Hvernig er best að jafna sig og ná sér aftur niður á jörðina eftir að hafa unnið KR-inga á útivelli? Auðvitað byrjar maður morguninn á að drekka líter af kaffi og rífressa síðu 330 á Textavarpinu, til að minna sig á stöðutöfluna og horfa svo aftur og aftur á myndbandið af Kennie Chopart skeiða upp kantinn á lokasekúndunum. Við tekur svo biðin endalausa eftir uppgjörsþáttum í sjónvarpinu og að hlaðvörpin detti í loftið. Frekar en vafra angistarfullur um íbúðina í sálarangist sem minnir helst á Svölu Björgvins í jólalaginu, er skynsamlegt að gera eitthvað uppbyggilegt. Skella sér út í fallegan en örlítið svalan aprílvordaginn og horfa á fótbolta.
Kvennaflokkur Fram lék fyrsta „alvöru“ leik vorsins á Kópavogsvelli í dag. Þetta var fyrsta umferð bikarkeppninnar og mótherjarnir Augnablik úr Kópavogi. Augnabliksliðið féll úr Lengjudeildinni síðasta haust en náði þó að gera okkar konum skráveifur í báðum leikjum. Um er að ræða venslalið Breiðabliks og því sneisafullt af bráðefnilegum fótboltastúlkum, en kornungum og eftir því litlum og nettum.
Þjálfarateymi Fram stillti upp sterkasta liði þótt mótherjarnir væru deildinni neðar. Leikkerfið virtist einfalt 3-5-2 með Lili Berg í markinu, Katrínu Ástu, fyrirliðann Eriku Rún og Írenu Björk í varnarlínunni. Eyrún Vala og Sylvía hvor á sínum kanti með McKenzie Smith, Emu Björt og Birnu Kristínu á miðjunni. Alda og Murielle Tiernan frammi.
Stúkan var heldur þunnskipuð þrátt fyrir fínustu veðuraðstæður. Umgjörðin hjá heimakonum hins vegar öll til fyrirmyndar með vallarþul, ljósaskiltum á vísum stað og prýðilegu kaffi í boði. Framararnir í stúkunni voru einkum fjölskyldur leikmanna og fáir mættir úr hrútakofanum á Þróttarvelli í gær. Gummi Magg sat þó vitaskuld í fremstu röð með ungviðið í teymi.
Frá upphafi var ljóst hvernig leikurinn myndi fara og strax á 3. mínútu var staðan orðin 0:1, þar sem Alda átti fína stungu inn á Tiernan, sem er stór og stæðilegur senter sem átti ekki í vandræðum með að hrista af sér Kópavogsstúlkur og skora. Þær Tiernan og Alda áttu svo eftir að leika sín á milli það sem eftir var hálfleiksins og komast í urmul marktækifæra.
Forskotið var tvöfaldað á 13. mínútu þar sem Birna átti fína sendingu á Tiernan sem hristi af sér Augnabliksstúlku eða tvær, renndi því næst á Öldu sem var á auðum sjón og skoraði 0:2. Úrslitin máttu svo heita endanlega ráðin um miðjan hálfleikinn þegar snyrtilegur skalli Framara eftir hornspyrnu olli allskonar vandræðum í Augnabliksvörninni, markvörðurinn blakaði honum í slána, en þar féll hann beint fyrir tærnar á Öldu sem potaði yfir marklínuna af örstuttu færi, 0:3.
Þegar komið var fram í uppbótartíma færðu heimakonur Frömurum fjórða markið á silfurfati. Sending frá marki barst beint á Öldu í miðjum vítateignum, sem sendi til hliðar á Tiernan sem gat ekki annað en skorað. Fjögur mörk í hálfleik sem einkenndist einkum af fáránlegum fjölda hornspyrna sem Framliðið fékk.
Sem vænta mátti reyndist Frömurum erfitt að halda sama dampi í seinni hálfleik og þeim fyrri. Varamarkvörðurinn Þóra Rún fékk að spreyta sig og Tiernan var skipt útaf fyrir Evu Stefánsdóttur. Framliðið fékk fjölda sókna en vaxandi kæruleysi virtist þó einkenna sóknarleikinn, auk þess sem markvörður Augnabliks átti oft glæsileg tilþrif og kom í veg fyrir að lokatölur yrðu í tveggja stafa tölu.
Fimmta og síðasta markið kom svo úr vítaspyrnu eftir klukkutímaleik, sem dæmd var á hendi. Alda fullkomnaði þrennu sína og erfitt að komast hjá því að útnefna hana mann leiksins. Þórey Björk og Ólína Sif komu inná um miðbik hálfleiksins og Thelma Björk í lokin.
Erfitt er að lesa mikið í styrk Framliðsins á grunni þessa leiks, en liðið virðist í prýðilegu standi og leikmenn meðvitaðir um hlutverk sín á vellinum. Nú tekur við næsti leikur í bikarnum, gegn Íþróttafélagi Hafnarfjarðar, sem ætti að vera af svipuðum styrk og Augnablik. Í boði er sæti í 16-liða úrslitum þar sem okkar konur munu vonandi fá að mæla sig í keppni við Bestudeildarliðin. Sumarið er tíminn!
Stefán Pálsson