþekki. Við töpum aldrei þegar hann mætir. Veður með ágætasta móti.
Hrósið á Fótbolta-punkti-net eftir síðasta leik hafði greinilega stigið trumbuslagaranum til höfuðs, í það minnsta bauð hann upp á ljúfa djasstakta í byrjun leiks, sem er kannski nokkuð vel í lagt fyrir íslenskan septemberfótbolta. Framstuðningsmennirnir voru almennt líflegir, enda erum við með langskemmtilegasta klappliðið í ár. Það er fræðilegt mat.
Gulklæddir byrjuðu betur og komu sér í fyrsta færi strax á upphafsmínútunum. Við áttum okkar sóknarlotur líka og eftir fimm mínútna leik var Gummi Magg tæklaður harkalega við vítateigslínu andstæðinganna. Ekkert dæmt, enda tók dómarinn strax í upphafi þá línu að leyfa leiknum að flæða og flauta ekki í tíma og ótíma fyrir smábrot. Til marks um menningarlæsi dómaratríósins þá áttaði það sig á því að hér væri leikur tveggja liða með mikla handboltahefð. Því voru bakhrindingar leyfðar frá fyrstu mínútu og nýttu leikmenn beggja liða sér það óspart.
Leikurinn barst vallarhelminga á milli, þannig sköuðu bæði lið sér hættuleg færi á níundu mínútu. Fyrst skutu KA menn beint á Óla (þeir voru ansi mikið í að skjóta beint á hann í venjulegum leiktíma) og fáeinum sekúndum síðar var KA-markvörðurinn sentimetrum á undan Guðmundi í boltann.
Flott aukaspyrna frá Fred lenti á beint á kollinum á Brynjari eftir tæpt kortér og þaðan naumlega framhjá. Skömmu síðar var Gumma hrint mjög augljóslega í jörðina í vítateignum en boltinn var hvergi nálægur svo vítaspyrna hefði verið ansi harkalegur dómur.
Um og upp úr miðjum fyrri hálfleiknum fékk KA nokkur þokkaleg færi en þau enduðu fæst á skoti og þá sjáldan að það gerðist rötuðu þau beint á Óla. Inn á milli sóknarlota Akureyringa tókst Fred að skeiða upp hálfan völlinn áður en hann lét skot ríða af af löngu færi en vel framhjá. Að öðru leyti eyddu leikmenn helst til of miklum tíma í að naggast í dómaranum og peppuðustu mennirnir á svæðinu reyndust vera boltastrákarnir sem í það minnsta tvívegis urðu of ákafir og tveir boltar voru komnir í leik á sama tíma.
Það var markalaust í hálfeik og fátt hafði borið til tíðinda. Í fínumannaboðinu hitti Fréttaritarinn – sem var hálfumkomulaus án skjaldsveinsins og félaga Rafns – kokkinn Gústa sem er orðinn harðasti talsmaður veganisma á landinu. Hann hafði væntanlega gætt sér á grænkeralasagne-réttinum fyrir leik, en við gerð hans var engri belju slátrað eða hún mjólkuð nema síður sé. Skiptust þeir á gamanmálum um ógöngur sumra liða frá stór-Reykjavíkursvæðinu og bar saman um að miðjan væri ekki nógu sterk og athugandi væri að skipta yfir í tveggja framherja kerfi eftir hlé.
Stórhugar hugsa eins! – amk höfðu Nonni og Aðalsteinn gert þá breytingu í byrjun seinni hálfleiks að setja Albert inná fyrir Indriða og færa hann í fremstu víglínu. Það reyndist snjallt útspil og allt annað var að sjá til okkar manna eftir leikhléið.
Fréttaritarinn, sem hafði fríkað út á valkostunum og sleppt því að finna sér sæti fyrir hlé ákvað að halda áfram að standa aftast í stúkunni, við hliðina á Þorsteini Joð. Eftir hlé bættist taugaveiklaður Þorbjörn Atli í hópinn. Hann var fullur af stressi og bölsýni. Viðurkenndi að hafa drukkið Pepsi í hléinu. Kannabis hefði líklega verið sterkari leikur.
Líkt og í fyrri hálfleik skapaði hvorugt liðið sér nein afgerandi færi fyrsta kortérið. Framarar voru þó frískari. Eftir stundarfjórðunginn dró þó til tíðinda. Albert fékk góða sendingu inn fyrir vörnina (frá Tiago?) og náði að leggja hann hárnákvæmt út í teiginn þar sem Fred kom aðvífandi og skaut hárnákvæmt í markhornið, 1:0.
Markið sló KA út af laginu og við tók kafli þar sem Fram hafði öll völd. Gummi átti bylmingsskot en beint á markmann KA-manna og skömmu síðar gripu gestirnir til þess ráðs að stöðva skyndisókn Framara með því að sparka Almarr niður rétt fyrir utan vítateig. Þegar þarna var komið sögu virtust Akureyringar gjörsamlega varnarlausir gagnvart Framvörninni þar sem hver maður stóð sig öðrum betur. Alex var grjótharður og Delphin átti afbragðsleik.
Þegar tuttugu mínútur voru eftir á klukkunni tvöfölduðu Framarar forystuna. Tiago átti frábæra sendingu á Albert sem geystist upp kantinn og sendi beint fyrir tærnar á Fred sem hamraði boltanum í hornið. 2:0 eftir nánast endurtekningu á fyrra marki – bara flottara. Hvílík þrenning og glæisleg innkoma hjá Alberti.
Skiljanlega bökkuðu Framarar aðeins eftir þetta. KA fékk dauðafæri beint í kjölfarið á markinu en leikmaður þeirra, einn á móti Óla ákvað að sparka boltanum af öllum krafti beint í belginn á honum, sem var mjög hugulsamt gagnvart öllum nema markverðinum. Skömmu síðar komust KA-menn í annað upplagt marktækifæri, en Brynjar Gauti náði að henda sér fyrir boltann. Flottur leikur hjá honum að vanda.
Magnús kom inn á fyrir Fred sem hafði hlaupið og djöflast allan leikinn. Á áttugustu mínútu sá Fréttaritarinn ástæðu til að gefa Delphin plús í kladdann fyrir eitthvað sem nú er löngu gleymt. Það var næstum orðið jinx, þar sem mínútu síðar ákvað Delphin að toga í treyju eins KA-mannsins í miðjum vítateig, en þar sem dómarinn hafði þegar ákveðið að handboltabrot væru félagslega viðurkennd í þessari viðureign gerði hann enga athugasemd. Það er hins vegar bannað að hrinda markvörðum inn í markið í handbolta og þess vegna var mark KA-manna á 85. mínútu dæmt af. Fréttaritarinn og Þorbjörn Atli voru hins vegar komnir með dálítinn kvíðahnút og voru sammála um að ef Akureyringum myndi takast að þvæla inn einu marki væru allar líkur á að annað fylgdi í kjölfarið…
Jannik kom inná fyrir Tiago og fljótlega í kjölfarið áttu Framarar álitlega sókn þar sem Alex (sem var valinn maður leiksins) skeiðaði upp kantinn og sendi á Magga sem náði ekki að gera sér mat úr færinu – var mögulega hrint, en það var enginn að fara að fá vítaspyrnur í þessum leik.
Vallarklukkan sýndi 90:00 um leið og KA fékk horn og samviskusamur Fréttaritarinn setti skeiðklukkuna í gang. Um leið setti fjórði dómarinn (sem varamannabekkur KA var sannfærður um að bæri fulla ábyrgð á fyrsta marki leiksins) upp spjaldið sem sýndi að fjórar mínútur væru eftir af leikum. Þegar skeiðklukkan sýndi 90:25 lá boltinn í neti Framara eftir hornspyrbnuna. Helvítis fokk.
Stundum eru Fréttaritarinn og Bjössi úr Grindavík óþarflega forspáir. Á þessum fáeinu sekúndum sem eftir lifðu af leiknum náðu Framarar að geysast fram í skyndisókn en mistakast að nýta hana þrír á tvo. Eftir tvær til þrjár misgóðar hreinsanir virtist tíminn ætla að ná að renna út, en um leið og skeiðklukkan sýndi 93:10 kom jöfnunarmarkið sem virtist svo óumflýjanlegt. Tvö 2:2 jafntefli er uppskeran gegn KA í deildinni á þessu sumri og svo eitt glatað tap í bikarnum. Nú þurfum við örlitla heppni og hagstæð úrslit annars staðar til þess að geta komið fram hefndum í fjórða leiknum. Fyrsta skref er að vinna ÍBV á útivelli um næstu helgi – en fyrst mætum við samt á Framstelpur á móti Skaganum á föstudagskvöld.
Stefán Pálsson