fbpx
Albert gegn FH vefur

Það má ekki vera of gaman

Kunnuglegt stef í þjóðsögum og ævintýrum er að dramb sé falli næst. Engum sé holt að upplifa of mikla hamingju eða velgengni á öllum sviðum. Róttækir fræðimenn telja oft að með slíkum sögum sé í raun verið að festa í sessi ríkjandi valdahlutföll og óréttlæti. Sagnaþulirnir séu því meðvitað eða ómeðvitað að taka að sér hlutverk varðhunda feðraveldisins/kirkjunnar/kapítalismans (setjið kúgunarkerfi að eigin vali). Margt er til í þessu.

Á hinn bóginn er það líka óumdeilt að það geta ekki verið jól alla daga. Maður sem upplifir ekkert annað en hamingju er í raun aldrei hamingjusamur. Það er andróðurinn sem kennir okkur að njóta meðbyrsins. Það var því í raun aldrei í boði fyrir okkur Framara að upplifa allt þrennt um þessa helgi: að vinna Valstráka í handbolta, halda frábært árgangamót og enn skemmtilegra bjórkvöld auk þess að sækja sigur á Skipaskaga. Það hefði einfaldlega verið of mikið af hinu góða. Hér þurfti að velja og hafna og einföld leikjafræði leiddi að því að láta fjórða kostinn flakka. Peðsfórn, segir fréttaritarinn!

Það eru margir staðir þar sem ákjósanlegt er að verja laugardagssíðdegi í október skömmu fyrir gula veðurviðvörun. Stúkan á Akranesvelli er ekki ein þeirra. Það var þó kátur og reifur hópur Framara sem mætti í rútu, ferskur úr árgangamótinu. Líkt og barnamótunum virtust allir hafa fengið Gull og nóg af því. Fréttaritarinn kom hins vegar beint úr vinnu og á eigin bíl. Hann var einn í för. Skjaldsveinninn Valur Norðri er orðinn svo uppiskroppa með afsakanir að núna tók hann upp á því að næla sér í Covid, sem er orðið jafn úreltur tískusjúkdómur og vélindabakflæði. Þetta er þeim mun vandræðalegra þar sem skjaldsveinninn er menntaður matvælafræðingur, en það er fræðigrein sem gengur helst út á að banna fólki að sleikja á sér puttana.

Meiðsli og leikbönn héldu áfram að setja svip sinn á liðsuppstillingu Fram. Óli stóð vitaskuld í markinu og með Hlyn og Delphin fyrir framan sig. Már í annarri bakvarðastöðunni og Orri Gunnarsson í hinni. Almarr og Indriði Áki aftast á miðjunni. Tiago og Fred í þessari óræðu blöndu af kantmönnum og miðjumönnum. Guðmundur og Albert frammi. Jannik tók út leikbann að þessu sinni, líkt og annar hver maður mun upplifa í þessari úrslitakeppni þar sem að gleymdist að endurskoða leikbannsreglurnar þrátt fyrir fjölgun leikja.

Heimamenn byrjuðu betur og settu Framvörnina nokkrum sinnum í vandræði á fyrstu mínútunum. Gerðu m.a. tilkall til vítaspyrnu fyrir að skjóta í belginn á Má. Frömurum í stúkunni var ekki skemmt. Síst af öllum Valtý Birni sem óð fram og til baka í stúkunni og sendi mönnum tóninn. Það er alltaf skemmtilegt enda Valtýr eini Íslendingurinn sem notar enn skammaryrðið „sveppur“. Legg til að orðabók Háskólans grípi til skyndifriðunar þess orðs sem menningarminja frá tíunda áratugnum.

Sókn heimamanna skilaði sér að lokum í marki eftir stundarfjórðung. Framliðið hafði reynt að færa sig upp völlinn þegar gulklæddir náðu hraðri sókn upp kantinn sem Orri og Hlynur náðu ekki að eiga við og staðan orðin 1:0 eftir alltof auðvelt mark.

Eins og stundum áður í sumar (hér er hugtakið sumar notað í mjög frjálslegri merkingu) virtust Framarar þurfa að lenda undir til að vakna til lífsins. Már átti þrumuskot að marki um miðbik hálfleiksins sem setti markvörð Skagamanna í mestu vandræði. Úr hornspyrnunni í kjölfarið skapaðist svo mikil hætta en engum bláklæddum tókst að pota boltanum inn.

Tveimur mínútum síðar tók Fred aukaspyrnu úti á kanti, sendi inn í vítateig þar sem boltinn virtist hrökkva í hönd Skagamanns. Dómarinn beið þó átekta á meðan knötturinn barst til Alberts sem skoraði með ágætis skoti gegn sínum gömlu félögum, 1:1. Gladdist nú fréttaritarinn og ekki minnkaði kátínan þegar í ljós kom að Garðar úr sendiráðinu hafði hlaupið í skarð skjaldsveinsins og mætt með markafleyg. Fyrirhyggja í fremstu röð!

Enn liðu tvær mínútur og þá brast á með hagléli. Vindurinn á vellinum var mikill og áttu leikmenn sýnilega í vandræðum með hann. Geiramenn í stúkunni reyndu að hugsa um eitthvað annað en nepjuna með smellnum athugasemdum sem unnu hug og hjörtu allra. Siggi Tomm vakti þó yfir öllu sem siðgæðisvörður til að afstýra því að stjórnin þyrfti að skrifa lúpulegt afsökunarbréf eins og svo mikið í tísku núna. Gaman var að sjá Hörð Helgason kasta kveðju á hópinn og minna þannig á að ófáar goðsagnirnar hafa komið við sögu hjá báðum félögum í gegnum tíðina.

Fred átti gott markskot og Tiago dauðafæri sem Skagamarkvörðurinn varði með fótunum áður en hálftími var kominn á klukkuna. Eftir það datt leikurinn dálítið niður, uns kjánaleg mistök í Skagavörninni komu okkur yfir á 27. mínútu. Almarr (ef marka má Fótbolta.net) eða Orri (ef marka má fréttaritarann, sem er reyndar gamall og blindur) lyfti boltanum inn í vítateig Skagans þar sem einn varnarmaðurinn spyrnti honum í átt að eigin markmanni sem virtist ekki hafa hugmynd um hvort hann mætti grípa með höndunum, um það leyti sem hann komst loksins að þeirri niðurstöðu að líklega væri skárra að grípa og fá þá í versta falli á sig óbeina aukaspyrnu var það orðið of seint og boltinn lak í átt að markinu þar sem Gummi Magg náði að pota inn nánast á marklínu, 1:2.

Það var úrhellisrigning í leikhléi, þar sem kátir Framarar – sem virtust litlu færri en heimamenn – yljuðu sér á kaffi og flatbökum. Vonir stóðu til að slysalegt markið hefði slegið Skagaliðið endanlega útaf laginu. Það var tálsýn.

Fyrstu tíu mínúturnar af seinni hálfleik voru bitlitlar. Framarar heldur meira með boltann en sköpuðu lítið. Okkar menn fengu hornspyrnu og fjölmenntu í teig andstæðinganna, með þeim afleiðingum að ÍA náði skjótri sókn til baka, brunuðu fram og jöfnuðu metin, þótt óneitanlega hafi verið nokkur rangstöðufnykur af þessu.

Beint í kjölfarið á markinu kom Tryggvi inná fyrir Almarr, sem hafði stungið við mínúturnar á undan. Heimamenn öðluðust trúna á ný og voru nærri komnir yfir eftir klukkutíma leik þar sem Óli náði naumlega að verja eftir fremur ólánlegan varnarleik hjá Hlyni. Skömmu síðar meiddist Albert og þurfti aðhlynningu. Bekkurinn fór þegar að undirbúa skiptingu, en í millitíðinni átti Mási góða sendingu inn á Albert sem tókst hvorki að skjóta né senda fyrir markið úr dauðafæri. Mínútu síðar fór hann af velli fyrir Magnús Inga.

Á 68. mínútu gerðu Framarar heiðarlega tilraun til að endurtaka leikinn frá fyrra marki þegar þeir fjölmenntu á ný í hornspyrnu til þess eins að missa boltann á versta stað, en vörninni tókst að bjarga því á síðustu stundu. Tveimur mínútum síðar var Gumma greinilega kippt niður í vítateig Skagans en ekkert dæmt.

Bæði lið fengu hálffæri á næstu mínútum en fátt stórhættulegt. Fimmta markið í leiknum og sigurmark Skagamanna kom svo úr hornspyrnu á 77. mínútu þar sem hvorki vörn né markvörður Fram litu sérstaklega vel út. Eftir markið fjaraði leikurinn svo hratt út. Lykilmenn okkar hittu ekki á góðan dag og í raun var lítið hægt að kvarta yfir úrslitunum… enda var ósigur í þessum leik söguleg nauðsyn en rökstutt var með óyggjandi hætti í upphafi þessa pistils.

Þessi fimm vikna úrslitakeppni verður vafalaust ekki endurtekin í óbreyttri mynd að ári. Það er hins vegar mikilvægt að okkar menn haldi einbeitingu og klári þetta mót með sóma. Bíð spenntur eftir næsta leik í bongóblíðu Dals draumanna á móti ÍBV um næstu helgi.

Og já… bjórkvöldið var þrælfínt. Hvers vegna haldið þið að þessi pistill sé ekki að detta inn fyrr en seint á sunnudegi?

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!