Við erum ekki að fara að fá nein jólakort úr Fellahverfi í ár. Í fyrsta sinn í sögunni – eftir því sem næst verður komist – hefur það gerst að lið í meistaraflokki karla vinni fjóra sigra á mótherja á einu og sama tímabilinu. Þrjá í deild og einn í bikar. Ljótt, ljótt sagði fuglinn!
Sigurleikirnir hafa hafa verið afar ólíkir. Sumir basl, aðrir ójafnir og í bikarkeppninni tefldum við fram B-liðinu. Þessi var þó sérdeilis sætur. Niðurstaðan er sú að fallbaráttan er raun úr sögunni hjá Framliðinu. Ekkert nema tölfræðilegir loftfimleikar gætu komið okkur niður. Við tekur unaðslegasta hugtak íslenskrar tungu: miðjumoð!
Fréttaritarinn mætti snemma í Úlfarsárdalinn, ferskur úr kökuboði í tilefni af fimm ára afmæli systursonarins. Grísinn býr í Kópavogi og Breiðabliksgalla í tilefni dagsins. Mikið er á börnin lagt.
Það var fámennt en góðmennt í fínumannaboðinu fyrir leik. Þessi úrslitakeppni í októbersúldinni er nú ekki beinlínis að sprengja áhorfendametin, þótt kannski megi líka kenna um landsleikjahléinu sem tók dálítið vindinn úr seglum Íslandsmótsins. Framarar á vettvangi voru hugsi yfir fregnum af því að Víkingar hefðu slegið upp sigurveislu í Safamýri til að fagna bikarmeistaratitli í gærkvöldi. Hvílíkir tímar, hvílíkir siðir!
Það var örlítið laskað Framlið sem mætti til að taka á móti Leiknisljónum. Brynjar Gauti ristarbortnaði í vikunni og er frá úr tímabilið og Alex Freyr var meiddur á ökkla og óljóst með endurkomu. Varnarlínan endurspeglaði þennan veruleika.
Óli stóð sem fyrr milli stanganna með Hlynuog Delphin fyrir framan sig. Már í öðrum bakverðinum en Óskar Jónsson kom inn hinu megin. Almarr sneri aftur í byrjunarliðið og lék ásamt Indriða Áka á miðjunni með Fred og Tiaga hvorum á sínum kanti. Jannik og Gummi frammi. Sterkt lið og marksækið.
Eftir bauk í forréttindabúrinu, samloku og stutt spjall við Garðar úr sendiráðinu, Þorbjörn Atla og Ívar Guðjóns var tímabært að koma sér niður í stúku. Allir bestu synir Breiðholtsins voru mættir – eða í það minnsta smíðakennarinn Arnar Þór sem fréttaritarinn gerði að ræðumanni kvöldsins í úrslitum Morfís þegar FB vann þá keppni um árið. Arnar er með skemmtilegri mönnum og féll vitaskuld í stafi yfir fegurð félagssvæðisins – smekkfólk í Hólum og Fellum.
Skjaldsveinninn Valur Norðri var hvergi sjáanlegur. Hann er heima með ilsig. Hins vegar var Rabbi mættur með annan soninn. Við tylltum okkur óþægilega nálægt trommusveit Framæskulýðsins. Vindmyllubaninn Andrés Skúlason sat þremur sætum frá, að öðru leyti var furðulítið um seleb sem orð er á gerandi.
Breiðhyltingar byrjuðu betur. Raunar mun betur. Eftir áttatíu sekúndur skeiðaði bakvörður þeirra upp kantinn og sendi boltann hárnákvæmt fyrir markið á kollinn aðvífandi Leiknismanni sem kom gestunum í 0:1. Þetta var frekar glatað og alls ekki það sem lagt var upp með.
Skömmu síðar mátti litlu muna að gestirnir tvöfölduðu forystuna, en upp úr því var eins og Framarar rönkuðu við sér og tóku jafnt og þétt völdin á vellinum. Indriði Áki átti bylmingsskot að marki sem fór naumlega framhjá, en sú spurning vaknaði hvort sending á Jannik hefði frekar verið málið.
Á þrettándu mínútu fengu Framarar horn. Tiago og Fred tóku það stutt og sá síðarnefndi lyfti boltanum inn í teiginn þar sem Jannik tók boltann vel til sín, lagði hann þvínæst á Delphin sem stóð utarlega í teignum og þrumaði á markið. Skotið söng í þaknetinu og staðan orðin 1:1.
Það sem eftir leið hálfleiksins sóttu Framarar býsna stíft. Jannik var í aðalhlutverki, enda frábær í kvöld, en Gummi var líka duglegur að djöflast og tók mikið til sín. Fjögur þokkaleg marktækifæri rötuðu í minnisbókina fyrsta stundarfjórðunginn eftir jöfnunarmarkið. En gestirnir áttu svo sem sínar sóknir líka. Þegar fyrri hálfleikurinn var rétt rúmlega hálfnaður hrinti einn Leiknismaðurinn Hlyni í vítateignum og náði fríum skalla af örstuttu færi sem Óli varði með stórkostlegri viðbragðsvörslu – dómarinn flautaði svo markið hefði ekki talið, en varslan engu að síður afbragð.
Rétt í kjölfarið mátti bakvörður Leiknismanna þakka fyrir að sleppa með bara gult spjald fyrir groddalegt brot á Má. Sami leikmaður var svo ljónheppinn að fjúka ekki af velli skömmu síðar þegar hann braut á Fred sem ákvað að standa í lappirnar í stað þess að falla til jarðar og hirða spjaldið. Brasilíumaðurinn okkar var raunar í miklu stuði í kvöld og var nálega búinn að leggja upp mark skömmu síðar með frábærri stungu inn á Jannik, en stórkostleg tækling varnarmanns Leiknis afstýrði vísu marki. Fimm mínútum síðar gerði Fred allt rétt þegar hann splundraði Breiðholtsvörninni, en Indriði Áki sólundaði afbragðsmarktækifæri.
Jafnt í hálfleik og skoðanir skiptar í fínumannaboðinu. Stúkan á Framvellinum er svo stórkostlega hönnuð að jafnvel í strekkingsvindi eins og kvöld bærist vart hár á höfði áhorfenda, sem fyrir vikið virtust ekki almennilega gera sér grein fyrir því hversu hamlandi vindurinn á vellinum væri í raun og veru. Fréttaritarinn tók að sér að vera rödd skynseminnar og spáði því að Framliðið tæki öll völd á vellinum með vindinn í bakið eftir hlé.
Að sjálfsögðu rættist spádómurinn dýri. Framarar komu ákveðnir til leiks og sóttu stíft að marki gestanna. Tiago lét vaða rétt yfir slána eftir þrjár mínútur og skömmu síðar átti Fred frábæra sendingu fyrir markið sem Jannik tókst ekki nægilega vel að taka á móti. Rétt í kjölfarið var Gummi ef til vill óþarflega óeigingjarn þegar hann stillti sig um að skjóta úr fínu færi en sendi á Má sem reyndi að skora með miklum tilþrifum en skaut framhjá. Enn liðu ekki nema fáein andartök uns Leiknismarkvörðurinn þurfti að taka á honum stóra sínum til að verja frá Jannik eftir sendingu frá Tiago. Yfirburðirnir voru talsverðir.
Eitthvað hlaut undan að láta og eftir rétt um klukkutíma leik átti Óli langa sendingu frá marki sínu sem Tiago tók hratt niður og afgreiddi áfram innfyrir á Jannik sem dansaði framhá Leiknismarkverðinum og skoraði snyrtilega, 2:1.
Mínútu síðar var nauðvörn í vítateig Leiknis þar sem mörkvörðurinn varði mjög vel skot frá Guðmundi og kjölfarið söng boltinn í þjóhnöppum eins Leiknisvarnarmannsins eftir neglu frá Tiago. Það hefur ekki verið þægilegt. Fréttaritarinn, Rafn og sonur hölluðu sér aftur á bak og fóru að reikna út stigatöfluna í huganum…
Allir virtust geta skorað og Óskar átti fínustu skottilraun fljótlega eftir markið. Þá sjaldan sem Leiknir kom sér í færi greip Óli yfirleitt prýðilega inní. Þegar tuttugu mínútur voru eftir virtust Framarar veita gestunum náðarhöggið. Fred sendi boltann inn í teig Leiknismanna, þar sem einn varnarmaðurinn ákvað að skalla ekki frá heldur nikka boltanum aftur fyrir sig þar sem Gummi og Jannik komu báðir aðvífandi. Sá síðarnefndi skoraði seinna mark sitt í leiknum og staðan orðin 3:1.
Beint eftir markið komu Tryggvi og Albert inná fyrir Indriða og Fred. Leikurinn datt mikið niður og fátt bar til tíðinda næsta kortérið. Þegar fímm mínútur lifðu af venjulegum leiktíma Tiago fór af velli fyrir Orra og leikurinn virtist vera að fjara út.
…og þó! Mínútu síðar fengu Leiknismenn aukaspyrnu á hættulegum stað, boltanum var lyft inn í teiginn þar sem hann fékk að fljúga óáreittur fram hjá þremur Breiðhyltingum sem náðu ekki að snerta hann og beint í fangið á Óla. Kæruleysi og örlítið til marks um það sem koma skyldi.
Aftur náði Leiknir góðri sókn á 89. mínútu þar sem Óskar var örlítið klunnalegur í varnartilburðum sínum, gaf víti og fékk rautt spjald að auki. Gestirnir minnkuðu muninn og eygðu örlitla vonarglætu. Fyrir lokaátökin settu Nonni og Aðalsteinn Jesú inná fyrir Jannik sem fékk þar með verðskuldaða heiðursskiptingu fyrir frábæra frammistöðu. Nær komust Leiknismenn ekki og 3:2 sigur Fram varð að veruleika.
Við lofum því samt að gera okkar allra besta til að halda Leikni í deildinni, sem inniber m.a. að vinna FH, ÍBV og Akranes. Minna má það varla vera fyrir liðið sem hefur gefið okkur öll þessi stig í sumar. Og það væri gjörsamlega ferlegt að missa af Péturs Arnþórssonar-leiknum að ári. Sjáumst á Skaganum og á bjórkvöldi í kvölfarið.
Stefán Pálsson