fbpx
Kyle gegn KR

Samræmdu

Í lífinu gildir sú einfalda regla að annað hvort ertu hluti af lausninni eða vandamálinu. Það er enginn millivegur. Nú um stundir stendur mannkynið til að mynda frammi fyrir mestu ógn sem af henni hefur steðjað: loftslagsbreytingar af mannavöldum munu, ef ekkert verður að gert, gera heimkynni milljóna óbyggileg og valda ólýsanlegum hörmungum fyrir lífskjör fólks og vistkerfi jarðar. Meðal þess sem við verðum að gera til að snúa þróuninni við er að breyta lífsháttum okkar og mataræði – hætta að brenna olíu og borða meira úr plönturíkinu en dýraríkinu.

Í Reykjavík er íþróttafélag sem er meðvitað um þessar staðreyndir. Fyrir vikið hefur það gert samning þess efnis að heimavöllur þess ber nafn gróðrarstöðvar sem ræktar ljúffengt salat og spínatkál. Þetta fólk er hluti af lausninni. Vestar í borginni er annað íþróttafélag. Það kennir heimavöllinn sinn við bensínstöð…

Lausnin sótti vandamálið heim í kvöld í fjórðu umferð Bestu deildarinnar. Fréttaritarinn mætti tímanlega enda dubbaður upp af heimamönnum til að stýra pöbbkvissi stuðningsmanna beggja liða. Eins og fram hefur komið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á þessum vettvangi á Fréttaritarinn táning sem er gallharður Valsari og hefur undirritaður því varið fleiri klukkustundum á Hlíðarenda en hollt er og æskilegt og brotið brauð með fólki sem er þrátt fyrir allt ágætis manneskjur.

Kvissið gekk vel og auðvitað unnu liðsmenn Úlfanna á fullu húsi stiga. Bjór var ótæpilega kneyfaður í aðdragandanum en keppnistíminn var skrítinn, 18:00 á mánudegi, til að laga sig að körfukastleik heimamanna gegn Njarðvíkingum. Framarar létu það þó ekki trufla sig og fjölmenntu í stúkuna í sallafínu veðri, þótt nokkur vindstrekkingur hafi verið á vellinum.

Framliðið var óbreytt frá sigrinum á KR um daginn. Óli í markinu, Kyle, Kennie og Þorri í öftustu varnarlínu. Alex og Már í bakvörðum. Fred Tiago og Freyr á miðjunni. Gummi Magg og Mási frammi. Jannik er enn fjarri góðu gamni með bakmeiðsli, en vonir standa til að hann snúi aftur innan ekki of langs tíma.

Skjaldsveinninn skrópaði enn eina ferðina, að sögn staddur á e-u hópefli matvælafræðinga úti á landi. Í fjarveru hans og markapelans góða plantaði Fréttaritarinn (í gráu ullarpeysunni og þunnum jakka – við erum ekki enn komin á þann tímapunkt að gula vestið sé verjandi) sér við hliðina á Adda úr bankanum og Ívari Guðjóns, standandi efst í stúkunni.

Framarar byrjuðu með látum og strax á fyrstu mínútu var Már nærri búinn að labba í gegnum staða Valsvörnina. Rétt rúmum fimm mínútum síðar átti á Freyr snilldarsendingu á Minga sem átti skot sem var varið, frákastið barst til Mása og var sömuleiðis varið. Framarar voru mun ákveðnari á upphafsmínútunum og heimamenn á bensíndælunni virtust bæði andlausir og hugmyndasnauðir.

Fyrsta alvöru færi Valsmanna kom eftir tæpar tuttugu mínútur þegar Tiago missti boltann með óvenjulega slakri sendingu á miðjum velli en hljóp til bara og náði að stöðva skot Gylfa Sigurðssonar (sem fær að vera nafngreindur, þvert á reglur þessa bloggs um nafnbirtingar mótherja). Einar Kárason og félagar voru fljótir að bregðast við með hinu skemmtilega kalli: „Það er aðeins einn Gylfi Ægis!“

Um miðbik hálfleiksins mátti litlu muna að Framarar kæmust yfir eftir snjallt leikkerfi þar sem Mingi og Gummi léku saman og sendu svo á Fred, en Valsmarkvörðurinn blakaði í horn. Beint í kjölfarið komst Kennie í dauðafæri en skot hans var naumlega varið framhjá.

Síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks fór að fjara undan yfirburðum Framara og heimamenn mjökuðu sér framar á völlinn. Enn var þó markalaust þegar flautað var til leikhlés og allir Valsmenn sem spurðir voru í fínumannahólfinu í hálfleik viðurkenndu fúslega að Framliðið hefði verið umtalsvert betra og verðskuldaði forystu.

Fram gerði tvöfalda skiptingu í byrjun seinni hálfleiks. Tryggvi kom inn fyrir Frey og Adam fyrir Kennie, sem hafði fengið höfuðhögg snemma leiks. Adam kom sterkur inn í bikarleiknum um daginn og það sama gilti í dag. Breiddin í Framliðinu er mikil og allar skiptingar af bekknum eru góðar.

Heimamenn komu mun sterkari til leiks í seinni hálfleik og tóku nánast öll völd á miðjunni. Framvörnin, með Kyle í miðjunni sem ósigrandi brimbrjót, gaf þó engin færi á sér. Einu marktækifæri Vals voru úr föstum leikatriðum, hornspyrnum og aukaspyrnum, þar sem Gylfi (þó ekki Ægisson) fékk að spreyta sig. Á 52. mínútu bar sú uppskrift árangur þar sem einföld hornspyrna Valsmanna rataði á kollinn á einum þeirra manna og staðan varð 1:0.

Framliðið virtist ekki líklegt til að svara fyrir sig og leikurinn hálfdrabbaðist niður. Valsmenn drógu sig jafnt og þétt aftar á vellinum, en Framara virtist skorta snerpu og hraða til að sauma að þeim og freista þess að jafna. Már og Tyrggvi náðu aðeins að ógna markinu um miðjan hálfleikinn en varnarmenn Vals hreinsuðu á marklínu.

Þegar rétt rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum fór Gummi Magg af velli fyrir táninginn Viktor Bjarka. Það átti eftir að reynast afdrifaríkt.

Síðustu tíu mínúturnar bökkuðu Valsmenn enn meira og Framliðið, sem hafði ekki verið nálægt því að ógna byrjaði að fá tækifæri. Á 83ju mínútu kom Halli inn fyrir Alex og Aron Snær fyrir Minga. Báðir áttu eftir að setja rækilega mark sitt á leikinn. – Planið var augljóslega að blása til sóknar síðustu mínúturnar…

Á lokamínútu venjulegs leiktíma var brotið á Tiago rétt utan við vítateig og Framliðið stillti upp í lokasókn. Fred skrúfaði boltann beint á kollinn á Þorra sem lagði hann fyrir Viktor Bjarka sem potaði boltanum í netið. Viktor, sem að öllu jöfnu hefði átt að vera heima hjá sér að læra fyrir samræmdu prófin, er nýi uppáhaldsmaður okkar Framara! Lokamínúturnar runnu út og fagnaðarlætin í stúkunni voru ósvikin. Á leiðinni heim í Eskihlíðina gekk Fréttaritarinn kotroskinn ásamt Einari Kárasyni og dætrum, auk þess að vaða í flasið á trymblinum Kristjáni Frey. Lífið er ljúft og Fram ósigrandi. Næsti leikur er gegn Fylki á kálblaðinu mætið þangað eða verið ferhyrnd!

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!