Vika Satans er að baki. Á furðufáum dögum tókst Knattspyrnufélaginu Fram að koma sér úr leik í úrslitakeppnum handbolta karla og kvenna, sem og bikarkeppninni í fótbolta sem er stórkostlega ofmetið skítamót og vinsældakeppni.
Ný vika og nýjar væntingar! Fréttaritari Framsíðunnar tók leið átján frá Bústaðaveginum með sól í hjarta á sjötta tímanum – þetta yrði svo sannarlega leikur með lágt kolefnisspor. Við Skeifuna steig Garðar sendiráðsbílstjóri nojaranna um borð og hlammaði sér við hlið fréttaritarans. Þar urðu fagnaðarfundir og ekki rædd vitleysan það sem eftir var ferðarinnar.
Það var fermingarveisla í gangi í Dal draumanna þegar litla Noregsvinafélagið skilaði sér úr strætó, en leiðin var þó greið upp í fínumannaherbergið þar sem bjórinn flaut og þríhyrningsskornar mæjónessamlokur flutu um trogin. Nonni þjálfari mætti og var óneitanlega dálítið aumur. Meiðsli hafa leikið leikmannahópinn grátt. Delphin er utan hóps vegna höfuðhöggs og síðast í gær meiddist Óli Íshólm á æfingu. Það væri synd að segja að þjálfarinn hafi verið upplitsdjarfur í liðskynningunni.
Byrjunarliðið var annar sem hér segir: Benjamín Jónsson í markinu. Brynjar og Orri Akureyringur í miðvörðum (hafið ekki áhyggjur – eftir 1-2 leiki í viðbót verður hann bara Orri, án allra viðskeyta) og Adam og Már hvor í sínum bakverðinum. Aron, Albert og Fred skipuðu sóknarsinnaða miðju með Tiago og Magga hvorn á sínum kanti og Gumma Magg frammi. (Þegar til átti að taka flæddi þessi uppstilling fram og til baka þar sem Fred og Tiago skiptu reglulega um stöður á vellinum.)
Fréttaritarinn trítlaði niður úr heldrimannastúkunni og vissi ekki almennilega hvert ætti að fara. Skjaldsveinninn Valur Norðri var strandaglópur á flugvelli í Bretlandi og Rabbi trymbill grasekkill heima í Seljahverfi. Frekar en ekki neitt ákvað ykkar einlægur að standa bara upp í endann á þéttskipuðum vellinum við hliðina á títtnefndnum Garðari bílstjóra og Lalla Grétars, besta og frægasta unglingaþjálfara Íslands og sérstaks Færeyjavinar. Engar mæður neinna leikmanna voru í næsta nágrenni, illu heilli. Daði úr handboltanum var þó skammt undan en hann á víst táning sem er næsta vonarstjarna okkar. Þið lásuð það fyrst hér.
Það var ekki liðin mínúta af leiknum þegar Fred slapp í gegnum Valsvörnina og var nærri búinn að skora. Okkar allra besti Brasilíumaður er í miklu stuði um þessar mundir og mun raða inn mörkunum í sumar! Eftir rétt rúmar tíu mínútur komst Maggi óvænt í dauðafæri eftir langa sendingu frá Gumma sem endaði í sendingu á Albert sem skallaði naumlega yfir. Fersk byrjun Framara!
Eftir góða byrjun okkar manna unnu Valsarar sig hratt inn í leikinn og um miðjan fyrri hálfleikinn tóku þeir völdin á miðjunni. Framarar bökkuðu mikið og það tók að mæða nokkuð á markverðinum, hinum barnunga Benjamín.
Í laginu Draumaprinsinum eftir Magnús Eiríksson er ýmist sungið um Benóný og Benjamín á ballinu sem leggur sterkan arm um bak sögukonunnar og þau svífa í eilífðardans. Enginn fær að vita hvort nafn draumaprinsins sé í raun Benjamín eða Benóný – og hér mun ekki vera um að ræða töfraraunsæi heldur vangá í hljóðritun. Hvað sem því líður er Benjamín Jónsson nýi draumaprins okkar Framara því nítján ára guttinn stóð sig frábærlega milli stanganna og varði allt sem að kjafti kom, þ.ám. prýðilega fyrirgjöf af kolli eins Valsarans á fimmtándu mínútu.
Eftir hálftíma leik náði Maggi, sem var mjög frískur í kvöld, góðri rispu upp kantinn og sendi fyrir á Gumma sem missti naumlega af sendingunni. Tveimur mínútum síðar átti Orri góða stungu yfir hálfan völlin á Magga sem lék upp að endamörkum og sendi fyrir á Fred sem skoraði glæsilega, 1:0.
Beint í kjölfar marksins virtust Framarar ætla að láta kné fylgja kviði og Albert átti eina eða tvær góðar rispur. Vinnusemi hans hefur áður verið hrósað í þessum pistlum, en hann fer miklu betur af stað í ár en í fyrra!
Um það leyti sem Fram virtist ætla að taka yfir leikinn reið ógæfan yfir. Á 43. mínútu virtist Orri strjúkast utan í leikmann Vals sem hrundi til jarðar með tilþrifum. Billegasta víti ársins leit dagsins ljós og Hlíðarendapiltar jöfnuðu 1:1.
Það var þungt hljóð í fínumannaboðinu og hart sótt að Gylfa Orrasyni að viðurkenna að vítadómurinn hefði verið algjört frat – félagi Gylfi varðist þó vel að venju!
Engar liðsbreytingar voru gerðar í hléi og höfðu Nonni og Raggi greinilega náð góðri ræðu í hálfleik: Framarar komu mun ákveðnari til leiks og þjörmuðu vel að Völsurum. Gestirnir settu boltann reyndar í Frammarkið eftir tvær mínútur en rangstöðuflagg aðstoðardómarans var komið á loft.
Eftir um fimm mínútna leik splundruðu Fred, Mási og Maggi Valsvörninni á glæsilegan hátt en náðu ekki að skora. Allir þrír eru meðal okkar bestu manna um þessar mundir, en Már er líkleg vanmetnastur þeirra allra. Fréttaritarinn rölti yfir til Þorbjörns Atla og Freys Karlssonar og þeim bar saman um að Már væri að leika betur það sem af er móti en nokkur bakvörður í hans stöðu! Og hafiði það, helvítin ykkar!
Á 56. mínútu var Gummi Magg tekinn niður í teignum og uppskar víti. Snertingin kannski ekki mikil en þó hrein líkamsárás miðað við brotið sem Valsmenn höfðu fengið vítið út á, illu heilli varði Valsmarkvörðurinn spyrnuna með glæsibrag.
Framarar héldu áfram að hafa yfirhöndina úti á vellinum og Valsmenn virtust bitlitlir og inní sig. Þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka fór Tiago af velli, en ekki hafði verið búist við að hann næði mikið lengri leik. Þórir kom inn á í staðinn.
Fáeinum mínútum síðar átti Fred góða sendingu fyrir Valsmarkið þar sem Þórir kom aðvífandi og skallaði beint að marki en Valsmarkvörðurinn varði glæsilega. Beint í kjölfarið barst boltinn upp völlinn og Valur skoraði 1:2, þvert gegn gangi leiksins. Markið sló Framara út af laginu og mínútu síðar lá boltinn á ný í marki Úlfarsárdalsliðsins.
Fred komst í dauðafæri skömmu fyrir leikslok en skaut framhjá. Valsmenn fögnuðu sigri í sínum fyrsta leik í Dal draumanna en við Framarar getum þó borið höfuðið hátt þar sem okkar menn áttu líklega sinn besta leik í sumar þrátt fyrir úrslitin. Næst: Kópavogur!
Stefán Pálsson