fbpx
Ferd gegn FH

Hey, Macarena – ay!

Hefur komið nægilega skýrt fram á þessum vettvangi að Knattspyrnufélagið Fram hefur yfir að búa tveimur snjöllustu fótboltamönnunum í Bestu deildinni sumarið 2023? Ekki? Nú, það eru augljóslega portúgalska herskipið Tiago og okkar allra besti Fred frá Brasilíu. Stundum kjósa þeir að sýna ekki sína algjöru yfirburði á fótboltasviðinu af því að það væri ósanngjarnt og leiddi í ljós að þeir eru svindlkarlar í þessari deild labbakúta og liðléttinga. Stundum nenna þeir að sýna klærnar. Í kvöld var slíkt kvöld.,

Fréttaritari Framsíðunnar fór glaðbeittur með leið 18 úr Hlíðunum og upp í Dal draumanna á sjötta tímanum. Úti var bongó. Klapp-appið virkaði ekki rasskat en það skipti engu máli. Í Úlfarsárdal var spenningur. Vatnsrennibrautin er að rísa við Dalslaug. Þetta hverfi er Shangri-la á hjólaskautum. Börnin sem alast upp í póstnúmeri 113 eru lukkunnar pamfílar.

Fínumannaherbergið var fáskipað. Eins og föstudagskvöld eru æðisleg boltakvöld þá vantaði furðumarga fastagesti í upphituninni. Nonna þjálfara virtist nokkuð brugðið og hann var pínkulítið lítill í sér í liðskynningunni – eins og eðlilegt er hjá liði sem tapað hefur þremur leikjum í röð. Hann kynnti liðið sem endurspeglaði meiðsli lykilmann. Óli Íshólm í markinu. Brynjar og Delph í miðvörðum. Adam og Már hvor í sínum bakverðinum. Hlynur og Tryggvi aftast á miðjunni með Aron fyrir framan sig. Fred og Tiago hvor á sínum kanti og Þórir uppi á toppi í fjarveru Gumma Magg sem er tæpur og fékk hvíld að þessu sinni.

Fréttaritarinn varði klukkutímanum fyrir leik í að fá klapp á bakið frá gestum og gangandi yfir því hvernig skylmingarþrælunum hans í enska boltanum gangi þessi dægrin. Hann var því kotroskinn og með nokkra bjóra í belgnum þegar hann rölti niður til fundar við Rabba trymbil sem sat mitt á milli mömmu Þóris og Hallgríms, bróður Skúla úr Skonrokkinu.  Liðleskjan og labbakúturinn Valur Norðri var staddur í einhverju vinnustaðapartýi og því hvergi nálægur með markafleyginn – sem eftir á að hyggja var kannski eins gott.

Leikurinn byrjaði rólega. Keflavík varðist djúpt en Framarar fóru sér rólega. Það fyrsta sem rataði í skrifblokkina var varsla frá Delph eftir níu mínútur. Okkar allra besti Dani í vörninni átti prýðisleik í dag. Framarar voru engu að síður sterkari í leikbyrjun en sköpuðu sér nánast ekki neitt og fengu varla færi sem náði máli fyrsta hálftímann.

Megnið af spilinu átti sér þó stað á vallarhelmingi Keflavíkur og oftar en ekki var Fred í aðalhlutverki, enda algjör yfirburðarmaður á vellinum fyrir hlé. Þórir var duglegur að sækja til baka og vinna boltann. Fram leit vel út en virtist ekki sérlega háskalegt.

Á 39. mínútu átti Már, sem var þrælfínn í bakverðinum að vanda, góða rispu upp kantinn, sendi á Þóri sem lyfti boltanum í átt að marki, en boltinn endaði oná marknetinu eftir viðkomu á Keflvíkingi. Nokkrum mínútum síðar átti Már bylmingsskot sem varið var í horn.

Dómarinn bætti tveimur mínútum við fyrri hálfleikinn og flestir voru farnir að búa sig undir markalaust leikhlé þegar Fred vann boltann eftir vandræðagang í Keflavíkurvörninni á miðjum vellinum, hann lék áfram en uppgötvaði fljótlega að enginn mótherji bjó sig undir að verjast. Hvað gerirðu þá ef þú ert brasilískur undradvergur? Jú, þú leikur aðeins áfram og neglir svo hárnákvæmt upp í skeytin! Stórkostlegt mark og Fram komið yfir, 1:0!

Það ríkti almenn kátína í Baráttunni, stuðningsmannabarnum á jarðhæðinni í hléi. Flestir viðurkenndu að líklega hefði markalaust jafntefli verið sanngjörn staða, en Fred hefði verið yfirburðamaður á vellinum og verðskuldað markið. Spennustigið var samt hátt, enda hefur Frömurum hentað margt betur en að verja forystu og halda hreinu.

Framarar mættu miklu ákveðnari til leiks eftir hlé og Keflavík virtist hreinlega ekki vera með í leiknum. Fred átti glæsilega sendingu á Tiago á 54. mínútu, sem markvörður Suðurnesjamanna varði af harðfylgi. Nokkrum mínútum síðar sprengdu Fred og Tiago aftur upp Kelfavíkurvörnina þar sem sá fyrrnefndi komst upp að endamörkum og skaut fyrir þar sem Aron kom aðvífandi og potaði boltanum í netið, 2:0 og leiknum virtist siglt í höfn!

Keflavík fór í þrefalda skiptingu beint eftir markið og sú breyting virtist aðeins slá Framara út af laginu. Tiago átti þó skot rétt framhjá úr dauðafæri á 61. mínútu. Um þetta leiti ríkti almenn gleði í Framstúkunni þar sem Fréttaritarinn, Rabbi, Hallgrímur og mamma Þóris voru sammála um að leikur Framara einkenndist af krafti og baráttu líkt og hugsast gæti.

Fáránlegt brot á Tryggva á 66. mínútu, þar sem Keflvíkingur á gulu spjaldi kom við sögu, var látið óátalið þar sem Þórir komst í dauðafæri sem gaf þó ekki mark. Mínútu síðar var hins vegar dæmd vítaspyrna á Framliðið. Keflavík minnkaði forystuna í 2:1 og skyndilega var allt galopið!

Maggi og Gummi komu inná fyrir Þóri og Tryggva í kjölfar marksins og við tók taugaveiklun þar sem Keflavík sótti af krafti. Á 80. mínútu var Tiago rændur augljósri vítaspyrnu þar sem honum var kippt niður áður en hann sópaði boltanum yfir markið. Rétt í kjölfarið á Gummi góðan skalla en beint á markvörð Keflavíkur.

Á 83. mínútu drápu Framarar loks leikinn. Maggi tók hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á Pelpin sem stökk hæst allra og kom Fram í 3:1.  Keflvíkingum var öllum lokið og síðustu mínúturnar var þetta bara spurning um hver munurinn yrði. Í uppbótartímanum fengu Framarar aukaspyrnu sem Keflvíkingar ákváðu að gefa Tiago allan tímann í heiminum til að taka. Það var ekki kókt því hann vippaði inn á Fred sem aftur vippaði yfir Keflavíkurmarkvörðinn, staðan 4:1 og Framarar dönsuðu og trölluðu til morguns. Ofboðslega mikilvægur sigurleikur að baki og nú er bara að byggja ofan á þessu næstu vikurnar.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!