fbpx
IMG_2130

Bestar!

Þrjátíu og níu ár af því að mæta á fótboltaleiki með Fram hafa gefið fréttaritara Framsíðunnar ófá angistarfull augnablik. Mörg þeirra tengjast andlausum tapleikjum á heimavelli gegn Fjölni eða e-u álíka, slagveðursrigningum í Grindavík eða lokamínútum í Frostaskjóli þar sem einhver nýfermdur og rauðhærður Vesturbæingur stangar boltann í Framnetið og jafnar eða það sem verra er. Hin nær óslitna keðja vonbrigða og niðurlægingar er þó öðru hverju rofin með fágætum gleðistundum sem gera allt gott aftur.

Frammennskan er ekkert grín, en einn af sólargeislunum var þó að mæta á grasvöllinn í Safamýrinni í blíðviðrisdegi vorið 2010 til að sjá Fram leika sinn fyrsta deildarleik í meistaraflokki kvenna í sautján ár. Haustið 1993 hafði kvennaliðið lognast út af og allan þennan tíma höfðum við mátt þola að vera eitt örfárra sterkra og rótgróinna knattspyrnufélaga sem einungis tefldi fram meistaraflokki karla. Það var glatað.

Við tóku nokkur ár í fyrstu deildinni, þar sem Framliðið gerði eitt árið alvöru atlögu að úrvalsdeildarsæti. Árið 2016 var ákveðið að frá og með næsta ári skyldi fallið frá riðlakeppni í fyrstu deild og önnur deild. Frömurum tókst ekki að halda sér uppi það árið og sama gilti um nýju nágranna okkar í Aftureldingu. Sú hugmynd kviknaði að tefla fram sameiginlegu liði: Aftureldingu/Fram.

Skástrikið vann aðra deildina með fáheyrðum yfirburðum strax á fyrsta ári. Sumarið 2018 byrjaði liðið í basli en hélt sér að lokum nokkuð sannfærandi uppi. En þar með var partýið á enda. Mosfellingar sögðu upp samstarfinu og má raunar velta því fyrir sér hvort sameiginleg lið af þessu tagi geti yfirhöfuð orðið farsæl. Árið eftir tefldi Fram á ný ekki fram meistaraflokki kvenna.

Eftir eins árs hlé var aftur blásið í herlúðra sumarið 2020 og Fram skráði sig til leiks í annarri deild, sem skipuð var níu liðum. Sjöunda sætið var uppskeran í móti þar sem Framkonur voru iðnar við markaskorun, en fengu líka á ellefu mörkum meira en næstu lið – 47 mörk í fimmtán leikjum. Það var amk aldrei markaþurrð í Safamýri!

Okkar konur mættu reynslunni ríkari í fyrrasumar, auk þess sem búið var að stórefla alla umgjörð liðsins. Margskástrikað Austurlandslið var langsterkast í deildinni og tapaði aðeins einum leik – en honum raunar gegn Fram í mögnuðum 4:3 leik. Þar sem keppnisfyrirkomulagið var á þá leið að fjögur efstu liðin léku til undanúrslita þar sem sigurvegararnir í hvorum leik kæmust upp, var aðalkeppikeflið að losna við fjórða sætið og þar með leik við austfirsku valkyrjurnar. Það virtist ætla að takast og Framliðið að landa góðum útisigri gegn Völsungum í lokaumferðinni, en tvö fádæma slysaleg mörk kostuðu dýrkeypt tap og að lokum varð fjórða sætið niðurstaðan.

Var svekkelsið 2021 e.t.v. blessun í dulargervi? Þegar horft er til lengri tíma kann sú að verða raunin. Fram tefldi fram enn betra liði í ár en í fyrra. Utanumhald liðsins var styrkt enn frekar og öflugir þjálfarar fengnir til liðsins. Nýi heimavöllurinn í Úlfarsárdal var nýttur til hins ítrasta og varla munu dæmi um viðlíka áhorfendafjölda á leik í þessari deild og þegar Fram sigraði Knattspyrnufélag Hlíðarenda í opnunarleik vallarins.

Fram tyllti sér á topp deildarinnar strax í fyrstu umferð og lét það sæti aldrei af hendi. Það var þó ekki vegna þess að önnur lið væru slök. Þvert á móti var standardinn í annarri deildinni býsna hár í sumar. Fyrir viku var svo fyrstu deildarsætið og raunar meistaratitillinn líka tryggt með góðum útisigri á ÍR-ingum.

Er nokkur ástæða til að velta sér upp úr lokaleiknum gegn Völsungi? Nii… talsverðar breytingar voru gerðar á byrjunarliði og sem flestum leyft að spreyta sig. Til að mynda var formaður knattspyrnudeildar skráður á sjúkrabörurnar í leiknum, sem er til hreinnar fyrirmyndar! Það er erfitt að halda einbeitingu þegar settu markmiði er þegar náð og eiga Húsvíkingar heiður skilinn fyrir að mæta og gera heiðarlega tilraun til að spilla fyrir veislunni. En það var alltaf útilokað. Deildarmeistaratitlar vinnast á heilu móti og í þessu móti var Framliðið einfaldlega langbest.
Við erum öll hamingjsöm og stolt. Hlökkum til að takast á við nýjar og stærri áskoranir að ári.
Takk fyrir mig í sumar.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0