fbpx
Ferd gegn FH

Heimshornaflakk

Hvar í veröldinni er Carmen Sandiego? Um þessa lykilspurningu hverfðust epískir tölvuleikir frá níunda áratugnum sem fólust í því að keppendur reyndu að elta tálkvendið fröken Sandiego um heimsbyggðina og giskuðu á næsta áfangastað hennar út frá almennum lýðfræðilegum upplýsingum, nöfnum höfuðborga, fánalitum eða myndum frá vettvangi. Carmen Sandiego var kona hinna mörgu flugpunkta.

Svar samtímans við femme fatale síð-áttunnar er sjálfur skjaldsveinninn Valur Norðri, sem er raunveruleg persóna þótt sífellt fleiri lesendur þessara pistla séu farnir að hallast að því að hann sé ímyndaður vinur eins og Mangi í Einars Áskells-bókunum. Matvælavísindafálkinn er um þessar mundir að spígspora. Í fyrstu umferðinni var hann í Miðausturlöndum en núna er hann kominn til Brasilíu og það með markafleyginn. Þetta er goðgá og glatað, einkum þegar stærsta leik vorsins bar að garði þar sem Reykjavíkurmeistararnir mættu nýbökuðum Kópavogsmeisturum í Kórnum í kvöld.

Þetta var dagur inniíþrótta. Fyrst mætti fréttaritarinn í Úlfarsárdal og sá handboltaliðið okkar tapa grátlega fyrir Mosfellingum. Því næst lá leiðin upp í Hvarfakór eða hvað þetta nú heitir allt saman til að horfa á aðra umferð Íslandsmótsins. Eftir að hafa sent ferðaplanið bæði til Landsbjargar og Flöffana tók fréttaritarinn strikið upp fyrir snjólínu og kom alltof snemma á svæðið. Baldur Már, sem öllu ræður hjá HK, reyndist höfðingi heim að sækja. Skrafaði um fótbolta og sagnfræði milli þess sem hann dældi froðuríkum Heineken í plastglös og stýrði því harðri hendi hvaða ungviði fékk að smjatta á pizzusneiðum. HK er skemmtilegt félag og fjölskyldulegur bragur á öllu utanumhaldi.

Byrjunarliðið birtist á KSÍ-vefnum. Það var í flestum meginatriðum eins og á móti FH. Óli í markinu, Delph og Brynjar miðverðir. Már í öðrum bakverðinum en Óskar kom inn í hina stöðuna fyrir Adam sem hefur verið e-ð lasinn í vikunni. Hlynur Atli kom inn fyrir Jannik sem er illu heilli meiddur eftir markmannsböðulinn síðast og fór fyrirliðinn aftast á miðjuna með Grindavíkur-Aron sér til halds og trausts, Albert fyrir framan, Magga og Fred hvorn á sínum kanti og Gumma uppi á toppi. Eins og okkur finnst gaman að spila 4-4-2 þá hefur það klárlega sína kosti að hafa þéttskipaðri miðju.

Fréttaritarinn tillti sér í næstfremstu röð úti í enda Frammegin, umkringdur strákpöttum og þekkti fáa nema Oddberg sagnfræðing og fjölskyldu og Dað Guðmunds fáeinum sætum frá. Leikurinn byrjaði rólega og það fyrsta sem rataði í minnisbókina var bylmingssskot Arons í hliðarnetið eftir fína sendingu frá Alberti. Vinnusemi Alberts var til mikillar fyrirmyndar og hann okkar besti maður í fyrri hálfleik. Nokkrum mínútum síðar rauk Óskar upp kantinn og átti þokkalega sendingu fyrir markið en Gummi náði ekki að setja tánna í boltann.

Eftir að hafa verið sterkari fyrsta korterið misstu Framarar smám saman dampinn og þótt þeir ættu betri samleik úti á velli komu færin í hlut heimamanna. Oftar en ekki urðu þessi færi til upp úr kæruleysislegum varnarleik okkar manna sem misstu boltann á versta stað. Eitt slíkt var á 25. mínútu og virtist hættan að mestu afstaðin þegar óvænt skot eins HK-mannsins söng í markslánni. Tveimur mínútum síðar áttu Kópavogsmeistararnir svo fast skot rétt framhjá.

Eftir hornsyrnu hinu megin tókst Hlyni einhvern veginn að skalla boltann alveg niðri við jörð og var nánast búið að takast að lyfta honum yfir markvörðinn og í bláhornið fjær. Skömmu síðar var Fred aðgangsharður við HK-markið. HK menn vildu víti á Má, en það virtist þó tilefnislaust og beint í kjölfarið þurfti Óli að verja vel í markinu. Á Stöð 2 Sport var hann valinn maður leiksins sem var alls ekki úr lausu lofti gripið.

Markalaust í leikhléi eftir fyrri hálfleik þar sem HK átti klárlega betri færin. Fréttaritarinn brá sér útfyrir til að planta nokkrum öspum í máttlítilli tilraun til að kolefnisjafna heimsreisu skjaldsveinsins. Gréta Thunberg grætur í nóttinni.

Í seinni hálfleik hafði fréttaritarinn fengið nóg af gríslingunum við hliðarlínuna og tyllti sér frekar í tröppurnar við hliðina á félaga Rabba sem sat þar við hliðina á mömmu þeirra Guðjónssona (það er happa að sitja nálægt mærðum núverandi og fyrrverandi leikmanna á vellinum). Tryggingasérfræðingurinn Rafn var frekar impóneraður yfir HK-liðinu sem lítur alls ekki út eins og fallkandídatar.

Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri endaði. Framarar áttu á ágætis leikkafla úti á velli en færin komu í hlut HK-inga. Þegar fimm mínútur voru liðnar komst einn hinna röndóttu í dauðafæri en varð mest hissa sjálfur og það fór í súginn. Þetta virtist vekja Framara aðeins til lífsins. Már braust í gegnum HK-vörnina og skapaði mikinn usla nokkrum mínútum síðar og á 55. mínútu hljóp Fred upp kantinn og átti svo gullfallega sendingu fyrir þar sem Gummi Magg stökk fáránlega hátt og hárnákvæmt upp og stangaði boltann í netið, 0:1 og okkar maður með mark í leik. 27 mörk ættu að gefa gullskóinn í haust!

Því miður liðu ekki nema tvær mínútur þar til heimamenn náðu að jafna úr því sem virtist vera mesta rangstöðumark í heimi, 1:1.Sjónvarpsupptökur eru þó ekki afgerandi og því má ekki útiloka þann möguleika að ormagöng hafi opnast á vellinum og gert framherja HK fært að skora löglega og mun fréttaritarinn sem áhugamaður um tilgátuvísindi tengd almennu afstæðiskenningunni því láta HK-inginn njóta vafans.

HK-ingar mátti prísa sig sæla að hanga ellefu inná um miðbik hálfleiksins þegar leikmaður á gulu gerði heiðarlega tilraun til að næla sér í a.m.k. bleikt spjald. Síðustu tuttugu mínúturnar virtist mjög farið að draga af heimamönnum og Framarar tóku völdin hægt og bítandi. Hlynur fór af velli fyrir Tiago sem er hægt og bítandi að komast í leikform og síðar í leiknum fór Óskar af velli fyrir Adam.

Albert átti hörkuskot vel fyrir utan teig sem fór rétt yfir þverslá HK-marksins þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Gummi fór útaf fyri Þóri en lokamínúturnar urðu tíðindalitlar, þó varði Óli glæsilega undir lokin og beint í kjölfarið fékk Delphin höfuðhögg og var pakkað inn í sárabindi en einhverra hluta vegna kom hann hvorki inná aftur né nýjum manni væri skipt inná – sem hefði þó væntanlega mátt þar sem um höfuðáverka var að ræða.

1:1 jafntefli í Kórnum voru varla óskaúrslit eins eða neins, en við virðum stigið og mörg lið munu lenda í klandri á þessum velli. Nú tekur við bikarkeppnin. Næsti leikur á miðvikudagskvöldið  og því er nú fjandans verr að fréttaritarinn er bundinn í vinnu það kvöldið. Spurning um að hringja inn sprengjuhótun – eða virkar það bara þegar maður er að missa af flugi?

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!