Landsliðsmaðurinn okkar Jón Erik Sigurðsson endaði í 3. sæti í svigi á alþjóðlegu móti í Passo Monte Croce á Ítalíu um liðna helgi en mótið var jafnframt fyrsta mót tímabilsins hjá Jóni Erik.
Mótið er svokallað National junior race fyrir keppendur 20 ára og yngri. Það voru tæplega 160 keppendur sem hófu keppni á mótinu en 72 sem kláruðu.
Fyrir þennan árangur fékk Jón Erik 48.24 FIS punkta sem er besti árangur hans á ferlinum.
Jón Erik sem keppir fyrir skíðadeild Fram undirbýr sig nú af kappi fyrir komandi tímabil og er sem stendur í mánaðarlöngum æfingabúðum á vegum alþjóða skíðasambandsins.
Sannarlega vel gert hjá Jóni Erik og verður spennandi að fylgjast með honum í vetur.