fbpx
Aron gegn val

Nema hvað?

„Heyrðu, gríptu þetta með þér, það verða pottþétt mörg mörk næst“ – sagði skjaldsveinninn Valur Norðri eftir síðasta leik Framara í Dal draumanna, þegar gengið var að bílastæðunum við Dalskóla. Hann lumaði á smáflösku af Laphroaig, móreyktum djöfli frá Islay og tilvöldum til að fagna skoruðum mörkum. Sjálfur ætlaði hann að vera í Langibortistan með markafleyginn góða þegar Fram tæki á móti Stjörnunni. Líklega er maðurinn alþjóðlegur njósnari. Ekkert annað getur skýrt þessar endalausu fjarvistir.

Fréttaritari Framsíðunnar lagði snemma af stað upp í Úlfarsárdal með leið 18 – hraðferð úr Hlíðunum og með litlu einmöltungsflöskuna í vasanum. Hann var snyrtur og strokinn enda búinn að heimsækja rakara fyrr um daginn. Eftir að fréttaritarinn varð kjörinn fulltrúi einsetti hann sér að fara í klippingu einu sinni á ári, hvort sem hann þyrfti á því að halda eða ekki.

Leið átján skilaði okkar manni út við Framheimilið klukkutíma fyrir leik en húsið moraði engu að síður af lífi. Leiðin lá í fínumannaboðið þar sem samlokur voru étnar og dósabjór og rauðvín flutu. Nonni þjálfari gleymdi að mæta til að kynna liðið en stjórnarformaðurinn gat lesið úrslit.net eins og aðrir. Fátt kom á óvart. Óli í markinu. Orri í miðverðinum ásamt Brynjari Gauta sem sneri aftur eftir höfuðhöggið, góðu heilli. Delph var á bekknum og orðið á götunni er að hann sé við það að verða leikfær líka. Það er samt ekkert stress, enda átti Orri prýðilegan leik í dag og höndlar stöðuna prýðilega.

Adam og Már voru bakverðir. Aron aftastur á miðjunni ásamt Tryggva sem sneri aftur í byrjunarliðið. Tiago var í einhverju óskilgreindu miðju-/kantmannshlutverki ásamt Magga og Fred. Gummi Magg frammi.

Um það leyti sem flautað var til leiks trítlaði fréttaritarinn niður og var hálfumkomulaus. Valur Norðri var í útlandinu í dagpeningaharki og Rabbi trymbill fékk bronkítís og það sem verra er á síðasta leik og er búinn að liggja í bælinu síðan, sötrandi Panodil Hot, sem er ömurlegt. Sem biðleik ákvað fréttaritarinn að standa bara aftast í stúkunni miðri og taka niður punkta fríhendis. Það reyndist stórkostleg ákvörðun því fyrir vikið stóð ykkar einlægur við hliðina á Guðmundi Torfasyni og Pétri Ormslev allan hálfleikinn og þar var nú aldeilis ekki töluð vitleysan. Sonur níunda áratugarins varð hins vegar starströkk og tók nánast ekki niður neina punkta meðan á leiknum stóð.

Það blés í veðraparadísinni, aldrei þessu vant, og Framarar byrjuðu í mótvindi. Það fyrsta sem rataði í minnisbókina var skalli frá Aroni eftir hornspyrnu á 7. mínútu. Það var upptakturinn af því sem verða skyldi því Aron átti í kvöld sinn langbesta leik í Frambúningnum, stöðvaði Stjörnusóknir ítrekað og var mjög ógnandi fram á við.

Garðbæingar virtist litlir í sér þegar þeir mættu og Framarar voru miklu sterkari í byrjun leiks. Fred, sem var sívinnandi á miðjunni, átti ágætt skot á tíundu mínútu beint á markvörðinn. Aftur kom Fred til skjalanna rúmum fimm mínútum síðar þegar hann náði góðu skoti eftir fínan undirbúning frá Má og Tryggva. Már var stórgóður í leiknum og Tryggvi átti fínan leik í fyrri hálfleik. Það verður mikið tilhlökkunarefni að ná honum í 90 mínútna form.

Framarar áttu allnokkrar sóknarlotur en gestirnir ógnuðu þó með skyndisóknum og föstum leikatriðum. Þannig þurfti Óli að taka á honum stóra sínum eftir rétt um tuttugu mínútna leik. Skömmu síðar fengu Garðbæingar aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig sem skapaði stórhættu þegar boltinn barst á óvaldaðan Stjörnumann.

Eftir tæplega hálftíma leik fengu Framarar horn sem Fred skilaði hárnákvæmt á tærnar á Brynjari Gauta sem var nærri búinn að skora en einn fyrrum samherja hans varði í horn. Í endurteknu hornspyrnunni náði Fred frábærri sendingu á Orra sem kom aðvífandi og skoraði 1:0.

Stjörnumenn voru nærri því að jafna eftir hálftímaleik þegar Framarar hreinsuðu á línu eftir hornspyrnu. Skömmu síðar fékk Maggi gott færi en sópaði boltanum yfir af skömmu færi.

Í hléinu fór fréttaritarinn inn í almúgastúkuna þar sem bjórdælan gekk linnulítið. Mamma Þóris króaði fréttaritarann af og spurði hvers vegna hann væri titlaður sem „rauðhært tröll“ í ljósi þess að hann væri vissulega rauðhaus en þó ekki nema 1,85 m á hæð. Fréttaritarinn skal fúslega viðurkenna að hann reiknaði með því að okkar allra besta hákarlabeita væri c.a. tíu sentimetrum hærri. Svo lengi lærir sem lifir!

Hafi Stjörnumenn verið hálfvankaðir í fyrri hálfleik voru þeir steinrotaðir eftir hlé. Framarar leiddu spilið og Stjarnan elti. Eftir um fimm mínútna leik fékk Fram hornspyrnu og fljótlega upp úr því barst boltinn til Arons sem lét vaða langt fyrir utan teig og í bláhornið, óverjandi fyrir Stjörnumarkvörðinn – 2:0 og staðan orðin verulega fýsileg.

Með tveggja marka forystu reyndu Framarar skiljanlega að drepa niður leikinn. Um miðjan hálfleikinn kom fyrsta skiptingin, þar sem Albert leysti Tryggva af hólmi. Þegar kortér var eftir fór Gummi sömu leið og Þórir kom inná í staðinn. Sem fyrr tókst gestunum lítt að ógna.

Framarar voru nær því að bæta við þriðja markinu en gestirnir að minnka muninn. Þannig átti Magnús fínt marktækifæri eftir ágætis undirbúning frá Magnúsi. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka komst Maggi í dauðafæri eftir gauf hjá Stjörnuvörninni sem skapaði stórhættu!

Eftir áttatíu mínútur af sofandahætti vöknuðu Garðbæingar til lífsins síðustu tíu mínúturnar. Þeir komust í dauðafæri þar sem Óli varði frábærlega. Á 83. mínútu minnkuðu þeir svo muninn eftir ágæta sókn og skyndilega var komin mikil pressa á Framliðið. Þjálfarateymið skipti Magga og Tiago útaf fyrir Hlyn og Óskar, í varnarsinnaðri skiptingu. Engu að síður máttu Garðbæingar teljast mjög óheppnir að fá ekki víti í uppbótartíma fyrir það sem virtist augljós hendi á einn Framarann.

En góður 2:1 heimasigur varð raunin. Fram er komið á siglingu og hver veit nema okkur takist að halda hreinu í ár. Næsta stopp Árbærinn í slagnum um Rauðavatn.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!