fbpx
Gummi Magg vefur

Blendingsbrauðið

Júlí er grimmastur mánuða, hvað svo sem breska skáldið hafði um málið að segja. Eftir leik kvöldsins þurfa Framarar að bíða til ellefta júlí eftir næsta leik hjá karlaliðinu. Það er glatað og ömurlegt. Vill þó til að það gefur okkur góðan tíma til að sleikja sárin og leita svara við spurningunni: hvernig í ósköpunum gat þetta Víkingslið fengið sex stig gegn okkur það sem af er móti??!!

Skjaldsveinninn, Valur Norðri, býr í fínafólkshverfinu í Fossvoginum, sem gerir heimili hans að tilvöldum vettvangi fyrirpartýa á undan leikjum í Víkinni. Fréttaritarinn lét konuna skutla sér á staðinn, þar sem beið EM-leikur á risaskjá og hvers kyns góðgæti. Þangað mættu líka Rabbi trymbill og konferenzráðið Ragnar Kristinsson , heiðursforseti krikketsambandsins og Víkingur – en hann getur ekkert gert af því. Þegar Evrópuboltinn var búinn henti Skjaldsveinninn pylsum á grillið. Þær voru framreiddar í stórmerkilegu blendingsbrauði: sem er að hálfu pylsubrauð og að hálfu pretzel-kringla! Þetta er djarfasti samruni ólíkra matvælategunda síðan einhver bensínstöðin kynnti til sögunnar hamborgarapylsuna, sællar minningar. Að sumu leyti má líta á blendingsbrauðið sem spásögn eða kannski frekar metafóru fyrir leikinn sem fylgdi í kjölfarið og frammistöðu Framara í honum. Þar var fyrri helmingurinn svampkennt franskbrauð eða sá síðari stökk pretzel-kringla. Svona hermir lífið stundum eftir matargerðarlistinni.

Liðin voru kynnt á netinu og strax var tvennt sem vakti athygli. Í fyrsta lagi að Kennie Chopart var kominn aftur í vörnina eftir fjarveru í síðasta leik og í öðru lagi Jannik Pohl var kominn á bekkinn. Voru þetta ekki örugglega danskar pyslur sem Skjaldsveinninn hafði grillað? Gott ef ekki!

Auk Kennie áttu þeir Kyle og Brynjar Gauti að standa í öðftustu varnarlínu fyrir framan Óla Íshólm. Í upphitun meiddist Brynjar og hóf Þorri leik í hans stað. Halli og Már voru bakverðir. Tiago aftastur á miðjunni með Tryggva og Fred fyrir framan sig. Magnús Ingi og Gummi Magg frammi. Fínasta lið sem bjó sig undir að takast á við Íslandsmeistarana í rigningu og stífum vindi.

Jafnræði var með liðunum fyrsta kortérið og lítið um alvöru færi. Eftir það tóku heimamenn völdin í leiknum. Varnarmenn Framara virtust nánast gera sér að leik að gefa Víkingum fría skalla eftir hornspyrnur, að því er virtist til þess að Óli gæti sýnt listir sínar sem hann gerði í tvígang með tveggja mínútna millibili á 16. og 18. mínútu. Beint í kjölfarið tókst Frömurum að koma sér í sitt fyrsta alvöru færi þegar Tiago átti frábæra sendingu innfyrir á Minga sem náði bara máttlitlu skoti að marki úr þröngu færi. Framarar fengu mark í andlitið strax í næstu sókn, vörnin galopnaðist og heimamenn komnir í 1:0.

Fátt markvert bar til tíðinda næstu tíu mínúturnar en á 32. mínútu kom Mingi boltanum í netið eftir flotta fyrirgjöf frá Halla – sem var mjög öflugur í leiknum – en rangstöðuflaggið var komið á loft. Þetta var í það minnsta afar tæpt ef ekki hreinlega rangur dómur – en kampakátir Víkingar sögðu í hléi að rangstaðan hefði í það minnsta verið „uppsöfnuð“ þar sem línuvörðurinn hefði sleppt því að flagga í nokkur skipti þar á undan. Tveimur mínútum síðar féll Mingi við í teignum, aftur eftir fyrirgjöf frá Halla og taldi að á sér hefði verið brotið en ekkert dæmt.

Þegar fimm mínútur voru til leikhlés kom seinna kjaftshöggið. Már náði ekki að fylgja eftir einum Víkingnum sem hljóp upp að endamörkum, sendi svo út í miðjan teiginn þar sem einn og óvaldaður Víkingur skoraði auðveldlega. Staðan orðin 2:0 fyrir þá svartklæddu og það sannast sagna í samræmi við gang leiksins.

Lúpulegir Framarar söfnuðust saman við veitingasölu Víkinga undir stúkunni og bjuggu sig undir það versta eftir hlé. Þunnur Lite-bjórinn í plastglösunum gerði lítið til að lappa upp á sálartetrið og til að bæta gráu oná svart stóð vatnsbuna niður úr þaki stúkunnar og beint niður á sætin í röðinni fyrir framan skytturnar þrjár. Þetta myndi aldrei gerast í Dal draumanna.

Mávur sem hafði haldið sig fjarri vellinum í fyrri hálfleik tók að gera sig mjög gildandi í þeim seinni. Þetta var augljóslega táknrænt og hann mættur til að fylgjast með Má nafna sínum, sem hafði einmitt átt mjög erfitt uppdráttar fyrir hlé en óx mjög af kröftum í seinni hálfleik. Hann var reyndar ekki einn um það. Mestallt Framliðið breyttist úr franskbrauði í pretzel á sama tíma og heimamenn nánast stimpluðu sig út. Víkingar sköpuðu sér varla færi ef undan er skilið eitt hörkuskot í hliðarnetið eftir tíu mínútna leik.

Spil Framara varð betra en færin létu þó bíða eftir sér. Eftir tæplega klukkutíma leik hafði þjálfarateymið líklega komist að þeirri niðurstöðu að Gummi væri orðinn þreyttur og að auki á gulu spjaldi og Viktor Bjarki var kominn úr gallanum og albúinn að koma inná. En áður en til þess kom átti Mingi sendingu fyrir Víkingsmarkið eftir harða sóknarlotu Framara, þar sem Gummi stökk upp og skallaði í markið af harðfylgi. Þjálfararnir voru fljótir að senda Viktor aftur í upphitunina… staðan 1:2.

Eftir þetta komu Framsóknirnar á færibandi. Már átti gott markskot á 61. mínútu og mínútu seinna greip Víkingsmarkvörðurinn boltann á síðustu stundu áður en sending frá Fred rataði fyrir fætur Gumma. Á næstu mínútum átti Kennie fínasta skot eftir undibúning Más og Gummi var nærri því að ná sendingu frá Fred. Víkingsþjálfaranum var ekki um sel sem sást á því að þegar hálfleikurinn var hálfnaður gerði hann þrefalda skiptingu. Hún breytti þó litlu um gang leiksins, Framarar höfðu undirtökin og markið virtist liggja í loftinu.

Viktor Bjarki kom að lokum inná þegar kortér var eftir, þá fyrir Minga. Halli tók aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig beint í kjölfarið og vildi meina að boltinn hefði farið í hönd eins Víkingsins í varnarveggnum, en ekkert dæmt. Þegar fimm mínútur voru eftir tók hjartað gleðikipp við að sjá Jannik aftur á leikvelli, þegar hann kom inná fyrir Tryggva. Ó, hvað við höfum saknað hans í sumar!

Á lokamínútunum átti Gummi bæði skot og skalla yfir markið og í blálokin negldi Tiago yfir slána úr prýðisfæri. Lokatölur 2:1 og Framarar misstu af upplögðu tækifæri til að blása nýju lífi í þetta Íslandsmót sem virðist eiginlega vera búið hvað toppbaráttuna varðar. Fram hefur nú yfirspilað Víkinga í þrjá hálfleiki af fjórum en ekki uppskorið neitt að launum. Lífið er táradalur og blendingsbrauð úr Bónus.

Stefán Pálsson

Share this post

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on email
Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!