Það er mikið á sig lagt til að koma KR-ingum í botnsæti Bestu deildarinnar. Sumir myndu jafnvel segja óþarflega mikið… Furðulegur leikur í Árbænum er að baki og endaði með tapi gegn heimamönnum. Ég kenni Orkuveitunni um!
Fréttaritarinn mætti til leiks fullur bjartsýni. Skjaldsveinninn Valur Norðri var mættur á risajeppanum og á vísum stað í Fylkisstúkunni biðu Rabbi trymbill og sonur. Það af félagi Rafn sé enn meðal vor eftir lungnapestir síðustu daga og má einungis skrifa á tilvist fúkkalyfja. Hann er hins vegar komin í risastóru Framúlpuna sína og verður aldrei aftur kalt eða misdægurt.
Það var þokkalega mætt á völlinn þótt opinbera áhorfendatalan 1.400 hljómi hálfgrunsamlega. Framarar mættu ágætlega og létu vel í sér heyra, en hafa þó oft verið fleiri á útileikjum. Veðrið var hálfhryssingslegt. Hitinn ekki mikill og rakinn talsverður. Nú hefði verið gott að vera í úlpunni hans Rabba.
Ein breyting hafði verið gerð á Framliðinu frá sigrinum á Stjörnunni í síðasta leik. Albert kom inn fyrir Magga á öðrum kantinum. Óli stó annars í marki með Brynjar og Orra fyrir framan sig, Má og Adam í bakvörðum, Albert og Tiago áttu að heita á köntunum en Aron, Tryggvi og Fred á miðjunni og Gummi frammi.
Kunningi fréttaritarans úr Fylkisstuðningssveitinni hafði hlustað á ræðu þjálfarateymis sinna manna fyrir leik og sagði að dagskipunin hefði verið skýr: að liggja djúpt til baka, leyfa Frömurum að sækja en beita svo skyndisóknum til baka. Það reyndust orð að sönnu. Fylkismenn drógu sig ótrúlega djúpt á völlinn frá fyrstu mínútu og virtust búa sig undir stórhríð.
Og hún kom svo sannarlega. Eftir tvær mínútur var Albert nærri búinn að lyfta boltanum inn á Gumma í dauðafæri og á sömu mínútu átti Aron skalla framhjá úr ágætu færi. Þessir þrír komu allir við sögu í fyrsta marki leiksins á sjöundu mínútu þar sem Gummi lék inn í teig Fylkismanna, sendi til hliðar þar sem boltinn hrökk hálfpartinn af Aroni til Alberts sem þandi þaknetið, 0:1.
Þeir appelsínugulu voru sem slegnir út af laginu. Fram átti hverja sóknina á fætur annarri og heimamenn komust ekki yfir miðju. Á sextándu mínútu virtust okkar menn ætla að tvöfalda forystuna þegar Albert lagði boltann á Aron sem átti fast skot með jörðinni sem stefndi í bláhornið en markvörður Fylkis varði frábærlega. Óðinn má vita hversu stór Framsigurinn hefði orðið ef þetta skot hefði endað í netinu og það sama gildir um tvö hálffæri Gumma skömmu síðar.
Eftir hálftíma gerðist tvennt. Albert fór meiddur af velli og Magnús kom inná. Og það sem jafnvel enn verra var – það var kveikt á flóðljósunum!
Mögulega var það tryllingslegt endurskin neonappelsínugulu treyjanna í kvöldbirtunni, en um leið og flóðljósin tóku að lýsa fór allt í steik. Framvélin sem virst hafði ætlað að malla í gegnum leikinn slökkti á sér og algjörlega upp úr engu komust heimamenn inn í leikinn. Framarar misstu boltann á miðjum vellinum og Orra mistókst að koma honum frá áður en framherji Fylkis náði að vippa snyrtilega yfir Óla í markinu. Fullkomlega óþarft jöfnunarmark og í raun hálfgerð gjöf.
Mörk breyta leikjum og eftir jöfnunarmarkið fóru heimamenn að sækja meira og skapa sér hálffæri. Þeir léku líka fast og komust upp með það. Framarar urðu fengir þegar flautað var til hálfleiks – nú gæfist færi til að koma leiknum aftur á réttan kjöl.
Delphin kom inná fyrir Orra eftir leikhléið og Fram virtist ætla að byrja seinni hálfleikinn eins og þann fyrri. Fred kom sér í gott færi og virtist hafa allan tímann í veröldinni en þrumaði í hliðarnetið. Var landið farið að rísa?
Onei, það var sokkið! Eftir fimm mínútur af seinni hálfleiknum sofnaði Framvörnin aftur á verðinum, löng sending inn fyrir vörnina skilaði sér í öðru marki heimamanna sem trúðu ekki sínum eigin augum. Eftir klukkutíma leik kom svo þriðja mark Fylkismanna úr viðlíka mörgum færum og virtist það ótrúlega auðvelt. Brynjar Gauti taldi brotið á sér en fréttaritarinn sá það atvik ekki. Staðan orðin 3:1 og allt í steik.
Fred fékk færi til að minnka muninn þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir en aftur varði óþarflega góður markvörður Fylkis vel. Mínútu síðar var Gummi tekinn niður í vítateignum. Hann fór sjálfur á punktinn en spyrnan var varin. Gullið tækifæri til að komast aftur inn í leikinn var farið í súginn.
Þórir leysti Gumma af hólmi skömmu síðar en það breytti ekki miklu fyrir leik okkar manna. Fylkismenn töfðu grimmt og nutu góðs af stórfurðulegum rangstöðudómum annars aðstoaðrdómarans, en það breytti þó litlu fyrir úrslit leiksins. Okkar menn voru bara í engu stuði eftir að kveikt var á ljósunum. Við verðum að gera miklu betur á móti KR í næsta leik.
Stefán Pálsson