fbpx
Þorri gegn KR

Móðurskipið



Um daginn birti hópur stuðningsmanna Knattspyrnufélags Reykjavíkur heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu. Þar voru rakin ýmis afrek karlaflokka KR í fótbolta og fullyrt á þeim grunni að KR væri stórveldi og raunar eina stórveldið á Íslandi. Ýmsir brugðust illa við þessari auglýsingu og töldu að hér væri á ferðinni óþarfa gorgeir og sperrilæti. Fréttaritari Framsíðunnar er ósammála því. KR er félag sem hefur að baki fjölda titla og mikla sigurgöngu. Það er fullkomlega réttmætt að kalla KR stórveldi og jafnvel það eina slíka íslenskri knattspyrnu.

Stórveldi eru raunar merkilegt fyrirbæri í mannkynssögunni. Þau eru árásargjörn fyrirbæri sem þrífast á að brjóta nágranna sína niður, uns þau hníga að lokum og falla. Stórveldi eru í raun krabbameinsfrumur sem kalla fyrst dauða yfir hýsil sín og drepast sjálfar í kjölfarið. Svo gripið sé til líkinga úr stjörnufræði eru stórveldi eins og svarthol eða hvítir dvergar sem eru dæmd til að enda sem merkingarlaus minnisvarði um fyrri frægð.

Við Framarar höfum á hinn bóginn kosið að skilgreina okkur sem móðurskip. Allt frá stofnun Knattspyrnufélagsins Fram hefur það verið þessi örugga og trausta miðja sem hefur verið uppspretta nýrra sókna og sköpunar í íslenska fótboltasamfélaginu. Það er augljóslega miklu flóknara og mikilvægara hlutskipti.

Í dag mættust stórveldið og móðurskipið á Þróttarvellinum í Laugardal, þar sem enn er nokkuð í að sinan við Kaplaskjólsveg verði leikfær völlur. Það er alltaf smáskrítið að setjast í stúkuna við gömlu Hallarflötina og líkaminn byrjar sjálfkrafa að skjálfa, enda tengir hugurinn þennan völl við skítkalda Reykjavíkurmótsleiki í skafrenningi í febrúar. Lofthitinn var þó prýðilegur og rokið, sem vissulega setti mark sitt á leikinn, truflaði ekki áhorfendur. Mannauðurinn umhverfis Fréttaritarann var með hreinum ólíkindum. Skjaldsveinninn Valur Norðri sat með Guðmund Torfason og Pétur Ormslev sé til vinstri handar og hægra megin við Fréttaritarann voru Addi í bankanum og Kjarri tannlæknir, með Ívar Guðjóns og hirðtölfræðing Fram, fuglasérfræðinginn Jón Einar, í röðinni fyrir framan.

Liðsuppstillingin var svipuð og síðast. Óli í markinu. Þorri, Kyle og Kennie í miðvörðum. Mási og Alex bakverðir. Fred og Tiago á miðjunni ásamt Frey Sigurðssyni, rauðbirkna Hornfirðingnum og nýja uppáhaldsmanni allra – sem kom inn í staðinn fyrir Tryggva. Mingi og Gummi Magg frammi.

Leikurinn byrjaði kröftuglega – og jafnvel of kröftuglega þar sem Þorri þurfti að yfirgefa völlinn eftir aðeins þrjár mínútur með fossandi blóðnasir eftir kröftugt samstuð. Einum fataumgangi síðar og með hálfa baðmullarlest í nösunum kom hann inná aftur, greinilega glæsilega nefbrotinn. Bjössi pabbi hans var alveg til í að samþykkja eftir leik að nokkur góð nefbrot myndu bara auka trúverðugleika hans sem miðvarðar í framtíðinni – er ekki viss um að móðirin hafi deilt þeirri sýn. Þorri er á ótrúlega skömmum tíma orðinn ómissandi hlekkur í vörninni hjá okkur og maður sem við viljum ekki fyrir nokkurn mun missa.

Framarar byrjuðu af mun meiri krafti og gerðu sig líklega til að ógna staðri og silalegri KR-vörninni á hverja lund. Strax á áttundu mínútu áttu Mási og Gummi flott, stutt samspil inn á Magnús Inga sem tók á rás í gegnum vörn stórveldisins, stakk alla af, lék upp að endamörkum og sendi svo fyrir á Frey Sigurðsson sem kom aðvífandi og potaði boltanum í tómt netið. Frábært fyrsta mark nýliðans. Að launum verður hann eftirleiðis aðeins nefndur með fornafni í þessum pistlum. Við vitum öll að þannig skiljum við hafrana frá sauðunum. Þremur mínútum eftir markið ráku Framarar í stúkunni aftur upp stríðsöskur, að þessu sinni eftir að bylmingsskot frá Fred virtist syngja í netinu en endaði í raun í hliðarnetinu.

Næstu tíu til fimmtán mínúturnar sáu KR-ingar ekki til sólar (strangt til tekið sá enginn til sólar í súldinni í Laugardalnum, en þið skiljið hvað ég meina). Fred og Tiago sýndu listir sínar í stuttum hornum sem voru mjög skapandi og frumleg en ekkert sérstaklega árangursrík. Um miðjan hálfleikinn koms Alex svo í hörkufæri þar sem stórveldisriddararnir gleymdu fullkomlega að valda hann og okkar maður hafði nánast tíma til að stilla ypp fyrir skot, en niðurstaðan varð horn. Fjótlega eftir þetta ákvað KR-markvörðurinn að fá sér sæti á vellinum og í kjölfarið blésu liðsfélagar hans til neyðarfundar.

Síðasta kortérið fyrir hlé smáminnkaði krafturinn í Framsókninni, KR-ingar fengu meiri völd á miðjunni en náðu þó ekki að skapa sér neitt. Raunar kom skásta færið í hlut Framara þegar markvörður KR fór í skógarferð, Mingi stal boltanum og sendi á Gumma sem freistaði þess að lyfta boltanum í tómt markið, en skaut yfir.

Það voru kátir Framarar sem klöngruðust niður úr stúkunni í hléi, til þess eins að uppgötva snarlega að það væru mistök enda ekkert nema stormbeljandi um leið og komið var þrjá metra frá stúkunni. Hamborgarar voru að sögn afgreiddir hinu megin við völlinn en óskynsamlegt var talið að ráðast í slíkt ferðalag í hvunndagsklæðnaði og án staðsetningartækis.

Framarar voru heldur með vindinn í fangið eftir hlé og ríkjandi vindáttir gerðu það að verkum að leikurinn fór meira og minna fram í horninu fjær. Framlið Rúnars Kristinssonar hefur svarta beltið í að drepa leiki og gekk vasklega til þess verkefnis frá fyrstu mínútu. Það var magnað að sjá hvað allir leikmenn tóku virkan þátt í varnarleiknum – enginn þó eins og Tiago sem hefur til þessa ekki haft sérstakt orðspor í þeirri deild. Hann var tæklandi bolta og hendandi sér fyrir skot á þann hátt sem maður hefur aldrei séð áður. Fred var líka frábær í varnarvinnslunni í dag, en það var kannski ekki alveg jafn óvænt.

Hin skapandi eyðilegging okkar Framara gerði það að verkum að frekar fátt rataði í stílabók Fréttaritarans frameftir leik. Þó tókst hinum seinheppna markverði KR að komast á blað með ævintýralegu skógarhlaupi sem endaði á að hann braut á einum okkar manna alveg við mörk hliðarlínu og miðjulínu. Harður dómari hefði hæglega getað flautað og dregið fram rauða spjaldið.

Fyrsta skiptingin kom þegar tuttugu mínútur voru eftir. Aron Snær kom inná fyrir Gumma Magg sem komst aldrei fyllilega í takt við leikinn í dag. Aron Snær var greinilega staðráðinn í að nýta sénsinn en var óþarflega oft flaggaður rangstæður, svona fljótur maður – komandi ferskur af bekknum – á ekki að þurfa að stela sér auka sentimetrana með þessum hætti. Aron Snær var þó ekki fyrr kominn inná en hann komst í dauðafæri eftir snjalla fléttu frá Fred, en náði ekki valdi á boltanum einn á móti markverði.

Næsta skipting var á 78. mínútu þegar Tryggvi kom inná fyrir Frey sem var gjörsamlega sprunginn eftir mikil hlaup. Það voru þó ekki einu þreyttu lappirnar inni á vellinum þegar hér var komið sögu.

Stórveldið hélt boltanum megnið af tímanum en virtist aldrei ógna nema úr hornspyrnum og aukaspyrnum þar sem reynt var að böðla boltanum inn með einhverjum tiltækum ráðum. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði Fréttaritarinn verið sultuslakur, en þetta var KR… afsakið stórveldið… og það er handrit eldra en sólin: hversu mikið betri sem Framarar kunna að vera en KR-ingar, einum á útivelli, þá skal alltaf koma eitthvað ofvaxið og rauðhært barn og skora fyrir þá í uppbótartíma. Hver yrði það að þessu sinni?

Á lokamínútu venjulegs leiktíma fór Tiago, nýjasti varnarjaxlinn okkar, af velli fyrir Breka. Fjórði dómarinn tilkynnti hins vegar að enn væru sex mínútur eftir af leikjum. Á þeim tíma tókst Aroni Snæ einu sinni að hlaupa sig í gegnum varnarhlífar stórveldisins, en var búinn með orkuna þegar kom að skotinu – og Kennie Chopart átti hetjumóment leiksins þegar hann vann boltann við eigin endamörk á sjöttu mínútu uppbótartíma, hljóp upp allan völlinn, vann horn og fann svo einhvern veginn orku til að snúa sér að stúkunni og kalla eftir fagnaðarlátum. Eitthvað segir mér að honum hafi þótt örlítið vænt um þennan sigur…

Frábær úrslit í Laugardalnum í dag, 0:1. Hvenær í ósköpunum varð Fram lið sem vinnur leiki 0:1 og drepur þá í heilan hálfleik? Fullt af frábærum frammistöðum í dag. Mási og Mingi voru brilljant. Portúgölskumælandi deildin hefur þegar verið nefnd sem og Kennie og Þorri, en það er heldur ekki hægt annað en að hrósa Kyle. Þegar við rústuðum Lengjudeildinni um árið stóðum við á húsþökum og sögðum hverjum sem heyra vildi hvað Kyle væri góður miðvörður. Svo komu leppalúðarnir í Víkingi og tóku hann og kunnu ekkert að nota hann frekar en aðra fagra og góða hluti. En núna er allt orðið gott aftur.

Næsti leikur Framara er bikarleikur á miðvikudagskvöldi gegn liði sem heitir Árbær. Fréttaritarinn þarf því miður að þvo hárið sitt það kvöldið en mætir glaðbeittur á Hlíðarenda annan mánudag. Sjáumst þar.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!