Blakvertíð vetrarins fer vel af stað. Ný andlit hafa bæst við bæði í karla- og kvennaliðin og einnig hefur nýliðablakið hafið göngu sína.
Nýja húsið hefur tekið vel á móti hópunum og hefur iðað af lífi síðustu vikurnar.
Fyrstu æfingaleikir vetrarins fóru fram í síðustu viku þegar kvennaliðin tóku á móti frískum andstæðingum frá blakfélagi Hafnarfjarðar. Blakdeildin hefur verið starfrækt í um 5 ár og hefur nú í fyrsta sinn aðstöðu til að bjóða gestum og halda mót. Hægt er að spila á sex völlum samtímis í húsinu og öll aðstaða til fyrirmyndar og er gríðarleg lyftistöng fyrir deildina.
Tvö kvennalið og eitt karlalið munu taka þátt í íslandsmóti blakara þetta árið. Bæði kvennaliðin keppa í 5. deild og karlaliðið í 3. deild. Auk þess stefna liðin á að taka þátt í ýmsum hraðmótum í vetur.
Mikil gleði og tilhlökkun ríkir meðal Fram-blakara sem horfa björtum augum til framtíðar. Allir sem vilja prófa blakið eru hvattir til að koma í prufutíma, en æfingar eru mánudaga og miðvikudaga kl. 20:30. Ef þú vilt fá nánari upplýsingar er hægt að hafa samband á netfanginu: blak@fram.is.