Lög og reglugerðir


LÖG OG REGLUGERÐIR KNATTSPYRNUFÉLAGSINS FRAM

1. grein
Heiti og markmið

Félagið heitir Knattspyrnufélagið Fram. Aðsetur þess og varnarþing er í Reykjavík.

Markmið félagsins er að iðka allar þær íþróttir sem áhugi félagsmanna stendur til, aðstæður leyfa hverju sinni og falla að reglum ÍSÍ.

2. grein
Merki og búningur

Merki félagsins er skjaldmynd, fótknöttur á hvítum grunni, umritaður nafni félagsins í bláum stöfum.

Búningur félagsins er blá treyja, hvítar buxur og bláir og hvítir sokkar.

3. grein
Aðild að heildarsamtökum

Félagið er aðili að Íþróttasambandi Íslands (ÍSÍ) og sérsamböndum þess og Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) og sérráðum þess, eftir því sem við á hverju sinni, og er háð lögum þess og ákvörðunum

4. grein
Félagar

Meðlimir félagsins eru:

1. Heiðursfélagar, sbr. 13. grein,
2. Almennir félagsmenn sem skráðir eru hjá aðalstjórn.
3. Skráðir iðkendur í íþróttadeildum félagsins.

5. grein
Félags- og æfingagjöld

Aðalfundur aðalstjórnar ákveður lágmarks félagsgjald.

Heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda. Almennir félagsmenn sem eru á skrá hjá aðalstjórn greiða félagsgjald samkvæmt ákvörðun aðalstjórnar, sbr. 1. mgr. Stjórnir einstakra íþróttadeilda félagsins ákveða upphæð æfingagjalda iðkenda í íþróttadeildum og annast innheimtu þeirra.

6. grein
Skipulag félagsins

Iðkendur hverrar íþróttagreinar mynda fjárhagslega sjálfstæðar deildir innan félagsins. Hver íþróttadeild kýs sér stjórn, sem annast daglegan rekstur hennar. Að öðru leyti lúta deildirnar sameiginlegri aðalstjórn félagsins, sem er æðsti aðili í málefnum þess milli aðalfunda.Aðalstjórn félagsins skal láta gera skipurit um starfsemi félagsins, þar sem fram kemur skipulag félagsins og skal það staðfest á aðalfundi félagsins. Breytingar á skipuriti félagsins skulu staðfestar á aðalfundi félagsins.

Málefnum félagsins er stjórnað af:

1. aðalfundi félagsins,
2. aðalstjórn félagsins,
3. aðalfundum íþróttadeilda,
4. stjórnum íþróttadeilda.

7. grein
Aðalfundur félagsins, fundartími og fundarboðun

Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald og ákvörðunarrétt í öllum málum félagsins. Skal hann haldinn eigi síðar en 10. apríl ár hvert fyrir starfsárið þar á undan og skal boða til hans með opinberri auglýsingu með viku fyrirvara. Aðalfundur telst lögmætur, ef löglega er til hans boðað og mættur minnst helmingur atkvæðisbærra félaga.

Á aðalfundi félagsins ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála, utan breytinga á lögum félagsins, sem verða að samþykkjast af 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna.

Allar kosningar í trúnaðarstöður skulu vera skriflegar, nema aðeins sé stungið uppá jafnmörgum og kjósa skal og teljast þeir þá sjálfkjörnir. Séu atkvæði jöfn í stjórnarkjöri, skal kosið að nýju bundinni kostningu.

8. grein
Dagskrá aðalfundar félagsins

Dagskrá aðalfundar félagsins skal vera sem hér segir:

1. formaður félagsins setur fundinn,
2. kosinn fundarstjóri og fundarritari,
3. kosinn kjörbréfanefnd,
4. fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram til samþykktar,
5. formaður flytur skýrslu fráfarandi stjórnar,
6. gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins til samþykktar,
7. lagabreytingar,
8. kosning formanns,
9. kosning 4 meðstjórnenda, sbr. 12. grein,
10. kosning 3 manna í varastjórn,
11. kosning 2 endurskoðenda og 2 til vara, sem jafnframt eru endurskoðendur íþróttadeilda,
12. ákveðin lágmarks félagsgjald, sbr. 5. grein,
13. önnur mál, sem fram kunna að koma.

9. grein
Kjörgengi, atkvæðisréttur og tillöguréttur á aðalfundi félagsins

Allir félagsmenn 16 ára og eldri eru kjörgengir til stjórnarstarfa og hafa tillögurétt og málfrelsi á aðalfundi félagsins.

Fulltrúa á aðalfundi félagsins eiga allar starfandi deildir félagsins, sem aðalstjórn hefur samþykkt sem sérstakar deildir í félaginu. Komi upp ágreiningur um hvort deild er starfandi í félaginu, sker aðalstjórn úr um það.

Atkvæðisrétt á aðalfundi félagsins hafa eftirfarandi:
1. Aðalmenn og varamenn í aðalstjórn félagsins, sbr. 12. gr. laganna.
2. Fulltrúar einstakra deilda félagsins, sem deildirnar skipa á aðalfundi deilda eða með öðrum hætti.

Fjöldi fulltrúa einstakra deilda á aðalfundi ræðst af fjölda iðkenda hverrar deildar þann 1. janúar næst á undan aðalfundi, eins og það er skráð hjá aðalstjórn.

Hver starfandi deild félagsins á 4 fulltrúa á aðalfundi sem er lágmarksfjöldi fulltrúa hverrar deildar.

Til viðbótar geta deildir félagsins átt rétt á fleiri fulltrúum á aðalfund félagsins sem hér segir:
Fyrir fleiri skráða iðkendur er 50 á hver deild 2 fulltrúa á aðalfund til viðbótar eða alls 6 fulltrúa.
Fyrir fleiri skráða iðkendur er 100 á hver deild 4 fulltrúa á aðalfund til viðbótar eða alls 8 fulltrúa.
Fyrir fleiri skráða iðkendur er 200 á hver deild 8 fulltrúa á aðalfund til viðbótar eða alls 12 fulltrúa.

Í þessu sambandi teljast FRAM konur og fulltrúaráð deildir í félaginu og hafa því lágmarksfjölda fulltrúa á aðalfundi eða 4 fulltrúa.

Fjöldi fulltrúa á aðalfundi endurskoðast 1. janúar á hverju ári og miðast við fjölda skráðra iðkenda í deildum.

Frá deildum félagsins skulu tilnefndir jafn margir fulltrúar til vara.

Í upphafi aðalfundar skal liggja fyrir kjörbréf fulltrúa, sem hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.

Hver fulltrúi á aðalfundi hefur 1 atkvæði.

Þann 1. febrúar ár hvert skulu liggja fyrir upplýsingar um það hjá aðalstjórn hversu marga fulltrúa á næsta aðalfundi hver deild á rétt á.

10. grein
Aukaaðalfundur félagsins

Aukaaðalfund skal halda, ef aðalstjórn telur þess þörf, eða ósk berist frá a.m.k. helmingi íþróttadeilda félagsins. Aukaaðalfundur er lögmætur, ef til hans er boðað samkvæmt ákvæðum 7. og 9. greinar þessara laga. Aukaaðalfundur hefur sama vald og aðalfundur, nema lagabreytingar og stjórnarkosning getur ekki farið fram á aukaaðalfundi.

11. grein
Aðalstjórn, verkefni

Aðalstjórn félagsins ber að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Hún hefur umráðarétt yfir öllum eignum félagsins og markar stefnu þess í samráði við stjórnir íþróttadeilda. Aðalstjórn skal fylgjast með starfi íþróttadeilda og hafa eftirlit með fjárreiðum þeirra. Aðalstjórn skal skipa alla trúnaðarmenn félagsins aðra en fulltrúa í sérráð ÍBR., fulltrúa á aðalfundi sérráða ÍBR og ársþing sérsambanda ÍSÍ.

Kaup og sala fasteigna félagsins er bundin samþykki aðalfundar.

12. grein
Aðalstjórn, skipan og verkaskiping

Stjórn Knattspyrnufélagsins FRAM skal skipuð 5 mönnum sem kosnir eru á aðalfundi félagsins, og skiptist í formann stjórnar og 4 stjórnarmenn sem skipta með sér verkum varaformanns, gjaldkera, ritara og félagaskrárritara. Þá skulu vera 3 varamenn í stjórn.

Formaður stjórnar er kjörinn fyrst og er hann kjörinn til eins árs í senn.

Næst skal kjósa 2 stjórnarmenn og skulu þeir kjörnir til tveggja ára. Þeir sem flest atkvæði fá teljast réttkjörnir stjórnarmenn. Þeir tveir stjórnarmenn, sem kjörnir voru til tveggja ára á aðalfundi árið áður, sitja þannig áfram í stjórn.

Hafi einhverjir stjórnarmenn sagt af sér störfum á kjörtímabili, skulu nýjir stjórnarmenn kjörnir í þeirra stað á aðalfundi. Fjölgar þá ofangreindum aðilum sem kjörnir eru sem þeim nemur.

Þar næst skal kjósa 3 varamenn í stjórn og skulu þeir kjörnir til eins árs í senn. Þeir sem flest atkvæði fá teljast réttkjörnir varamenn.

Þeir sem eiga sæti í stjórnum íþróttadeilda og starfsmenn Knattspyrnufélagsins Fram, þar með taldir þjálfarar félagsins, eru ekki kjörgengir í aðalstjórn Fram.

Þeir sem eru stjórnarmenn, starfsmenn og þjálfarar annarra íþróttafélaga eru ekki kjörgengir í aðalstjórn Fram.

Framboð til aðalstjórnar Knattspyrnufélagsins FRAM skal liggja frammi viku fyrir aðalfund.

Formaður boðar til funda í aðalstjórn, þegar hann telur nauðsynlegt eða ef 2 stjórnarmenn óska þess. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á fundum aðalstjórnar, sbr. þó reglugerð um veitingu viðurkenningarmerkja.

13. grein
Heiðursfélagar

Aðalstjórn félagsins er heimilt að kjósa heiðursfélaga félagsins, og skal tillaga þar um hafa hlotið samþykki aðalfundar eða auka aðalfundar með atkvæðum 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna.

Heiðursfélagar skulu aldrei vera fleiri en 10 samtímis og skulu hafa náð 45 ára aldri. Heiður þessi er sá æðsti, sem félagið veitir, og skal honum fylgja Framkrossinn úr gulli.

14. grein
Viðurkenning, heiðursmerki

Aðalstjórn veitir viðurkenningu fyrir íþróttaárangur og störf í þágu félagsins eða íþróttahreyfingarinnar almennt, samkvæmt sérstakri reglugerð, sem samþykkt er á aðalfundi félagsins.

15. grein
Fulltrúaráð

Fulltrúaráð skal vera starfandi innan félagsins, samkvæmt sérstakri reglugerð, sem samþykkt er á aðalfundi félagsins.

16. grein
Framkonur

Hópur kvenna, Framkonur, starfar innan félagsins. Reglugerð Framkvenna skal staðfest á aðalfundi félagsins.

17. grein
Íþróttadeildir, verkefni

Hver íþróttadeild innan félagsins skal hafa sérstaka stjórn og eigin fjárhag. Skal deildin sjá um sig sjálf fjárhagslega og hafa tekjur af félags- og æfingagjöldum félagsmanna deildarinnar, af ágóða íþróttamóta, og öðrum fjáröflunum, sem hún tekur sér fyrir hendur í samráði við aðalstjórn félagsins. Allar meiriháttar fjárhagslegar ákvarðanir stjórna íþróttadeilda ber að leggja fyrir aðalstjórn til ákvörðunar. Stjórnir íþróttadeilda skulu hafa samráð við aðalstjórn og fá samþykki hennar til heimboða erlendra flokka og utanferðir flokka á vegum félagsins.

Hver íþróttadeild skal halda gjörðabók um keppni og annað markvert, sem fram fer innan deildarinnar. Í lok hvers starfsárs skal það sem markverðast er dregið saman og tekið upp í sameiginlegri skýrslu félagsins.

18. grein
Aðalfundir íþróttadeilda

Aðalfundir íþróttadeilda félagsins skulu haldnir fyrir 1.apríl ár hvert.

Allir skuldlausir félagsmenn viðkomandi deildar, 16 ára og eldri, hafa atkvæðisrétt og kjörgengi á aðalfundi hennar.

Til aðalfunda íþróttadeilda skal boðað með viku fyrirvara með opinberri auglýsingu og með auglýsingu í félagsheimili, og eru þeir lögmætir, ef löglega er til þeirra boðað og minnst 15 deildarmenn mæta á fundi eða helmingur af löglegum félögum, ef þeir eru færri en 30.

Dagskrá aðalfunda deilda skal vera sem hér segir:

1. formaður íþróttadeildar setur fundinn,
2. kosinn fundarstjóri og fundarritari,
3. formaður flytur skýrslu deildarstjórnar um starfsemi á liðnu starfsári,
4. gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga og gerir grein fyrir fjárhag deildarinnar,
5. kosin stjórn deildar, sbr. 19. grein:
a) formaður,
b) 4 eða 6 meðstjórnendur,
c) 3 menn í varastjórn,
6. kosnir fulltrúar og varafulltrúar á aðalfund félagsins, sbr. 8. grein,
7. önnur mál, sem fram kunna að koma.

Á aðalfundi íþróttadeildar ræður meirihluti atkvæða úrslitum allra mála. Kosning deildarstjórnar vera skrifleg, nema aðeins sé stungið uppá jafnmörgum og kjósa skal og teljast þeir þá sjálfkjörnir. Séu atkvæði jöfn í stjórnarkjöri, skal kosið að nýju bundinni kostningu.

Vanræki íþróttadeild að halda aðalfund, skal aðalstjórn félagsins boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.

19. grein
Stjórn íþróttadeildar

Stjórn íþróttadeildar skal skipuð 7 mönnum sem kosnir eru á aðalfundi deildarinnar, og skiptist í formann stjórnar og 6 stjórnarmenn sem skipta með sér verkum varaformanns, ritara, gjaldkera og meðstjórnenda. Þá skulu vera 3 varamenn í stjórn.

Formaður stjórnar er kjörinn fyrst og er hann kjörinn til eins árs í senn.

Næst skal kjósa 3 stjórnarmenn og skulu þeir kjörnir til tveggja ára. Þeir sem flest atkvæði fá teljast réttkjörnir stjórnarmenn. Þeir þrír stjórnamenn, sem kjörnir voru til tveggja ára á aðalfundi árið áður sitja þannig áfram í stjórn.

Hafi einhverjir stjórnarmenn sagt af sér störfum á kjörtímabili, skulu nýjir stjórnarmenn kjörnir í þeirra stað á aðalfundi. Fjölgar þá ofangreindum aðilum sem kjörnir eru sem þeim nemur.

Þar næst skal kjósa 3 varamenn í stjórn og skulu þeir kjörnir til eins árs í senn. Þeir sem flest atkvæði fá teljast réttkjörnir varamenn.

Auk þess á sæti í stjórn íþróttadeilda formaður unglingaráðs íþróttadeildar.

Þeir sem eru starfsmenn Knattspyrnufélagsins Fram, þar með taldir þjálfarar félagsins með fleiri en 200 iðkendur, eru ekki kjörgengir í stjórn íþróttadeildar. Þetta á þó ekki við um unglingaráð íþróttadeilda.

Þeir sem eru stjórnarmenn annarra íþróttafélaga eru ekki kjörgengir í stjórn íþróttadeilda.

Stjórnir íþróttadeilda skipa fulltrúa félagsins í sérráð ÍBR, á aðalfundi sérráða ÍBR og á fundi sérsambanda ÍSÍ.

Stjórnir íþróttadeilda skulu hver á sínu sviði vinna að eflingu sinnar íþróttadeildar.

Formaður íþróttadeildar boðar til funda stjórn íþróttadeildarinnar þegar hann telur nauðsynlegt eða ef 3 stjórnarmenn óska þess. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á fundum stjórnar íþróttadeilda.

20. grein.
Stofnun nýrra íþróttadeilda

Komi fram óskir meðal félagsmanna um stofnun nýrra íþróttadeilda innan félagsins, skal aðalstjórn félagsins taka þær til athugunar og leggja fyrir næsta aðalfund félagsins. Samþykki aðalfundur stofnun nýrrar íþróttadeildar, skal aðalstjórn félagsins sjá um undirbúning að stofnfundi samkvæmt ákvæðum laga þessara um aðalfundi íþróttadeilda.

21. grein
Reikningsár.

Reikningsár félagsins og íþróttadeilda þess er almannaksárið og skulu allir reikningar vera komnir til endurskoðenda félagsins eigi síðar en 6 dögum fyrir aðalfund.

22. grein
Félagatal

Sérhver íþróttadeild skal halda skrá yfir félagsmenn deildarinnar og er íþróttadeildum skylt að senda aðalstjórn félagatal árlega með reikningum deildarinnar. Fulltrúaráð og Framkonur skulu einnig halda félagatal. Félagsmenn utan íþróttadeildanna skulu skráðir á sérstakt félagatal, sem aðalstjórn heldur.

23. grein
Eignir félagsins og deilda

Eignir íþróttadeilda eru sameign félagsins. Hætti íþróttadeild starfsemi, tekur aðalstórn við eignum hennar og taki deildin ekki upp starfsemi að nýju innan
5 ára, renna eignir hennar í aðalsjóð félagsins.

24. grein
Lagabreytingar

Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi, og þarf til þess samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra fundamanna.

Tillögur til breytinga skulu tilkynntar með aðalfundarboðinu og skulu þær liggja frammi hjá aðalstjórn félagsins eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund félagsins. Heimilt er þó að taka fyrir á aðalfundi tillögur til breytinga á lögum, sem síðar koma fram, ef 2/3 hlutar atkvæðisbærra fundarmanna heimila.

25. grein
Gildistaka
Lög þessi öðlast þegar gildi og eru jafnframt úr gildi fallin eldri lög félagsins.
Lögin eru hér eins og þau voru samþykkt á framhaldsaðalfundi félagsins með áorðnum breytingum frá aðalfundi félagsins 29. nóv. 1978, ásamt frekari breytingum, seinast samþykktum á aðalfundi félagsins 24 október 1994, ásamt breytingum gerðum á aðalfundi félagsins 31. maí 2005. Samþykkt 26. maí 2010. Lögum breytt á aðalfundi FRAM 23. apríl 2014. Lögum breytt á aðalfundi FRAM 8. apríl 2015.

Reglugerð um fulltrúaráð Knattspyrnufélagsins Fram

1. grein
Tilgangur fulltrúaráðs er:

a) að vinna að því að viðhalda kynnum milli eldri félaga og vernda tengsl þeirra viið félagið,
b) að aðstoða félagsstjórnina við að ráða fram úr erfiðum viðfangsefnum,
c) að vinna að þeim öðrum verkefnum, sem til greind eru í þessari reglugerð eða falin fulltrúaráðinu af aðalstjórn.

2. grein

Félagar í fulltrúaráðinu geta þeir félagsmenn Fram orðið, sem orðnir eru 30 ára og hlotið samþykki stjórnar fulltrúaráðsins. Formaður félagsins, formenn íþróttadeilda og formaður Framkvenna eru sjálfkjörnir í fulltrúaráðið.

3. grein

Fundi skal halda eins oft og þurfa þykir. Fundi skal boða bréflega, í fréttabréfi eða með auglýsingu og geta fundarefnis, ef unnt er.

Halda skal gerðabók yfir starfsemi fulltrúaráðsins.

4. grein

Á fyrsta fundi fulltrúaráðsins eftir hvern aðalfund félagsins skal kjósa 5 manna stjórn. Formaður skal kosinn sérstaklega, að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum.

Fulltrúar fulltrúaráðs á aðalfund félagsins skulu kjörnir á löglega boðuðum fundi fulltrúaráðs.

5. grein

Stjórn fulltrúaráðsins skal halda félagaskrá. Stjórn fulltrúaráðsins getur einnig komið á fót styrktarmannakerfi í samráði við aðalstjórn félagsins.

6. grein

Aðalstjórn Fram skal ávallt kynna fulltrúaráðinu öll meiriháttar áform stjórnarinnar, sérstaklega allt það sem hefur eða getur haft verulega fjárhagslega þýðingu, svo sem byggingarframkvæmdir og kaup eða sölu fasteigna félagsins.

7. grein

Reglugerð þessari má aðeins breyta á aðalfundi félagsins og þarf 2/3 hluta atkvæða fyrir breytingu.
Þannig breytt og samþykkt á aðalfundi Knattspyrnufélagsins Fram 24. október 1994.

Reglugerð fyrir Framkonur

1. grein

Framkonur er hópur kvenna innan Knattspyrnufélagssins Fram, sem hefur það að markmiði að viðhalda kynnum milli eldri félaga og vernda tengsl þeirra við Fram og vinna að framgangi hagsmunamála félagsins.

2. grein

Félagar geta þær orðið, sem æskja þess og hljóta samþykki meirihluta stjórnar Framkvenna.

3. grein

Framkonur kjósa sér stjórn og hafa aðskilinn fjárhag. Stjórnin skal kjörin á fyrsta fundi eftir aðalfund félagsins og skipa hana 5 konur og 3 til vara. Formaður skal kjörinn sérstaklega, en að öðru leyti skipti stjórnin sjálf með sér verkum.

Reikningar Framkvenna skulu lagðir fram endurskoðaðir á aðalfundi félagsins ásamt reikningum aðalstjórnar. Allar meiriháttar fjárhagslegar ákvarðanir skal leggja fyrir aðalstjórn til staðfestingar.

4. grein

Almenna fundi Framkvenna skal halda eins oft og þurfa þykir, þó ekki sjaldnar en ársfjórðungslega.

Halda skal gjörðabók yfir starfsemina og í lok hvers starfsárs dregið saman það, sem markverðast er talið og send um það skýrsla til aðalstjórnar.

5. grein

Framkonur kjósa á aðalfundi sínum fulltrúa á aðalfund félagsins og jafn marga til vara, í samræmi við 9. gr. laga knattspyrnufélagsins FRAM.

Þannig breytt og samþykkt á aðalfundi Knattspyrnufélagsins Fram 26 október 1994. Breytt 26. maí. 2010.

Reglugerð um veitingu viðurkenningarmerkja Knattspyrnufélagsins Fram.

1. grein

Stjórn félagsins getur við hátíðleg tækifæri eða þegar sérstök ástæða þykir til, veitt viðurkenningarmerki fyrir íþróttaárangur og störf í þágu félagsins eða íþróttahreyfingarinnar almennt, sbr. 14. grein laga félagsins.

Um Framkrossinn úr gulli gilda þó sérstök ákvæði í 13. grein laga félagsins um heiðursfélaga. Útnefning heiðursfélaga skal samþykkt af aðalfundi félagsins eða aukaaðalfundi.

2. grein

Viðurkenningarmerki félagsins eru eftirtalin:

1. Framkrossinn úr gulli fylgir útnefningu heiðursfélaga.

2. Framkrossinn úr silfri veitist fyrir 20 ára frábært starf eða keppni fyrir félagið .

3. Gullmerki Fram veitist fyrir 15 ára starf eða keppni fyrir félagið.

4. Silfurmerki Fram veitist fyrir 10 ára starf eða keppni fyrir félagið. Auk þess er stjórn heimilt að veita merkið þegar hún telur sérstaka ástæðu til heiðrunar.

5. Frammerki í gylltum krans veitist sigurvegurum Íslandsmóts í meistaraflokki, sem og einstaklingum/liðum sem að vinna til gullverðlauna á norðurlanda-,evrópu-, heimsmeistaramóti og ólympíuleikum.

6. Fánastöng Fram er heimilt að gefa félögum og einstaklingum við hátíðleg tækifæri eða merkisafmæli.

3. grein

Starfs- og keppnisaldur miðast við 19 ára aldur. Við mat á starfi er heimilt að taka tillit til virkni og ábyrgðar við stjórnarstörf þannig að hvert starfsár metist tvöfallt.

4. grein

Framkross úr silfri og gullmerki Fram veitist því aðeins, að viðkomandi hafi áður fengið viðurkenningarmerki af næstu gráðu fyrir neðan. Undantekning er því aðeins heimil, að viðurkenning hljóti einróma samþykki stjórnar.

5. grein

Við ákvörðun um veitingu viðurkenningarmerkja nægir einfaldur meirihluti innan stjórnar, sbr. þó 4. grein reglugerðarinnar. Framkross úr silfri má þó aðeins veita með samhljóða atkvæðum.

Þannig staðfest á aðalfundi knattspyrnufélagsins Fram 24 október 1994, ásamt breytingum samþykktum á aðalfundi Knattspyrnufélagsins FRAM 3. september 2002. Þannig breytt og samþykkt á aðalfundi Knattspyrnufélagsins Fram 8. apríl 2015.