fbpx
Óli Íshólm gegn ÍBV betri vefur

Hætt´að telja – þetta er ég!

Fréttaritari Framsíðunnar tók daginn snemma með sínu hefðbundna brauðstriti: göngu með hóp áhugafólks um hina fínni drætti í þróunarsögu Reykjavíkur. Þar var næðingur. Andstyggilegur næðingur sem nísti inn að beini. Sérhver tilraun til að stoppa í skjóli að barrföllnu grenitré eða tilfallandi skúrræksni mistókst. Það er kominn október og hann tekur enga gísla.

Þegar heim var komið blöstu við fréttir af umferðarlokunum á Kjalarnesi. Væntanlega var einhver RÚV-snápurinn á leið undir Hafnarfjall til að öskra upp í vindinn, akkúratt passlegu megin við línuna sem ræður því hvort opinberir starfsmenn fá dagpeninga á ferðalögum. Þetta var svo sannarlega dagur til að dúða sig undir værðarvoðinni og glápa á fjóra útlenska fótboltaleiki í beit…

…nema hvað þetta var líka leikdagur í Bestu deildinni. Fram og ÍBV áttu leik í Dal draumanna. Leik sem skipti Korpukóngana minna en engu máli – en gæti gulltryggt sæti ÍBV meðal þeirra bestu. Hvað gæti mögulega farið úrskeiðis?? (Meðan fréttaritarinn man: finnst ykkur Korpukóngarnir ekki vera orð sem hægt er að leika sér með fyrir karlaliðið okkar? Er líka aðeins að vinna með Lambhagalæðurnar fyrir kvennaflokkinn… og Bauhausböðlarnir fyrir handboltaflokkana. Ekki? Jæja!)

Með hálfum hug togaðist fréttaritarinn út úr húsi af því að Addi í bankanum bauðst til að gerast bílstjóri. Það var mætt snemma í Úlfarsárdalinn. Ekki endilega útaf fínumannaboðinu heldur til að ná í skottið á seinni hálfleik af enskum fótboltaleik. Lausleg athugun í veislusalnum leiðir í ljós að ungviðið okkar heldur upp til hópa meira með fótboltaliði í hálfgjaldþrota skipasmíðastöð en liði sem er í eigu skrilljónamæringa sem ráða orkukerfi veraldarinnar. Og svo undrum við okkur á því að fjármálalæsi þjóðarinnar sé slakt!

Það var fámennt í stúkunni. Líklega vegna þess að flestir höfðu litið út eða á vef norsku veðurstofunnar og hugsað: uhh, nei þetta er viðbjóður. Þessu nenni ég ekki! – En þar feiluðu þeir einu sinni oftar en má. Veðrið í Úlfarsárdal er alltaf fáránlega mikið betra en alls staðar annars staðar í Reykjavík og stúkan okkar er slíkt verkfræðiundur að um hana gilda sjálfstæði veðurfræðilögmál. Það blæs ALDREI í Framstúkunni og við sátum þar nánast á bolnum! Bolnum, segi ég!

Skjaldsveinninn Valur Norðri var snúinn aftur úr covidinu (Höskuldarviðvörun: það reyndi lítið á markafleyginn.) Rabbi tryggingamógúll mætti með efnilegri soninn í hléi. Mamma Guðjónssona var í röðinni fyrir neðan og Andrés Skúlason vindmyllubani og flokksbróðir fréttaritarans á næstu grösum. Þau tvö síðarnefndu keyptu bæði gulrætur og gulrótarköku af kvennaliði okkar í parketglímu sem stóð fyrir fjáröflun á vettvangi.

Glögga lesendur þessara pistla ætti nú að vera farið að gruna hið versta. Leiklýsingin er orðin meira en fjögurhundruð orð en ekkert bólar enn á liðsuppstillingu hvað þá frásögnum af gangi leiksins. Þetta er yfirleitt traust vísbending um að fótboltinn sjálfur hafi ekki verið upp á marga fiska og úrslitin drasl. Stutta útgáfan er sú að það var raunin.

Óli var í markinu með Delphin og Þóri í mðvörðunum. Orðið á götunni er að Hlynur hafi meiðst rétt fyrir leik og okkar allra besti og rauðhærðasti hlaupið í skarðið á síðustu stundu. Jesús sjálfur var í bakverðinum öðru megin og Már færði sig yfir á hinn kantinn (sem er þó rökréttari vallarhelmingur fyrir réttfættan leikmann). Almarr og Tryggvi voru á miðjunni (Indriði Áki í leikbanni) og Fred og Tiago á köntunum (sem er samt ekki í alvörunni á köntunum eins og við vitum öll). Jannik og Guðmundur frammi. Sá síðarnefndi á höttunum eftir fáeinum mörkum til viðbótar í leit að gullskó.

Hefur einhver nennt að telja það saman hversu oft Fram hefur fengið mörk á fyrstu fimm mínútunum nú í sumar? Er þetta skortur á núvitund? Skoruðu Eyjamenn ekki einmitt eftir mínútu í opnunarleik vallarins fyrr í sumar? Í það minnsta endurtóku þeir leikinn núna eftir eina og hálfa mínútu. Ekki kúl. Ekki nærgætið, 0:1 og Framvörnin í ruglinu.

Með góðum vilja hefði kannski mátt kenna sterkri sólinni sem stóð lágt á himninum um markið – frekar en almennu dáðleysi. Í það minnsta var erfitt að fylgjast með sóknarlotum Framara í fyrri hluta hálfleiksins, beint upp í sólina. Okkar menn reyndu þó að taka völdin á miðjunni og byggja upp sóknir, en lítið gerðist fyrst í stað.

Tiago og Jannik áttu góða rispu í gegnum Eyjavörnina þegar tæpar tuttugu mínútur voru liðnar sem síðasta sendingin brást og ekkert varð úr neinu. Sá síðarnefndi var á löngum köflum sá eini í Framliðinu sem virtist með þokkalegri meðvitund og með einhvern sprengikraft. Við þurfum endilega að sjá danska dýnamítið aftur í Framtreyjunni að ári.

Um miðbik fyrri hálfleiks virtist sem Fram væri örlítið að ná yfirhöndinni í leiknum. Þá kom gjörsamlega upp úr þurru furðulegasta vítaspyrna sumarsins þar sem Jesús virtist hlaupinn niður yst í vítateigshorninu (ef ekki rétt fyrir utan það). Dómarinn dæmdi hins vegar umsvifalaust vítaspyrnu, sem vakti fyrst reiðibylgju á pöllunum þegar Framstuðningsmenn áttuðu sig á því að verið væri að dæma aukaspyrnu á þeirra mann en ekki öfugt – og aðra eins óánægjugusu þegar mannskapurinn áttaði sig á því að þetta væri ekki aukaspyrna heldur víti. Réttlætistilfinning viðstaddra var sem flakandi sár en Óli bætti þó aðeins úr skák með því að verja mögulega slöppustu spyrnu sem tekin hefur verið í sumar og staðan ennþá 0:1.

Adam var ekki lengi í Paradís (ef yfirhöfuð er hægt að nota hugtakið Paradís um það að vera undir gegn ÍBV á heimavelli í tilgangslausum fótboltaleik í fokkíng október) því eftir hálftíma leik átti Almarr sendingu á Tiago sem portúgalska undriði tók ekki nægilega vel á móti og einn Eyjamaðurinn skeiðaði í gegn, Óli varði vel í stöngina (góður leikur frá honum í kvöld) en frákastið barst til Eyjamanns sem skoraði auðveldlega, 0:2. Tíminn til að sleikja sárin reynsidt lítill sem enginn. Þremur mínútum síðar var staðan orðin 0:3 eftir skyndisókn og gjaldþrot Framvarnarinnar algjört.

Staðan hefði auðveldlega getað orðið enn verri skömmu síðar þar sem einn gestanna skaut framhjá úr dauðafæri – en á móti átti Jannok gott skot sem annars ósannfærandi Eyjamarkvörðurinn varði með handboltamarkvörslu í uppbótartíma. – Hvernig skyldi annars standa á því að hugtakið handboltamarkvarsla er notað í fótbolta yfir mjög flotta markvörslu á meðan staðreyndin er sú að allir fótboltamarkmenn hafa miklu betra vörsluhlutfall ef handboltamarkmann. Erum við að tala um betri kynningarfulltrúa? Straumlínulagaðri markaðsstrategíu? Maður spyr sig.

Það var dræmt hljóð í fínumannaboðinu í leikhléi. Garðar sendiráðsbílstjóri var reyndar frekar kátur en það tengdist frekar Liverpool en Framliðinu – og jú, fantagóð eplakaka náði aðeins að létta lund sumra. Yrði þetta mikið daprara í seinni hálfleik?

Framarar komu talsvert ákveðnari til leiks eftir hlé og Eyjamenn sem höfðu í fáein skipti náð 3-4 sendingum sín á milli í fyrri hálfleik ákváðu að hætta því alfarið á móti sólinni sem raunar var löngu sest. Fáránlegur darraðardans átti sér stað við Eyjamarkið strax á fyrstu mínútunum þar sem markvörðurinn gerði heiðarlega tilraun til að skófla boltanum í eigið net við það eitt að sjá Jannik nálgast sig. Tveimur mínútum síðar gerði þó sami markvörður vel í því að blaka boltanum í markslá og horn eftir skot frá Almarri. Aftur urðu trúðslæti á marklínu Eyjamanna fimm mínútum síðar með tilheyrandi nauðvörn eftir skalla frá Gumma.

Eftir klukkutíma leik virtust Framarar fá líflínu. Við fengum eina af hundrað hornspyrnum okkar í leiknum og eins og alltaf þegar þær voru teknar fyrir markið í stað þess að spila stutta skapaðist stórhætta. Tiago sendi fyrir og Þórir kom svífandi eins og stormsenterinn sem hann í grunninn er og stangaði í netið. 1:3 og allt opið – eða hvað?

Magnús og Óskar komu inná fyrir Jesús og Almarr þegar tuttugu mínútur voru eftir. Mínútu síðar sparkaði Þórir klunnalega í bringuna á Eyjamanni í miðjum vítateig okkar, en dómarinn sem búinn var að missa öll tök á leiknum dæmdi ekkert. Mögulega jafnaðist þetta e-ð út tveimur mínútum síðar þegar þegar Jannik fór (frekar auðveldlega) niður í vítateignum hinu megin en uppskar ekkert.

Leikurinn datt niður á þessu tímabili og það næsta sem dró til tíðinda var að Orri kom inná fyrir Má sem meiddist í samstuði þegar um tíu mínútur voru eftir. Þórir var nærri því að tvöfalda markareikninginn en markvörður ÍBV varði vel. Í uppbótartíma koma Gummi boltanum í netið en búið var að flagga rangstöðu, sem fréttaritarinn myndi sannreyna með því að rýna í svipmyndir frá Stöð tvö sport ef lífið væri ekki of stutt til að horfa svona mikið á Eyjamenn spila fótbolta. Sex mínútna uppbótartími skilaði engu og Fram mátti sætta sig við 1:3 tap gegn Eyjamönnum sem verða þeirrar gæfu aðnjótandi að fá aftur að heimsækja Dal draumanna að ári. Heppnir!

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!