fbpx
Kyle gegn KR

Djöfullinn danskur

Á árunum 1998 til 2004 var Ebbe Sand einhver öflugasti framherji danska landsliðsins og skoraði 22 mörk í 66 leikjum. Hann varð jafnframt markakóngur Bundesligunnar í Þýskalandi sem leikmaður Schalke 04. Það er ekki heiglum hent.

Hvað gera fréttaritarar Framsíðunnar þegar Fram er á útivelli og því ekki í boði að mæta í fínumannaboð í Dal draumanna? Spurningin verður þeim mun áleitnari þegar leikið er á föstudagskvöldi og svigrúmið til að tengja saman fótboltagláp og glasalyftingar er enn meira. Jú, þá þefar maður upp fyrirleikspartý í Garðabænum.

Klukkan var rétt rúmlega fimm þegar fréttaritarinn stóð á þröskuldinum hjá Þorbirni Atla. Í sjónvarpinu mallaði þáttur af Stöð 2 sport um Gumma Steins. Kjánarnir á Fótbolta.net útvarpsþættinum um daginn höfðu ekki áttað sig á því í hvað nafnið á stuðningsmannabarnum Bar-áttunni vísar. Það er bara ein átta í Fram og það er Gummi Steins… Klukkan var annars orðin svo lítið að sonurinn Þorri var ennþá heima. Hann ber nefbrotið vel og er prúður piltur.

Miðjumaður Gettu betur-liðs Ármúlaskóla árið 1997 reyndist höfðingi heim að sækja og bauð upp á grillaðar pylsur og gnótt bjórs. Hann hafði líka boðið dönskum fótboltarýnum og umboðsmönnum sem ætluðu að fylgjast með völdum mönnum á vellinum. Einn þeirra var sjálfur Ebbe Sand, sem fékk samviskusamlega fyrirlestur um alla þá Dani sem leikið hafa í Frambúningnum síðustu tvo áratugi. Hann kveikti (eða þóttist kveikja) á hverju einasta nafni.

Tíu mínútum fyrir leik var tímabært að rúlla út í frystikistuna. Byrjunarlið Framara hafði löngu fyrr verið upplýst. Óli í markinu. Kennie, Kyle og Þorri sem miðverðir. Már og Halli (í fjarveru Alex sem var í banni) í bakvörðunum. Tryggvi, Tiago og Fred á miðjunni. Mingi og Gummi frammi. Á bekknum vakti athygli að Brynjar Gauti er kominn aftur eftir nokkra fjarveru.

Stjarnan byrjaði tímabilið illa en hefur mjög rétt úr kútnum upp á síðkastið. Garðbæingar byrjuðu líka með látum og sóttu stíft frá fyrstu mínútu. Framarar ætluðu greinilega ekki að gefa nein færi á sér og lágu langt til baka, en þá sjaldan sem þeir komust í boltann náðu þeir ekki nema 2-3 sendingum sín á milli, svo yfirburðir heimamanna virtust algjörir.

Óli varði vel í 1-2 skipti í byrjun en annars dró fátt til tíðinda. Eftir hálftíma leik komust heimamenn hins vegar yfir, nánast upp úr engu þegar sending utan af velli rataði beint á kollinn á Stjörnumanni sem skallaði í netið, staðan 1:0.

Fimm mínútum eftir markið var Kyle nærri því að jafna metin, nokkuð óvænt, en skalli hans sleikti stöngina og útaf. Í uppbótatíma vann Gummi Magg boltann á miðjum vellinum, sá að markvörður Stjörnunnar stóð alltof framarlega og freistaði þess að lyfta yfir hann og í netið, en skaut rétt framhjá markinu. Staðan í hálfleik var 1:0 fyrir Stjörnumönnum og Framarar sannast sagna sárfegnir að munurinn væri ekki meiri.

Skjaldsveinninn Valur hafði snúið aftur eftir vandræðalega langa fjarveru og þótt ekki reyndi á markapelann í fyrri hálfleik var vissan um náveru hans mikilvæg hvatning. Stuðningsmannabar Stjörnumanna var smekkfullur og sama gilti um hamborgara- og pizzuröðina. Flestum tókst þó að tryggja sér nauðsynlegur transfitur í tíma fyrir seinni hálfleik.

Hvorugt liðið gerði breytingar á liðskipan í hléi, en heimamenn drógu sig þó áberandi mikið til baka frá fyrstu mínútu. Það átti eftir að reynast þeim dýrkeypt. Við tók tímabil þar sem liðin kepptust við að sækja og verjast á víxl. Á 58. mínútu gerði Fram tvöfalda skiptingu. Mingi og Már, sem hvorugur hafði komist sérstaklega í takt við leikinn, fóru af velli fyrir Viktor Bjarka og Adam. Báðir áttu eftir að standa sig með prýði og margt bendir til að Adam muni spila stærra hlutverk fyrir Fram í sumar en stefndi í í vor. Innkomur hans það sem af er hafa í það minnsta verið óaðfinnanlegar.

Mínútu eftir skiptinguna átti Kyle eina af tæklingum sumarsins þar sem hann hljóp uppi Stjörnumann sem var sloppinn einn í gegn og náði af honum boltanum á frábæran hátt. Kyle var okkar langbesti maður í dag, þótt það kunni að vera klisjukennt að velja hann í hvert sinn. Hvað í ósköpunum Víkingarnir vildu fá frá honum annað en að vera besti varnarmaður deildarinnar er fréttaritaranum hulin ráðgáta.

Rétt eftir vörslu Kyle tók Óli aðra af tveimur handboltavörslum sínum í leiknum, þar sem hann notaði lappirnar til að verjast andstæðingunum. Framfarir Óla í markinu milli ára mega vera öllum ljósar. Orðið á götunni er að markmannsþjálfarinn sem Rúnar tók með sér eigi stærstan þátt í þessu.

Á 66. mínútu kom jöfnunarmark Fram – og nokkuð óvænt. Tryggvi sendi boltann á Halla sem var úti á kanti og náði skalla fyrir markið þar sem Gumm Magg braust áfram af harðfylgi og skallaði í netið, 1:1. Gummi hefur nú skorað tvo leiki í röð og í bæði skiptin með skalla eftir að rutt öllum mótherjum frá sér með líkamlegum styrk. Þetta kunnum við vel að meta og lengi megi það haldast!

Jöfnunarmarkið varð til þess að vekja Garðbæinga til lífsins á nýjan leik. Þeir sóttu kröftuglega að marki Fram en vörnin, með Kyle og Kennie í brjósti fylkingar braut allt af sér.

Á 81. mínútu vildu Framarar víti fyrir brot á Tryggva, dómarinn hlustaði ekki á neitt slíkt og í kjölfarið átti Tryggvi skot sem skoppaði á þaknetinu.

Þegar fimm mínútur voru til leiksloka gerðu Framarar aðra tvöfalda skiptingu. Tryggvi og Fred fóru útaf fyrir Breka og Egil Otta. Fátt bar til tíðinda síðustu mínúturnar ef undan er skilin enn ein sturluð tækling Kyle til að stöðva sóknarlotu Stjörnumanna.

Lokatölur 1:1, úrslit sem flestir Framarar hefðu sætt sig við fyrirfram. Það væri synd að segja að Framliðið hafi átt góðan leik í kvöld. Óli var fínn í markinu og varnarlínan stóð sig ágætlega en framávið höfum við átt mun betri daga. Það er eiginlega vandræðalegt hvað Kyle var langlangbestur í dag. Hann þarf aðeins að taka fótinn af bensíngjöfinni til að gefa einhverjum öðrum séns. Fréttaritarinn mun missa af næsta leik hjá stelpunum á þriðjudaginn kemur vegna vinnu en ætti að ná Skagaleiknum í karlaflokknum eftir tíu daga. Sjáumst í salatskálinni!

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!