Lena er komin heim
Þau stórtíðindi urðu í dag í íslenskum handbolta að Lena Margrét Valdimarsdóttir skrifaði undir 2 ára samning við uppeldisfélagið sitt, Fram. Lena er, eins og þekkt er, einn allra besti leikmaður á Íslandi í dag, á sæti í A landsliði Íslands og hefur farið á kostum í Olísdeildinni í vetur. Lena er feikilega öflug bæði í vörn og sókn, hefur mikla handbolta greind og kemur til með að styrkja liðið í þeim átökum sem framundan eru. Það eru virkilega ánægjulega fréttir að fá Lenu aftur heim og við hlökkum til að sjá hana spila í nýju höllinni okkar á komandi vetri.
„Fram er uppeldisfélag mitt, hér þekki ég marga og það er gott að vera komin aftur. Liðið er mjög vel mannað og ljóst að við munum vera í mikilli baráttu í vetur. Einar þjálfari er með skýra sýn á hvernig við ætlum að spila og hvað við ætlum að gera. Það verður gaman að taka þátt í því.“ segir Lena Margrét
„Lena er frábær. Það er ekki spurning. Ég hef fylgst með henni frá því í yngri flokkunum í Safamýri og það er rosalega gott að hún sé komin aftur í Fram. Lena mun styrkja okkur verulega og ljóst að við erum núna komin með lið sem mun keppa um titla í vetur.“ segir Einar Jónsson