Þegar Fram lék gegn Vestra í efstu deild í knattspyrnu á Ísafirði, fimmtudaginn 27. júlí, heiðruðu Framarar Björn Helgason fyrir leikinn, með því að færa honum blómvönd og búning Íþróttabandalags Ísafjarðar, eins og hann var á árum áður; grænn og rauður. Merki Fram, ÍBÍ og Vestra voru á búningnum.
Það var Guðmundur Torfason, formaður knattspyrnudeildar Fram, sem færði Birni blómvönd og búninginn fyrir leikinn, en hann er til vinstri hér á myndinni ásamt Birni, 88 ára, og Rúnari Kristinssyni, þjálfara Fram, en þeir eru allir gamlir landsliðsrefir.
Fram fagnaði sigri á Vestra, 3:1. Framarar léku sinn fyrsta leik í efstu deild á Ísafirði 1962 og fóru með sigur af hólmi, 6:0. Grétar Sigurðsson skoraði fjögur mörk og Hallgrímur Scheving, 17 ára, tvö.
Guðmundur sagði að það væri Framörum ljúft og gott að hitta fyrir Ísfirðinginn Björn Helgason, en Björn og Fram hafa bundist órjúfanlegum böndum á árum áður.
Björn er fyrsti landsliðsmaður Ísafjarðar í knattspyrnu, en hann lék tvo landsleiki á árunum 1959-1963.
Fyrst sem leikmaður Íþróttabandalags Ísafjarðar, ÍBÍ, gegn Noregi í Ósló 1959, þá 24 ára.
Síðan sem leikmaður Fram gegn Ólympíuliði Bretlands 1963.
Þá var Björn varamaður í þremur landsleikjum. Fyrst í sögufrægum leik gegn Dönum í Kaupmannahöfn 1959, 1:1. Síðan gegn áhugamannalandsliði Englands 1961 og Ólympíuliði Bretlands 1963.
Fjórir leikirnir af fimm sem hann tók þátt í, voru í undankeppni Ólympíuleikanna í Róm 1960 og Mexíkó 1964.
Björn lék einnig landsleik með B-landsliði Íslands gegn Færeyingum í Þórshöfn 1959. Hann skoraði tvö mörk í sigurleik, 5:2.
Björn kynntist fjórum leikmönnum Fram í ferðinni til Færeyja; Guðmundi Óskarssyni, Ragnari Jóhannssyni, Baldri Scheving og Grétari Sigurðssyni.
Það varð til þess að Björn gekk til liðs við Íslandsmeistara Fram (1962) þegar hann dvaldist í Reykjavík 1963.
Á Akureyri 1963. Baldur Scheving, Björn Helgason og Ragnar Jóhannsson. Fram fagnaði sigri á ÍBA, 2:1.
Landsliðsmaður með tveimur félögum
Björn varð fjórði knattspyrnumaðurinn til að leika landsleik sem leikmaður með tveimur félögum.
Hinir þrír voru:
Ríkharður Jónsson, Fram og ÍA.
Helgi Daníelsson, Valur og ÍA.
Albert Guðmundsson, Valur og Íþróttabandalag Hafnarfjarðar.
TEXTI: Sigmundur Ó. Steinarsson.