fbpx
jannik vefur

Þetta er ekkert mól fyrir Jannik Pohl!

Mól er ein af grunneiningunum í SI-kerfinu og stendur fyrir nákvæmt efnismagn fyrirbæris. Eitt mól er skilgreint sem nákvæmlega 6,02214076 sinnum 10 í 23ja veldi eininga, hvort sem um er að ræða stök atóm, sameindir, jónir eða rafeindir. Gárungar í hópi efnafræðinga hafa því fagnað hinum alþjóðlega mól-degi þann 23. 10. ár hvert frá kl. 6:02 árdegis til 6:02 síðdegis. Líf raunvísindamannsins er svo sannarlega rússíbanareið glens og spaugs.

Í fyrsta sinn í sögunni gafst Frömurum tækifæri til að fagna mól-deginum með fótboltaleik á Íslandsmótinu og það í sjálfum Dal draumanna á móti sigursælasta liði tuttugustu aldar, Fimleikafélagi Hafnarfjarðar. Hólí mólí!

Gjörsamlega ómeðvitaður um hina efnafræðilega merkingarþrungnu dagsetningu (hann átti enn eftir að lesa Wikipediugreinina um sögu dagsins til að búa til sniðugt þema) hélt fréttaritari Framsíðunnar upp í Úlfarsárdal. Hann var nýkominn úr sögugöngu um Seltjarnarnes og því rækilega vindbarinn, en vissi sem var að í sælureitnum við árbakkann yrði hlýtt og skjólsælt – í það minnsta í því verkfræðiundri sem fallega stúkan okkar er.

Í fínumannaboðinu í vippinu var heldur fáliðað. Enginn plokkari í boði, enda miður dagur en þeim mun meira af rjúkandi kaffi og litlum, hringskornum pizzabitum. Fréttaritarinn settist til borðs með Olla og Pétri Ormslev. Sá síðarnefndi var of upptekinn við að hafa áhyggjur af stöðu Leeds í enska boltanum til að ná mikið að stressa sig á yfirvofandi sparkleik. Það var samt smábeygur í mannskapnum: ætluðum við ekki að klára þetta mót með sæmd eftir alla velgengnina um miðbik keppninnar?

Byrjunarliðið var komið á netið og fátt sem kom þar sérstaklega á óvart. Óli í markinu. Delphin og Hlynur miðverðir. Már og Óskar bakverðir. Almarr og Tryggvi á miðjunni og Fred og Tiago á köntunum en samt líka einhvern veginn á miðjunni. Gummi og Jannik fremstir.

Skjaldsveinninn Valur Norðri og Rabbi og drengjastóðið voru hvergi nærri. Fréttaritarinn ákvað því að færa sig á nýjar slóðir neðst í stúkunni og settist fyrir aftan Kristjáns Hnífsdalstrymbil, við hlið Geiramanna. Þangað mætti líka Garðar úr sendiráðinu með barnabarnið með í för. Kosturinn við þessa staðsetningu er m.a. nálægðin við aðstoðardómarann sem gefur færi á vinsamlegum ráðleggingum um dómgæslu og uppbyggilegri gagnrýni eftir því sem leiknum vindur fram.

Það olli örlitlum ruglingi meðal Framara í stúkunni þegar flautað var til leiks, hvar okkar allra besti Fred væri niður kominn á vellinum. Fljótlega kom skýringin þó í ljós. Brasilíska undrið hefur ákveðið að hætta að lita hárið á sér svart en leyfa í staðinn sínum ljósa – nánast snjóhvíta hárlit – að njóta sín. Vel gert!

Fögnuður braust út á pöllunum þegar þrjár mínútur voru liðnar af leiknum og Framarar voru enn ekki búnir að fá á sig mark. Þessi plagsiður okkar að byrja leikinn nokkurhundruð sekúndum á eftir mótherjunum hefur verið pínkulítið hvimleiður í sumar, þótt vissulega hafi liðið oftast nær svarað fyrir sig með því að skora bara enn fleiri mörk. Dómarinn sýndi strax í upphafi að hann væri meðvitaður um að hér ættust við tvö lið með ríka handboltahefð, sem birtist í því að hrindingar og stympingar voru látnar óátaldar að mestu. Gestirnir voru öllu betri en við í að færa sér þær upplýsingar í nyt.

Fyrsta færið kom eftir fimm mínútur. Það var hálfmisheppnaður skalli frá Jannik eftir sendingu frá Tiago. Báðir áttu eftir að láta meira til sín taka. Mínútu síðar skeiðaði Jannik upp að endamörkum, náði naumlega að halda boltanum inná og senda fyrir á Gumma sem var í dauðafæri, náði tveimur skotum að marki sem FH-ingar vörðu bæði með herkjum – en ruku svo sjálfir upp völlinn þar sem einn svarthvítur komst einn í gegn en Óli náði að verja með því að skjóta út fætinum. Óli átti raunar einn sinn allra besta leik í sumar að þessu sinni og átti eftir að verja vel nokkrum sinnum.

Leikurinn hélt áfram í takt við þessar upphafsmínútur. Boltinn gekk vítateiga á milli og ljóst að þetta yrði ekki markalaust jafntefli!

Á elleftu mínútu var ísinn brotinn. Framarar unnu boltann í vörninni en í stað þess að negla fram léku þeir hratt sín á milli með stuttum sendingum, uns Fred fékk boltann framarlega á eigin vallarhelmingi, tók nokkur skref fram og átti síðan sturlaða stungusendingu inn fyrir vörn FH þar sem Jannik Pohl (kæru íþróttafréttaritarar og sumir vallarþulir í Dal draumanna: hann heitir Pohl ekki Holmsgaard) stakk alla af, tók svo árásina og skaut undir FH-markvörðinn, 1:0!

Gestirnir voru ekki af baki dottnir og næsta stundarfjórðunginn komust þeir tvisvar í ágæt tækifæri. Í annað skiptið bjargaði Hlynur vel og í hitt skiptið náðu Framarar að lokum að negla boltanum í burtu eftir darraðardans. FH pressaði en skapaði ekki mikið og skipti þar miklu máli að allt virtist brotna á Almarri sem var frábær í dag.

Fred hinn ljóshærði blandaði sér mun meira í varnarleikinn en oft áður. Á 38. mínútu stuggaði hann ansi hraustlega við einum FH-ingnum á vítateigslínunni og hjarta Framara í stúkunni missti út slag – en dómarinn var samkvæmur sjálfum sér í að leyfa mönnum að böðlast og hrinda, svo ekkert var dæmt. Beint í kjölfarið skapaðist stórhætta í vítateig Fram þar sem Óli þurfti að grípa inní. Þremur mínútum síðar þurfti hann svo risavörslu til að forða því að Hafnfirðingar jöfnuðu metin.

Um það leyti sem venjulegur leiktími fyrri hálfleiks rann út lagðist Tryggvi niður í vítateignum, meiddur. Þegar þurfti að grípa til skiptingar og kom Magnús Ingi inná í hans stað. Skilti eftirlitsdómarans sýndi að tveimur mínútum væri bætt við og byrjuðu hamborgara- og kaffisoltnir áhorfendur að búa sig undir að halda til leikhlés. FH var í sókn en missti boltann, sem var sendur út á Tiago sem virtist ætla að taka sér allan tímann í heiminum til að hreinsa útaf eða kýla fram á völlinn… nema hvað að hann sá auðvitað Jannik Pohl skeiða af stað og með stórkostlega nákvæmri og langri sendingu setti hann boltann langt fram á teig FH, þar sem Jannik stakk alla af og náði til knattarins á undan færeyska landsliðsmarkverðinum og skoraði 2:0. Mark sem var nákvæmlega 6,02214076 sinnum 10 í 23ja magn snilldar í tilefni dagsins! Um leið og gestirnir tóku upphafsspyrnuna var flautað til leikhlés.

Það var almenn kátína inni í húsi. Einar Kárason og Friðrik Þór voru glaðhlakkalegir í anddyrinu. Í fínumannaboðinu var rætt um hvort Jannik kynni að hafa verið rangstæður, úr því að fýlupokarnir á einhverjum vefmiðlinum voru að dylgja um það. Þær vangaveltur voru vegnar og léttvægar fundnar af mönnum sem höfðu séð markið vel. Þetta var bara frábær samvinna. Við færum nú fjandakornið ekki að missa þetta niður í seinni hálfleik, þrátt fyrir að vera á móti vindi.

Þarf ekki Gummi að skora? – var aðalumræðuefnið yfir Hraunbitunum og negrakossunum. Fyrir leikinn vantaði markahrókinn okkar eitt mark í að jafna Akureyringinn sem kominn er til útlandsins og tvö mörk í að sitja einn að gullskónum. Fram hefur ekki hreppt gullskó síðan Jónas Grani varð markakóngur hér um árið og bjargaði brúðkaupsdegi fréttaritarans með því að halda okkur uppi. Það var nokkuð almenn samstaða um að Gummi þyrfti að skora.

Og þegar fínumannaboðið ályktar um að Gummi þurfi að skora, þá skorar hann að sjálfsöðgu! Þegar seinni hálfleikur var sjö mínútna gamall átti Magnús Ingi frábæra, langa sendingu frá miðjum vellinum og upp í markhornið fjær, sem virtist ætla að svófa útaf þegar Fred kom aðvífandi – sendi  fyrir markið þar sem Gummi kom og potaði honum inn. Glókollarnir féllust í faðma og það sama gerðu Framarar í stúkunni. 3:0 og sigurinn í höfn.

Eftir klukkutíma leik misstum við annan mann meiddan af velli. Hlynur varð að fara útaf en Tóti tók hans stöðu í miðri vörninni og skilaði sínu hlutverki vel. Óskar nýtti tækifærið sitt ágætlega í byrjunarliðinu og var öflugur bæði í vörn og sókn. Hann var óvænt kominn í fremstu röð þegar 25 mínútur voru eftir, en FH-ingar björguðu með því að senda boltann aftur á markvörðinn sem greip hann af því að það var í boði í dag. Á sömu mínútu þurfti Delphin að bjarga á marklínu hinu megin.

Þreföld skipting Framara átti sér stað á 85. mínútu. Óskar, Jannik og Fred komu að velli við dynjandi lófatak. Inná komu Orri, Indriði Áki og kornungur nýliði, Breki Baldursson fæddur árið 2006. Um leið var tilkynnt að áhorfendafjöldinn hefði verið 586. Þetta voru mögulega fámennustu 586 manns sem fréttaritarinn hefur séð – en á hitt ber að líta að Hafnfirðingar hafa margir hverjir mjög veika viðveru.

Breki litli var næstum búinn að skora, nýkominn inn á völlinn, en skot hans var varið af varamarkverði FH. Hann átti annars flotta innkomu þessar sárafáu mínútur sem hann fékk til að spreyta sig. Framtíðin er björt og blá. Gestirnir hefðu getað klárað í bakkann eftir hornspyrnu þar sem Framarar sváfu á verðinum í uppbótartíma en boltinn söng í stönginni. Þetta var líka stöngin-út leikur hjá Hafnfirðingum. Allt vinnur gegn þeim og Rúmfatalagerinn virðist meira að segja hafa innkallað þjálfaragallana fínu. En við kvörtum ekki. Flottur sigur þar sem Jannik Pohl var fremstur meðal jafningja. Lokaumferðin er í Keflavík. Gullskór í boði. Aðeins flón missa af þessu.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!