„Eigum við ekki að skella okkur í rómantíska ferð um Vestfirði, aka Djúpið, skoða söfn, prófa veitingastaði og taka út nýju Dýrafjarðargöngin?“ – spurði fréttaritarinn eiginkonu sína snemmsumars, þegar hún var að drukkna í endalausum fundarsetum og skýrslulestri fram á rauða nótt. Það var auðvelt að selja hugmyndina enda Ísafjörður unaðsreitur og tilhugsunin um að gera skilið ormana eftir heima, þar sem þeir hefðu sumarvinnu að sinna, ekki síður freistandi. Það var svo heppilegur kaupauki þessu verkefni öllu að ferðin félli saman við leik Vestra og Fram í Bestu deildinni.
Það var kátur fréttaritari sem rölti – reyndar dálítið haltur eftir bumbubolta þriðjudagsins – á nýjan og stórglæsisilegan heimavöll Vestra með viðkomu á knæpu þar sem málin voru krufin með vöskum heimamönnum. Útsýnið úr stúkunni er frábært og auðvitað kom togari til hafnar þegar leikurinn stóð sem hæst. Ísfirðingar eru geðgott fólk og klöppuðu fyrir sínum mönnum frá upphafi til enda – þótt það hafi eflaust ekki verið auðelt á köflum.
„Stefán, hérna er Framsvæðið!“ – kölluðu tveir ungir piltar: Hnikar og Otri, sem þrættu fyrir að vera að vestan þrátt fyrir þessi hljómmiklu nöfn. Það var nokkuð nærri lagi, fréttaritarinn hlammaði sér í röðina fyrir ofan þá og saman myndaði hópurinn um þriðjung Framara á vellinum. Sætin voru í annarri og þriðju röð, nánast inni í varamannaskýlinu, þétt við hliðarlínuna. Það eru mörg ár síðan fréttaritarinn hefur setið svona nálægt fótboltaleik í efstu deild. Það breytir leikupplifuninni talsvert að heyra samskipti manna inni á vellinum og mögulega hefðu svitaperlur getað slest á næstu áhorfendur… en það vildi til að okkar menn þurftu varla að svitna í leiknum.
Meiðsli og leikbönn hjuggu skörð í varnarlínu Fram, með Alex og Kyle í banni og Kennie enn að kljást við einhver meiðsli. Óli stóð í markinu með Þorra, Brynjar og Adam í miðvörðum, Mása og Halla í bakvörðunum. Tiago aftastur á miðjunni með Tryggva og Fred út til kantanna. Gummi og Mingi frammi. Bekkurinn var kornungur og heimaalinn, sem vera ber. Fyrir leik heiðraði Guðmundur Torfason gamla kempu úr ÍBÍ-liðinu og Fram, Birni Helgasyni, viðurkenningu og féll það vel í kramið hjá heimafólki. Gummi hafði brunað vestur um morguninn ásamt Alexander Leó úr meistaraflokksráðinu – og þá vorum við orðnir fimm!
Leikurinn byrjaði fjörlega af hálfu beggja liða og má raunar segja að Vestramenn hafi verið betri fyrsta kortérið, þótt Framvörnin hafi alltaf reynst vandanum vaxin. En mörk breyta leikjum. Á 17. mínútu brunuðu Framarar upp völlinn eftir að hornspyrna heimamanna fór í súginn. Tiago skeiðaði af stað en stakk svo fram á Fred sem hljóp af sér alla varnarmenn, komst einn á móti Svíanum í marki Ísfirðinga en í stað þess að freista þess að lyfta yfir hann, renndi hann til hliðar á Minga sem fylgdi með á miklum hraða og skoraði í tómt markið, 0:1.
Við þetta duttu ll hjólin af vagni Vestra og það mátti sjá sjálfstraustið gufa upp af andlitum heimamanna. Áhorfendur umbáru fréttaritarann, Hnikar og Otra sem hoppuðu upp og niður í stúkunni, rifjandi upp helstu Geiramannaslagarana. Við hefðum pottþétt verið lamdir ef við værum Bolvíkingar.
Mínútu eftir markið fékk einn Vestramaðurinn boltann í útrétta höndina í vítateignum eftir slárskot frá Fred, beint fyrir framan dómarann sem ákvað (svo sem skynsamlega) að óþarft væri að slátra leiknum algjörlega þegar svona lítið væri liðið. Enn hefði Fram getað aukið forystuna eftir tæplega hálftíma leik þegar Adam sópaði boltanum yfir eftir fínan undirbúning Mása. Brynjar Gauti var greinilega staðráðinn í að láta félaga sinn úr öftustu línu ekki fá öll færin og skömmu síðar reyndi hann bakfallsspyrnu eftir sendingu frá Gumma. Á 35. mínútu ætlaði einn Vestramaðurinn að taka boltann niður með kassanum, en á síðustu stundu tók hans innri blakspilari völdin og hann sló boltann klaufalega í miðjum eigin teig. Aulalegasta víti sumarsins hefði átt að verða staðreynd, en góður dómari leiksins væntanlega að dást að náttúrufegurðinni og að velta fyrir sér aflabrögðum aðvífandi togara.
Óli hafði lítið að gera í markinu þegar hér var komið sögu en fékk þó tækifæri til að sparka langt fram á 38. mínútu þar sem ekki vildi betur til en svo að einn Vestramaðurinn nikkaði boltanum lengra í átt að eigin marki og beint fyrir tærnar á Má Ægissyni sem átti ekki í vandræðum með að skora, 0:2 og sigurinn langleiðina kominn í höfn. Farsími fréttaritarans pípti í gríð og erg, þar sem fjarstaddir Skjaldsveinn og Hnífsdalstrymbill skiptust á að tjá sig um gang mála. Litlu mátti muna að þriðja markið kæmi fyrir hlé þar sem Tryggvi og Fred dönsuðu í gegnum vörnina en Halli náði ekki nægilega góðu skoti á markið.
Í leikhléi voru salerni og pylsusala Ísfirðinga tekin út og í ljós kom að það voru tveir Framarar til viðbótar á vellinum: hirðtölfræðingur félagsins og alhliða spesíalisti í fuglum hafði verið að telja skúma eða músarrindla eða eitthvað álíka á Barðaströndinni og skellti sér yfir heiðina í fullum Fram-skrúða. Og þarna var líka sagnfræðingurinn Snorri Bergsson sem rifjaði upp hetjudáðir sínar á Framvellinum á unglingsárum, sem fólust einkum í því að sparka niður Rúnar Kristinsson – en það var líka á meðan hann var á hinum staðnum og því réttsparktækur.
Seinni hálfleikur byrjaði og Vestri gerði tvöfalda skiptingu. Það breytti nákvæmlega engu. Tveimur mínútum síðar lá boltinn í netinu, Brynjar Gauti skoraði 0:3 að því er virtist eftir sendingu frá Tryggva eftir eitthvað klafs. Leikurinn í raun búinn og núna var ekkert eftir nema að leika sér í 40 mínútur auk viðbótartíma.
Á 50. mínútu hirti Fred boltann af aftasta Vestramanna nærri miðlínu, tók á rás og komst einn á móti markverðinum sem varði frábærlega – en þarna átti nú að skora. Þorri hefði getað bætt sér á markaskoraralistann þegar um tuttugu mínútur voru eftir og fimm mínútum síðar átti Halli flotta sendingu á Minga sem komst einn á móti þeim sænska sem varði aftur frábærlega. Það segir sitt um lánleysi heimamanna í leiknum að markmaðurinn var þeirra lang-langbesti maður.
Fyrstu skiptingar okkar komu ekki fyrr en á 83. mínútu, sem kom nokkuð á óvart í ljósi þess að næsti leikur er á sunnudag. Freyr og Viktor Bjarki komu þá inná fyrir Fred og Gumma Magg. Síðar kom Breki inná fyrir Tryggva Snæ og í uppbótartíma fékk Aron Snær að spreyta sig í stað Magnúsar. Veðurblíðan var slík að dómarinn bætti við sex mínútum sem enginn var að biðja um. Þó tókst Aroni að koma sér í gott færi og undir blálokin klóruðu Ísfirðingar aðeins í bakkann og minnkuðu muninn í 1:3. Eðlilegri tölur hefðu þó verið sex marka sigur Framara sem loksins fundu fjölina sína aftur eftir eyðimerkurgöngu síðustu vikna. Það voru allir góðir í dag. Tryggvi þó bestur. Og næst er að vinna eftirlætis litlubræður okkar í Víkinni. Hver veit nema fréttaritarinn verði kominn heim í tæka tíð – það veltur þó dálítið á skringilega aukahljóðinu undan vélarhlífinni. Er eðlilegt að Volkswagen Golf telji sér trú um að hann sé trilla?
Stefán Pálsson