Það er aldrei skemmtilegra að horfa á fótbolta en utandyra á Íslandi á hlýju vorkvöldi. Fólkið sem lengdi Íslandsmótið í fyrra og hélt að einhver væri að kalla eftir haustlægðaleikjum í lok október var í ruglinu en sá þó villur síns vegar. Íslandsmótið hefur aldrei byrjað fyrr og það er frábært.
Fótboltaáhugafólk fékk líka veislu strax í fyrstu umferðinni þar sem Reykjavíkurmeistararnir tóku á móti öðru af tveimur bestu liðum Hafnarfjarðar, þriðja stærsta sveitarfélagsins. Allar líkur eru á sömu lið muni mætast í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í parketglímu karla og stuðningsmennirnir hituðu upp með lokumferðinni. Fréttaritari Framsíðunnar stökk út úr strætisvagni númer átján rétt í tíma til að sjá Framstráka vinna ÍR-inga. Fagna því allir góðir menn. Húsið var fullt af fólki og með góðum vilja gat fréttaritarinn talið sér trú um að hann skildi nokkurn veginn reglurnar í þessari skrítnu þjóðaríþrótt. Áfram við!
Eftir handboltaleikinn settist fréttaritarinn niður ásamt Garðari sendiráðsbílstjórna og Liverpoolmanni í Bar-áttunni sem er pínkulítið uppskrúfað nafn á svæðinu umhverfis nýju og fínu bjórdæluna okkar þar sem Geiramönnum var áður boðið upp á kaffi og örlítið harðar tebollur. Þetta er frábær bar og Garðar og fréttaritarinn skemmtu sér konunglega við að horfa á mýgrút sjálfboðaliða undirbúa leikinn. Á barnum er hægt að kaupa bjór-klippikort sem er mögulega skynsamlegasti fjárfestingarkostur á Íslandi í 9,8% verðbólgu og miklu skynsamlegri en flestir almennir sparisjóðsreikningar með eða án bindiskyldu – hvað allir athugi. Garðar er fastagestur í getraunakaffi Fram en tipparahópurinn spilaði víst á fjórum seðlum á laugardaginn var og fékk þrettán rétta(!), sem er frábært! Reyndar samanlagt, sem er frekar glatað.
Þegar klukkutími var í leik var tímabært að mjaka sér upp í fínumannastúkuna á efri hæðinni þar sem boðið var upp á staðgóðan kvöldverð úr öllum mikilvægustu fæðuflokkunum: salti, fitu og bindiefni. Nonni þjálfari kom svo og ljóstraði upp um byrjunarliðið. Það var strangheiðarlegt 4-4-2 eins og við gerum svo vel. Óli í markinu og með fyrirliðabandið á meðan Hlynur var utan vallar, Delphin og Brynjar í miðvörðunum, Már og Adam sem kom úr Leikni í bakvörðunbum. Aron Jóhannsson sem kom úr Grindavík og Albert á miðjunni, Fred og Magnús hvor á sínum kanti og Gummi og Jannik frammi. Tiago er enn tæpur og byrjaði á bekknum.
Fréttaritarinn rölti niður í stúkuna einn síns liðs. Skjaldsveinninn Valur Norðri var hvergi sjáanlegur enda staddur við botn Persaflóa í Bahrein, einhver er nú innkoman! Rabbi trymbill var veikur heima með einhverja skítapest. Einn og umkomulaus hlammaði fréttaritarinn sér niður fyrir aftan Geiramenn sem skarta nýjum trymbli í ár, Ása boxara sem er mjög hress og peppaður. Rétt í þá mund sem flautað var til leiks hlammaði Gústi kokkur, sonur fyrrnefnds Garðars sér niður í næsta sæti og urðu fagnaðarfundir. Mamma Þóris sat einhvers staðar annars staðar í stúkunni en á næsta bekk fyrir aftan var mamma Arons Jó. sem er greinilega grjóthörð og hrópaði bara einu sinni „Áfram Grindavík!“
Það er annars hálf kjánalegt að reyna að skrifa einhverja neimdroppupptalningu á því hverjir voru hvar. Það voru nefnilega allir og amma þeirra á vellinum. Stúkan var smekkfull og opinbera talningin segir 1.327 manns. Völlurinn í Úlfarsárdal er alltaf góður en smekkfullur í blankalogni er hann sá langskemmtilegasti á landinu.
Það var ekki hægt annað en að vorkenna örlítið leikmönnum FH þegar flautað var til leiks. Þeir komnir á flottasta völl landsins og á móti bestklædda liði landsins, FH-búningurinn verandi óvenjulega ljótur og asnalegur þetta árið. Það geta bara ekki allir verið gordjöss.
Nonni lýsti því í fínumannaboðinu hvernig planið yrði að liggja til baka og reyna að stinga hratt í gegnum FH-vörnina og eftir þeirri áætlun var unnið. Gummi átti flotta stungu á Jannik sem var flaggaður rangstæður strax á annarri mínútu og fimm mínúrum síðar átti Fred gott skot sem FH-markvörðurinn varði vel, Gummi skoraði úr fraákastinu en aftur var flaggið komið á loft.
Eftir tæpar tuttugu mínútur var Jannik nálega sloppinn í gegn eftir góða skallasendingu frá Gumma. Framararnir áttu færin á þessum upphafskafla, en það gefu þó ekki fyllilega rétta mynd af leiknum. FH-ingarnir, væntanlega trylltir af búningaöfund, voru almennt fastari fyrir og léku eins fast og dómarinn leyfði – sem var talsvert á sumum köflum leiksins en minna á öðrum.
Okkur hefur farið talsvert fram í varnarleik frá því í fyrra og það er allt annað að sjá til Delphins heldur en á stórum köflum síðasta tímabils. Hann átti nokkrar frábærar tæklingar og var alvöru kandídat í mann leiksins hjá Fram – öðruvísi mér áður brá!
FH náði að setja boltann í Frammarkið eftir tæplega hálftíma leik upp úr aukaspyrnu en það var dæmt af vegna augljósrar rangstöðu. Almennt séð virtist leikurinn vera í jafnvægi á þessum tíma og þótt FH-ingar væri meira með boltann úti á vellinum virtust Framsóknirnar ekki síður líklegar til árangurs. Það var því fremur gegn gangi leiksins þegar dómarinn dæmdi vítaspyrnu á Adam í Framliðinu á 37. mínútu. Dómurinn virtist gríðarlega harður og kurr í stúkunni en FH skoraði af öryggi.
Það fór örlítið um fréttaritarann og Gústa kokk. Hvernig myndu okkar menn bregðast við þessu mótlæti? Stutta svarið var: mjög vel! Rétt eftir mark FH-inga átti Gummi frábæra stungusendingu inn á Jannik sem stakk af sér hafnfirsku silakeppina í vörninni og hljóp í átt að marki þar sem FH-markvörðurinn hljóp langt út fyrir markteiginn og straujaði okkar allra besta danska framherja og mátti teljast ljónheppinn að fá ekki allavega lituð spjöld að launum. Jannik þurfti að yfirgefa völlinn eftir fantatökin en Gummi Magg skoraði af öryggi. Hann ætlar ekki að missa aftur af gullskónum!
Litlu mátti muna að Fram færi inn í hléið með forystu þar sem Albert átti flotta sendingu sem nánast rataði á kollinn á Gumma en Hafnfirðingar sluppu með skrekkinn.
Það var stappað á öllum göngum og klósettum svo fréttaritarinn forðaði sér inn í fínumannakaffi. Þar var almennt góður rómur gerður að frammistöðu okkar manna en þess þó óskað að við værum örlítið aggressívari. Algengasta spurningin var þó: hvaðan kemur allt þetta fólk? Er Fram orðið best studda fótboltalið á Íslandi? Hvar er stuðningshópurinn fyrir okkur sem máttum venjast 300 manns á Laugardalsvelli þar sem hvert einasta orð sem Kristbjörn og Einar Hákonarson létu falla heyrðist skýrt og greinilega? Er nema von að sum okkar séum að greinast með breytingastreituröskun?
Seinni hálfleikur var byrjaður þegar fréttaritarinn rataði aftur í sætið. Geiramenn tóku „Við erum Geiramenn!“ – sem sannast sagna er eitt af bara 3-4 góðum stuðningsmannahrópum íslenskra fótboltaliða. Hlýtur að vera svekkjandi fyrir alla hina að við séum bæði í flottasta búningnum OG með bestu hrópin. En svona er þetta bara.
Hvað svo sem Nonni og Raggi sögðu við liðið í hlénu þá svínvirkaði það. Framarar mættu mun ákveðnari til leiks eftir hlé. Delphin átti tæklingu ársins og Fred var beittur fram á við. Alveg er það magnað hvað þessi litli og netti maður gefst aldrei upp á að atast í stórum lurkum og vinnur oftar af þeim boltann með klókindum frekar en líkamsburðum. Á 52. mínútu skeiðaði okkar allra besti Brassi upp kantinn og að endamörkum, sendi fyrir þar sem Albert stökk yfir boltann eða ýtti honum áfram þar sem Hlynur Atli (sem komið hafði inná fyrir Jannik og tekið stöðu Alberts á miðjunni) kom aðvífandi og skaut boltanum ekki í netið heldur hreinlega skriðtæklaði hann, 2:1 fyrir Fram!
Á þessum tímapunkti hefði verið gott að geta gripið til markapelans, en sem fyrr sagði var skjaldsveinninn í Barein og það á Ramadan og hefði líklega fengið tuttugu vandarhögg fyrir að draga pyttlu úr rassvasanum.
Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður neyddust Nonni og þjálfarateymið til að gera aðra breytingu á liðinu. Adam sem hafði haltrað um allnokkurt skeið fór af velli fyrir Óskar. Fjórum mínútum síðar riðu ósköpin yfir. Maggi og Fred stormuðu í sókn sem engu skilaði, gestirnir voru fljótir að negla fram og jöfnuðu eftir snyrtilegan samleik.
Þegar kortér var eftir fékk Tiago að spreyta sig. Hann kom inná fyrir Magnús og Orri sem kom frá Þór leysti Albert af hólmi. Um leið var leikaðferðinni breytt og við skiptum yfir í fjölmennari en marksæknari miðju þar sem Aron Jó var sendur fram á við. Næstu mínúturnar bar fátt til tíðinda annað en furðulegt misræmi í dómum þar sem FH-ingur númar 26 (fréttaritarinn veit hvað FH-ingur númer 26 heitir en andstæðingar eru ekki nafngreindir í þessum pistlum nema í algjörum undantekningartilfellum) var ljónheppinn að fá ekki sitt seinna gula spjald. Í uppbótartíma átti Fred stórkostlega sendingu á Aron en FH-markvörðurinn varði vel.
Fjögurra marka jafntefli í Úlfarsárdalnum og Framleikir halda áfram að vera þeir skemmtilegustu í boltanum. Jafntefli var sanngjarnt og margt jákvætt í leik okkar manna. Delphin hefur þegar verið hrósað og sjálfsagt að skella hrósi líka á Má, Jannik meðan hans naut við og Gumma. Næsti leikur verður í Kórahverfi þar sem voru rjúpnaveiðilönd þegar fréttaritarinn var ungur drengur. Auk þess legg ég til að Fram verði bikarmeistari í ár.
Stefán Pálsson