Um blakdeild FRAM

Blakdeild FRAM var formlega stofnuð í maí 2022. Blak var áður stundað hjá FRAM á árunum 1978 til 1991, en var endurvakið af blak áhugafólki í Úlfarsárdal og Grafarholti árið 2016 og var þá undir Almenningsdeild FRAM en samþykkt var á aðalfundi stjórnar 2022 að blakdeildin yrði sjálfstæð deild.

Í fyrstu fóru æfingar fram í Ingunnar- og Sæmundarskóla en með opnun nýs íþróttahúss FRAM í Úlfarsárdalnum vorið 2022 færðust æfingar þar yfir og þar með aðstaðan öll betri. Skipulagðar blakæfingar eru tvisvar í viku og hefur hópurinn stækkað töluvert.

Allt frá fyrsta ári höfum við sent lið á Öldungarmót BLÍ (iðkendur 30 ára og eldri) og frá árinu 2020 hefur FRAM átt lið á Íslandsmóti í blaki. Fyrst eitt kvennalið og svo karlalið strax árið eftir. Nú eru tvö kvennalið og eitt karlalið að taka þátt í mótinu en spilaðar eru þrjár umferðir um allt land.

Blakdeildin er dugleg að brjóta upp æfingarrútínuna t.d. með því að fara á hraðmót og spila æfingaleiki við nágranna félög. Jólaspilið hefur einnig verið fastur viðburður þar sem öll liðin hittast og spila undir dynjandi jólatónlist.