fbpx
Oli Ísholm

Sæmilegar sjömínútur

„Sæll Stefán. Er búið að tékka á þér varðandi pub-quiz fyrir KR-leikinn? Það væri ótrúlega gaman að setja upp slíkt upp í dal“ – sagði messenger-pósturinn á þriðjudaginn sem fréttaritarinn álpaðist til að svara játandi af því að hann var í furðu góðu skapi miðað við að vera almennt kalinn á hjarta. Augljóslega var þessi léttúð bara lognið á undan storminum og að morgni mánudagsins bölvaði fréttarinn því heitt og innilega að hafa látið plata sig út í svona glens.

Leið átján brunaði úr Hlíðahverfinu rétt um hálffimmleytið og skilaði ykkar einlægum upp í Úlfarsárdal rétt um klukkan fimm, hálftíma fyrir auglýst pöbbkviss. Enginn mætti á réttum tíma og það var ekki fyrr en mörgum Tuborg Classicbjórum seinna sem hægt var að byrja Geiramannakvissið í Bar-áttunni. Hagvanir Framarar og rútulið frá KR sem gekk um húsakynnin í lotningu yfir því hvað Úlfarsárdalurinn er flottur og fínn öttu kappi. Eftir oddaspurningu sem gekk út á tiltekið innkast í tilteknum fótboltaleik árið 1995 og afleiðingar þess voru sigurvegarar að lokum fundnir!

Skjaldsveinninn Valur Norðri kom seint en mætti þó. Hann hafði dregið með sér nágranna úr fínumannhverfinu í Fossvoginum, KR-ing en þó af kurteisara taginu. Við settumst saman í stúkunni. Rabbi hvergi nærri enda að sinna ungviðinu á einhverju fótboltamóti suður með sjó og furðu fáar mæður lykilmanna sjáanlegar.

Eftir hundfúlt tapið á móti Fylki í síðustu umferð ákvað Jón Sveinsson að gera breytingar – að hluta til tilneyddur og að hluta til valkvætt. Albert er enn meiddur eftir leikinn í Árbænum og gat því ekki verið með í kvöld. Það að auki ákváðum við að breyta yfir í strangheiðarlegt 4-4-2 leikkerfi. Óli í markinu. Brynjar og Delphin miðverðir. Adam og Már bakverðir. Tryggvi og Aron á miðjunni. Fred og Tiago á köntunum. Þórir og Gummi frammi.

Skemmst er frá því að segja að þessi uppstilling virkaði ekkert sérlega traustvekjandi. Okkur gekk illa að ná taki á miðjunni og KR-ingar virtust fara í gegn að vild. Ekki að þeir virtust sérlega líklegir til að ógna, en á tíundu mínútu kom glæsilegt KR-mark með langskoti upp úr engu og staðan orðin 0:1.

Þetta bakslag sló Framara örlítið út af laginu en þeir fóru þó fljótlega að reyna að skapa sín eigin færi. Eftir um stundarfjórðungs leik kom fyrsta góða færið þegar Adam náði góðri sendingu inn í teiginnn sem Þórir framlengdi á Gumma sem var aðeins of seinn að kveikja og dauðafæri fór forgörðum. Skömmu síðar náði Már með herkjum bolta uppi við endamörk og sendi fyrir á Þóri sem virtist í úrvalsfæri en var of seinn að átta sig.

Bæði lið héldu áfram að sækja en hvorugt náði sér þó sérstaklega á strik í leik sínum. Besta færið um miðjan fyrri hálfleik kom eftir sendingu frá Tiago á Delphin sem átti góðan skalla að marki sem varinn var á línu. En þrátt fyrir þokkaleg færi Framara fór ekki á milli mála að Vesturbæingarnir voru mun betri aðilinn. Eftir um hálftíma leik misstu Framarar boltann á miðjum vallarhelmingi sínum, KR skeiðaði upp en Óli varði vel – og ekki í fyrsta sinn. Það er leiðinlegt að þurfa að viðurkenna það í tapleiki en Óli Íshólm var besti leikmaður Fram í kvöld og bjargaði okkur frá ljótum skelli.

Eftir hálftíma leik var Brynjar að reyna að halda boltanum uppi við endamörk, en féll til jarðar – væntanlega eftir hrindingum en ekki næga til að dómarinn kysi að dæma neitt og í kjölfarið tvöfölduðu KR-ingar forystuna vandræðalítið og brekka heimamanna orðin býsna brött!

Fimm mínútum eftir annað mark gestanna átti Óli tvær frábærar vörslur í röð til að halda Fram áfram inni í leiknum. Flautað var til leikhlés og fréttaritarinn, skjaldsveinninn og KR-nágranninn voru fljótir að forða sér upp í fínumannaboðið. Þar var nóg af kökubitum en lítið um glaðværð.

Adam hafði orðið fyrir hnjaski í lok fyrri hálfleiksins og Óskar leysti hann af hólmi, eins og fréttarinn uppgötvaði eftir að hafa gert ljúffengum hamborgara skil úr sjoppunni. Seinni hálfleikur byrjaði ákaflega dauflega. Framliðið var aldrei nálægt því að ná því stutta og snarpa spili sem einkennt hefur það síðustu misserin. Fred var næst því að vera með meðvitund í fyrri hálfleik en eftir hlé dró úr því líka. Allir okkar menn hafa átt betri leiki en í kvöld.

Eftir klukkutíma leik kom tvöföld skipting. Maggi og Hlynur leystu Gumma og Aron af hólmi. Báðir áttu frísklega endurkomu en það þurfti svo sem ekki mikið til að heilla eftir því sem á undan var gengið.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir komst Tiago óvænt í dauðafæri til að koma Frömurum aftur inn í leikinn, þar sem hann komst einn í gegn en skot hans rataði beint á KR-markvörðinn. KR-ingar féllu sífellt aftar á völlinn en Frömurum virtir ekki ætla að takast að nýta það. Þórir komst í gott færi þegar sjö mínútur lifðu eftir að venjulegum leiktíma en náði ekki skoti. Tónninn var þó sleginn. Á 85. mínútu vörðu KR-ingar í tvígang á marklínu frá Hlyni og Þóri. Mínútu síðar minnkaði Fram hins vegar muni með forljótu sjálfsmarki þar sem sendingartilraun frá Brynjari Gauta endaði í netinu, 1:2 og allt í einu var örlítil von farin að kvikna!

KR, sem hafði haft öll völd í leiknum fram að þessu fór glæsilega á taugum og við tók sóknarhríð Framliðsins. Hlynur átti góða sendingu á Fred sem skaut framhjá rétt við lok venjulegs leiktíma – en hinu megin á vellinum átti Óli frábæra vörslu til að hindra Vesturbæinga í að klára leikinn. Í uppbótartíma átti Már góða sendingu á Óskar sem skaut bylmingsskoti í innanverða stöngina á KR-markinu og beint í kjölfarið átti Þórir skalla yfir úr upplögðu færi.

Í ljósi þess hvernig leikurinn spilaðist er drullusvekkjandi að Fram hafi ekki náð að stela jafntefli í lokin en ef horft er á viðureignina í heild verður að viðurkennast að úrslitin voru sanngjörn KR var betra í kvöld og við verðum að gera miklu betur á Akureyri eftir viku.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!