Fyrsta leikskýrsla keppnistímabilsins, gegn Vestra fyrir viku, var að miklu leyti helguð Miðflokkspeysunni, þykku og hlýju lopapeysunni með hestamynstrunum sem Fréttaritarinn dregur stundum fram. Um miðja grein var tekið fram að fyrrnefndur hefði rifið sig úr hlífðarklæðnaðinum um miðjan fyrri hálfleik og klárað viðureignina á bolnum. Gárungar og beturvitar eru sterklega varaðir við því að hrópa nú upp: „Þú hefðir betur haldið þig í peysunni!“ – í ljósi þess að Fréttaritarinn liggur nú í bælinu með ömurlegustu flensu í heimi. ÞAÐ VAR YNGRI ORMURINN, VALSARINN, SEM SMITAÐI MIG – VEIKINDIN TENGJAST TÍSKUÁKVÖRÐUNUM EKKERT!
Fyrir vikið er ekki annað í boði en skrifa leikskýrslu undan sænginni í Eskihlíð með annað augað á sjónvarpsstreymi í fartölvunni. Bókmenntafræðingar hafa (reyndar ekki margir – og nei, þeir fást ekki nafngreindir) haldið því fram að leikskýrslur fréttaritaritarans séu fyrsta róttæka nýja stílformið í íslenskum bókmenntum mögulega allt frá því að Ármann Reynisson kynnti vinnjetturnar til sögunnar. Mjög fljótlega við ritun þessa pistils kom hins vegar í ljós að það er gríðarlega heftandi að vera ekki á svæðinu. Þannig er ekki hægt að rekja skemmtilegar strætóferðir með leið 18 (Garðar í sendiráðinu er alltaf svo ánægður með það), það er gjörsamlega tilgangslaust að lýsa klæðarburði höfundar í smáatriðum og það er ekkert fínumannaboð með tilheyrandi neimdroppi sem hægt er að fjalla um.
Fréttaritarinn heyrði þannig enga liðskynningu og þurfti að frétta eins á internetinu eins og labbakútur að Jannik Poul, ókrýndur Danmerkurmeistari í 100 metra hlaupi, væri utan hóps vegna einhvers hnjasks. Magnús Ingi (eftirleiðis kallaður Mingi) kom inn í hans stað. Byrjunarliðið var því keimlíkt því sem var síðast, rækilega varnarsinnað 5:3:2. Óli í marki, Þorri, Kyle og Kennie í miðvörðum (hitt fótboltaliðið sem ég held mest með í heiminum mætti til leiks gegn Manchester City á laugardaginn með engan rólfæran miðvörð en við eigum þá í kippum! Spurning um venslasamning?) Hvert var ég kominn… já, Mási og Alex bakverðir. Miðjan var Fred Tiago og Tryggvi. Gummi Magg og Mingi frammi.
Eftir nokkrar mínútur af boltaspili þar sem Fréttaritarinn kepptist við að pára niður atvik og hálffæri, rann upp fyrir honum hvílíkt rugl það væri. Partur af konsepti þessara pistla er að fastnær fimmtugur maður með slappa sjón sitji samanvöðlaður í stúkusæti og reyni að pára á rissblöð í kjöltunni einhver atvik sem hann missir yfirleitt af, giskar á atburðarásina og með aðstoð sessunauta sinna fellir dóma um vítaspyrnur, rangstöður og bakhrindingar í hundrað metra fjarlægð. Sumir bókmenntafræðingar tala um þetta sem norræna töfraraunsæið. (Nei, þið fáið ekki nöfnin.)
Það er bara asnalegt að birta pistil sem er endursögn af atvikum sem maður hefur séð á tölvuskjá og getur spólað fram og til baka að vild. Það eru svik við framvinduna.
Stutta útgáfan er samt þessi: Við vorum mun líflegri, ógnuðum meira og sköpuðum fleiri færi. Einhverjir spekingar hnjóta um það að undir Breiðhyltingnum Rúnari séum við ekki með boltann megnið af tímanum. Og hvað með það? Þetta er álíka rökrétt viðhorf og að telja að sá sé mestur og bestur listamaður sem nær að mála lengst út í kantinn!
Og þá voru það Víkingarnir. Hvernig voru þeir? Þungir, harðir og alltaf tilbúnir að refsa. Ég veit að margir fótboltaáhugamenn kvarta undan því að Víkingar séu grófir. Fréttaritarinn getur ekki tekið undir það. Auðvitað eru þeir grófir… þeir heita Víkingar! Eiga þeir þá að spila eins og garðálfar? Þeir vara mann beinlínis við með nafninu svo það er ekkert hægt að kvarta. Þetta er t.d. talsvert öðruvísi en með fótboltaliðið sem heitir hreinlega FH en svo kemur hlé og þeir mæta samt alltaf í sh… hvað er málið með það?
Eina mark leiksins kom um miðjan seinni hálfleik, um sama leyti og við virtumst vera að ná völdum á leiknum. Augnabliks andvaraleysi á miðjunni og Víkingar ruddust upp og skoruðu með föstu og nákvæmu skoti. Auðvitað er glatað að þetta hafi ráðið úrslitum í ljósi einnar ef ekki tveggja stórra ákvarðanna í leiknum. Eitt sinn gekk sú flökkusaga að kunnur einhentur boltaíþróttakappi í Reykjavík hefði fengið dæmda á sig hendi með þeim rökum að hann hefði fengið boltann í höndina ef hún væri til staðar! (Höskuldarviðvörun: þetta mun vera uppspuni.) Gremjulegra var þó að sjá Alex fá gott og gilt mark á elleftu mínútu flautað af, að því er virðist út á ósýnilegu þriðju höndina sem ku standa neðan úr mjöðminni á honum.
Þegar tíu mínútur voru eftir virtist Gummi hreinlega felldur í vítateignum en ekkert dæmt. En við græðum ekkert á að velta okkur upp úr þessu og dómararnir þurfa vissulega að taka ákvarðanir á sekúndubroti.
Voru varamenn? Jú, Rúnar aðhyllist Ásgeirs Elíassonarskólann þegar kemur að skiptingum. Fyrst komu tveir inn á 82. mínútu (Adam og Freyr fyrir Tryggva og Alex). Rétt í lok venjulegs leiktíma fékk Aron Snær smátíma í staðinn fyrir Tiago. Spurning hvort hann hefði ekki mátt koma inn eitthvað fyrr og þá til að mynda í staðinn fyrir Minga sem var frábær í kvöld og hljóp úr sér lungun. Fleiri glansframmistöður? Mási var valinn maður leiksins á vellinum. Þorri var fantagóður og Fred er auðvitað áskrifandi í hrósdeildinni.
Næst bíða okkar KR-ingar. Það hefði verið gaman að fá að mæta í veðursældina í Vesturbænum og nota ferðina til lautarferða og sjósunds, en það verður víst spilað á Þróttarvellinum. Ef Fréttaritaranum tekst að vinna sigur á plágu dauðans þvert á allar líkur þá er aldrei að vita nema hann láti sjá sig.
Stefán Pálsson