fbpx
FRAM - ÍR II

Sultardropar

Kalt, blautt og Mosfellsbær eru þrjú hugtök í íslenskri tungu sem vekja ónotatilfinningu í hugum flestra. Þegar öll þrjú koma saman er útkoman eitruð blanda og ávísun á kvefpestir og bælisvist. Hrossataðsköggullinn í pylsuendanum er svo þegar leikurinn tapast.

Það var annars nokkuð kátur fréttaritari Framsíðunnar sem ók af stað úr Hlíðunum síðdegis. Fyrst lá leiðin upp í Efra-Breiðholt til að sækja myndasögubók sem lengi hefur vantað í safnið en fannst loks á sölusíðu á netinu. Um var að ræða litlu bláu bókina sem Edda gaf út með sögum Don Rosa um Jóakim Aðalönd. Þetta reyndist hápunktur dagsins.

Það blés í Mosfellsbæ og það var súld. Áhorfendur voru fáir, virtust skiptast nokkuð jafnt milli liða og sameinuðust í þjáningunni. Eins og venjan er á Aftureldingarleikjum var einn maður í stúkunni með trommu. Honum var líklega ekki kalt.

Fram tefldi fram lítið breyttu liði frá síðasta leik. Lilliana í markinu, Erika, Telma og Katrín aftastar í vörninni, Eyrún og Írena á köntunum, Emma MacKenzie og Birna á miðjunni & Alda og Murielle frammi. (Nema þá að þetta hafi verið allt öðru vísi – raki og nepja hægja mjög á blóðflæði til heilans sem kunnugt er.)

Frekar en að hætta sér á vinnupallana sem notaðir eru sem stúka á Malbiksvellinum, afréð fréttaritarinn að híma undir sjoppuveggnum. Óli Íshólm stóð skammt frá, en því miður ekki í þeirri átt að hafa mætti af honum skjól. Glöggir lesendur þessara pistla hafa væntanlega áttað sig á því stefi að fréttaritarinn endar yfirleitt á að sitja eða standa í námunda við mæður gamalla og nýrra leikmanna. Að þessu sinni var það móðir Pálma þjálfara, nýkomin í bæinn frá Reyðarfirði og væntanlega búist við betri móttökum. Þarna var líka tengdafaðir hins þjálfarans og var nú ekki rædd vitleysan hjá þessu þríeyki.

Fram byrjaði af krafti og Alda komst í dauðafæri á upphafsmínútunum eftir góðan undirbúning frá Murielle. Sú bandaríska átti skot nokkrum mínútum síðar sem varið var í horn. Heimakonur lágu aftarlega á vellinum en beittu grimmt skyndisóknum, sú fyrsta sem eitthvað kvað að kom eftir kortér þegar ein rauðklædd virtist að sleppa ein í gegn en markvörður okkar náði að hirða boltann af tánum á henni á vítateigslínunni. Aftur komst Alda í gott færi eftir um tuttugu mínútna leik, þar sem hún fékk boltann til sín á marklínu en þurfti að teygja sig um of og náði engum krafti í skotið.

Það var fremur gegn gangi leiksins þegar heimakonur komust yfir eftir hálftíma. Skot af löngu færi, en vissulega með vindi og blautum vellinum spýttist undir Lilliönnu í markinu, 1:0. Það sem eftir leið af hálfleiknum sóttu Framarar en leikmenn Aftureldingar drógu sig enn aftar á völlinn. Helsta hættan skapaðist eftir sendingar MacKenzie á miðjunni og á markamínútunni átti hún hörkuskot að marki en varnarmaður náði að henda sér fyrir það og verja í horn.

Um leið og flautað var til hálfleiks tók fréttaritarinn strikið í bílinn sinn og setti miðstöðina á fullt. Þrátt fyrir það mátti heyra óminn af þungarokkinu sem Mosfellingar blasta í leikhléi. Þetta hefði nú ekki verið látið viðgangast á Laugardalsvellinum í gamla daga þegar Siggi Svavars var vallarþulur og spilaði sama diskinn með Sniglabandinu í hvert einasta sinn – þar á meðal lagið „Éttu úldin hund – kona“, sem er líklega búið að þverslaufa í dag.

Fyrsta færi seinni hálfleiks féll í hlut Framara. Murielle lyfti boltanum fyrir markið þar sem stórhætta skapaðist þar sem Alda, markvörður og varanarmaður Aftureldingar hlupu allar saman, féllu í jörðina en boltinn endaði í fangi markvarðarins. Skömmu síðar varði Lilliana frábærlega eftir stórhættulega skyndisókn heimaliðsins.

Á 56. mínútu hrökk boltinn í hönd varnarmanns Aftureldingar inni í eigin vítateig. Dómarinn stakk flautunni upp í sig og tók skref í átt að atvikinu – en sá sig um hönd á síðustu stundu og veifaði liðunum að halda áfram.

Engu mátti muna að Afturelding tvöfaldaði forystuna eftir rétt rúmlega klukkutíma leik eftir furðulegt klafs í vítateig Fram sem endaði á að hreinsað var frá á marklínu. Beint í kjölfarið brunuðu okkar konur fram völlinn og tóku bjartsýnislegt skot sem markvörðurinn átti í mestu vandræðum með og náði rétt að blaka í hornspyrnu.

Fyrstu skiptingar þeirra Óskars og Pálma komu á 64. mínútu. Sylvía og Eva komu inná fyrir Írenu og Birnu. Talsvert var farið að draga af mörgum leikmönnum beggja liða, þannig var Murielle farin að þreytast sýnilega enda búin að hlaupa mikið. Í lokaskiptingunni kom Karítas svo inná fyrir Emmu.

Á lokamínútunum fékk Fram þrjár aukaspyrnur á mishættulegum stöðum sem Telma tók allar. Sú fyrsta skapaði mestu hættuna þar sem markvörður Aftureldingar sló boltann í þverslána, hann féll aftur niður í teiginn þar sem aðvífandi Framari setti boltann rétt framhjá. Lokatölur – 1:0 tap.

Jafntefli hefðu líklega verið sanngjörnustu úrslitin í leiknum en það er bágt að treysta á réttlæti í sveitarfélagi sem drepur milljón kjúklinga á ári hverju. Við Framarar erum enn pínkulítið sár yfir því þegar Mosfellingar dömpuðu okkur hér um árið eftir stuttar samvistir. Þess verður hefnt í heimaleiknum í veðurparadísinni á Lambhagavelli.

Stefán Pálsson

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!