Vertu í Framlínu handboltans í vetur
Handboltinn er farið af stað með pompi og prakt. Fram spilar í nýju og glæsilegu húsi í Úlfarsárdalnum og teflir fram sterkum liðum í kvenna- og karlaboltanum. Við höfum styrkt bæði liðin með öflugum erlendum leikmönnum og kostað talsverðu til. Þá eigum við frábæran efnivið ungra uppalinna leikmanna sem eiga eftir að spila stór hlutverk í vetur. Við lítum því brosandi og bjartsýn fram á skemmtilegan og spennandi vetur með fullt af ævintýrum í dalnum. Við treystum líka á stuðning hverfisbúa, það er mikilvægt að fá góða mætingu og stuðning á leikina. Fyrir þá sem hafa tök á og vilja styðja vel við bakið á afreksstarfinu var Framlínan sett á laggirnar. Framlínan hittist fyrir valda leiki í vetur, nýtur góðra veitinga og fær tækifæri til að vera nær liðinu og þjálfurum en aðrir. Þá fær Framlínufólkið auðvitað 2 aðgangsmiða á leiki vetrarins.
Í staðinn greiða þátttakendur ákveðið árgjald (frekari upplýsingar á toggi@fram.is) sem jafnframt er hægt að skipta upp í smærri greiðslur. Það er vert að minna á að skattaafsláttur fæst af slíku framlagi. Nú þegar hefur fjöldi dyggra Framara komið sér í Framlínuna fyrir veturinn en við getum gert enn þá betur.
Fyrir næsta heimaleik strákanna okkar gegn Val á föstudag kl. 19:30 gefst tækifæri að ganga til liðs við Framlínuna, njóta góðra veitinga og sjá frábæran handbolta. Það verður hitað upp og notið veitinga frá 18:00 í VIP stúkunni okkar.
Ef þú vilt leggja þitt af mörkum til starfsins í vetur og njóta handboltans úr Framlínunni með öðrum hverfisbúum þá máttu gjarnan senda póst á toggi@fram.is eða mæta á svæðið kl. 18 á föstudag og skrá þig til leiks. Áfram Fram!