Hjartað í 113
Langþráður draumur íbúa Grafarholts og Úlfarsárdals rættist á nýliðnu ári en það var fyrsta heila ár Knattspyrnufélagsins Fram í dal draumanna. Það er mikil gæfa að Fram, þetta rótgróna félag með langa og merkilega sögu, sé nú orðið hjartað í póstnúmerinu 113. Árið var viðburðaríkt fyrir félagið og hér verður aðeins stiklað á stóru yfir það helsta.
Félagið varð 115 ára á árinu og eins og vera ber var haldið veglega upp á afmælið. Töluverðar breytingar urðu aðalstjórn félagsins á aðalfundi í vor, þar sem sú sem þetta skrifar var kjörin formaður aðalstjórnar, fyrst kvenna. Vel tókst til með aðra viðburði eins og þorrablót, herrakvöld, skötuveislu og kynningu á íþróttamanni Fram, svo eitthvað sé nefnt. Sjálfboðaliðar og starfsfólk Fram eiga miklar þakkir skildar fyrir alla sína vinnu og án þeirra væri þetta ekki hægt. Þorrablótið síðustu helgi var algerlega frábært seldist upp á það á innan við fimm tímum. Kvennakvöld er svo á dagskrá í apríl og við munum við án efa toppa okkur þar líka.
Í september var haldinn stefnumótunardagur að frumkvæði aðalstjórnar, þar sem komu saman einstaklingar úr öllum deildum, stjórnir, stjórnendur og aðrir hagaðilar innan félagsins. Þar var farið yfir þau mál sem brenna á félaginu, hvert skyldi stefna á komandi árum í nýju hverfi með nýjar áskoranir. Horft var til framtíðar, mótuð var stefna og forgangsverkefni kortlögð sem þegar hefur verið hafist handa við að koma til framkvæmda. Nýtt skipurit var kynnt, hlutverk og ábyrgð skýrð og nýr framkvæmdastjóri ráðinn til starfa svo eitthvað sé nefnt. Enn er af nógu að taka og við förum inn í 2024 full af eldmóði og vilja til að gera betur. Sjálfbær starfsemi íþróttafélaga byggir á traustum fjárhagslegum grunni og öguðum rekstri og einn af meginþáttum samfélagslegrar ábyrgðar er ábyrg stjórnun.
En að íþróttunum.
Öflugt íþróttastarf
Starf yngri flokka Fram er í miklum blóma, þeir stóðu sig vel á árinu 2023, margir bikarar komu í hús en umfram allt hefur iðkendum fjölgað í nær öllum greinum. Fjölgun iðkenda í kvennaknattspyrnunni er einstaklega ánægjuleg og Fram var með flest lið Reykjavíkurfélaga á Símamótinu síðastliðið sumar.
Árið 2023 voru iðkendur hjá Fram alls rúmlega 2500, 57% kk og 43% kvk, þau mættu á yfir 5000 æfingar og léku yfir 2250 leiki.
Spennandi tímar framundan í fótboltanum
Meistaraflokkur karla í knattspyrnu háði mikla baráttu í sumar um að halda sér í Bestu deildinni. Þjálfaraskipti urðu í júlí þegar Aðalsteinn Aðalsteinsson og Ragnar Sigurðsson tóku við liðinu en í október samdi Fram við Rúnar Kristinsson til ársins 2026. Rúnar þarf vart að kynna og það má finna gríðalegan meðbyr með félaginu með komu hans og reynsla hans og þekking mun nýtast víða innan Fram. Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu lék í Lengjudeildinni og stóð sig með prýði undir stjórn Óskars Smára Haraldssonar og Anítu Lísu Svansdóttur. Í október samdi félagið við Óskar Smára til ársins 2026. Aðeins eru rúm 3 ár frá því að meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu var stofnaður á ný eftir hlé og árangur á þessum stutta tíma er því eftirtektarverður. 1076 áhorfendur hafa mætt á völlinn að meðaltali á hvern leik í meistaraflokki og flestir hafa þeir verið 1372, eftir að farið var að spila í Úlfarsárdalnum.
Bæði meistaraflokksliðin í handbolta að tryggja sig í úrslitakeppnina
FRAM er með flesta handboltaiðkendur allra félaga á landinu. Meistaraflokkar Fram í handbolta eru báðir í efstu deild. Meistaraflokkur kvenna í handbolta átti frekar erfitt tímabil en liðið gekk í gegnum breytingar og endurnýjun. Kvennalið Fram í handbolta er þó sigursælasta liðið innan Fram og framtíðin þar er mjög björt. Lið meistaraflokks karla endaði í 4. sæti í deildinni ásamt því að komast í undanúrslit í bikarkeppni HSÍ. Þar má einnig sjá mjög góðan árangur af yngriflokkastarfinu þar sem margir mjög öflugir ungir leikmenn eru að stíga upp. Einar Jónsson tók við kvennaliðinu í apríl og stýrir nú báðum liðum með reynsluboltunum Haraldi Þorvarðarsyni og Rakel Dögg Bragadóttur. Nú í byrjun árs 2024 eru liðin í 3. og 4. sæti í deildunum og með beina stefnu á úrslitakeppnina.
Ýmislegt fleira en handbolti og fótbolti
Það er áfram gróska í starfi Blakdeildar Fram og deildin með lið á Íslandsmótinu í bæði karla- og kvenna flokkum. Taekwondodeild Fram hefur verið í vexti og iðkendur þar stóðu vel á árinu. Svartbeltingar innan deildarinnar hafa aldrei verið fleiri en núna. Skíðadeild Fram hefur verið í varnarbaráttu með fáa iðkendur en Jón Erik Sigurðsson átti mjög gott ár og keppti m.a á HM og á Ólympíuleikum æskunnar ásamt því að ná 3. sæti á alþjóðlegu móti á Ítalíu í desember síðastliðnum.
Almenningsíþróttadeild Fram blómstraði á árinu 2023, en deildin er elsta almenningsíþróttadeild á landinu. Hún setti á fót Fit í Fram sem eru íþróttatímar fyrir eldri borgara, bætti við hópum í leikfimi, heldur úti hlaupahópi Fram og íþróttaskóli Fram fyrir yngstu kynslóðina er á sínum stað. Almenningsíþróttadeildin sinnir mjög mikilvægu hlutverki innan Fram og styður vel við stefnu félagsins að vera eftirsóknarvert félag í lýðheilsu upp öll æviskeið og að eiga hverju sinni afreksfólk og flokka sem skipa sér í fremstu röð. Það má einnig nefna að deildin stóð fyrir Hólmsheiðarhlaupinu annað árið í röð og tókst það frábærlega, uppselt var í hlaupið og í því var mesta þátttaka kvenna í sambærilegum hlaupum ITRA-hlaupum í heiminum.
Árið 2023 var ár mikilla áfanga og framfara fyrir Knattspyrnufélagið Fram. Með hverju ári sem líður, styrkjum við stöðu okkar sem öflugt og fjölbreytt íþróttafélag, sem ekki aðeins leggur áherslu á afreksstarf, heldur einnig á lýðheilsu og samfélagslega ábyrgð. Við höldum áfram að byggja á þeim trausta grunni sem lagður hefur verið og stefnum að því að vera leiðandi í því að efla og styðja við heilbrigðan lífsstíl og íþróttaiðkun á öllum stigum.
Á árinu 2024 ætlum við að takast á við nýjar áskoranir og nýta þau tækifæri sem framundan eru. Við munum halda áfram að styrkja félagið okkar, bæði íþróttalega og fjárhagslega, og tryggja að Fram verði áfram sterkur og áhrifamikill aðili í íþróttalífi landsins. Við munum einnig halda áfram að byggja á þeim samfélagslega grunni sem við höfum lagt, með því að efla tengslin við samfélagið í kring og vera í forystu í mótun framtíðar íþróttafélaga.
Takk fyrir stuðninginn og trúna á Knattspyrnufélagið Fram. Við erum stolt af því sem við höfum náð fram og spennt fyrir því sem kemur. Áfram Fram!
Gleðilegt ár kæru Framarar !
Sigríður Elín Guðlaugsdóttir (Ella Sigga)
Formaður aðalstjórnar Fram