Kópavogsfundurinn var haldinn sumarið 1662 á þeim slóðum þar sem vestari vítateigur Kópavogsvallar er í dag. Þar lét harðdrægur hirðstjóri danska konungsvaldsins íslenska þingmenn undirgangast einveldi konungs. Gamall maður felldi tár, ef marka má þjóðernissinnaðar kennslubækur sjálfstæðisbaráttunnar. Endurskoðunarsinnaðir sagnfræðingar bentu þó síðar á að heimildir fyrir tárfellingum og volæði á Kópavogsfundi stæðu á veikum sagnfræðilegum grunni. Þvert á móti hafi flugeldum verið skotið á loft af þessu tilefni. Hvað sem þessum meiningarmun líður eru flestir sammála um þá niðurstöðu að Kópavogsfundurinn hafi sökkað feitt. Hann hafi jafnvel sökkað feitast af öllum atburðum á stór-Kársnessvæðinu þar til að ódýr vítaspyrna rændi Framara tveimur af þremur stigum á dramatísku júníkvöldi árið 2025. Þetta er frásögnin af því.
Það var mikill spenningur fyrir leik Íslandsmeistara sumarsins 2024 og Evrópumeistara bikarhafa 2026 í Kópavoginum í kvöld. Fréttaritarinn, hálfsteiktur í kollinum eftir maraþonfundi í allan dag, þáði far frá Skjaldsveininum á völlinn. Hann kom á bensínskrímslinu sem bræðir heilu jöklana við það eitt að kveikt sé á útvapinu. Þeir fundu stæði á vísum stað við Fífuhvammsveginn og röltu þaðan á völlinn til fundar við Rabba trymbil sem var mættur á hjóli.
Blikar eru höfðingjar heim að sækja. Aðstaðan bak við stúkuna er til fyrirmyndar og veitingasalan prýðileg. Það var hugur í Frömurum enda gengur ágætlega úti á vellinum um þessar mundir. Fram hefur gott tak á Blikum og hefur oft þjarmað vel að þeim síðustu misserin.
Byrjunarliðið var svipað og í bikarsigrinum í Mosó með þeirri undantekningu að Freyr byrjaði inná fyrir Má og Þorri fyrir Israel. Liðsuppstillingin var því á þessa leið: Viktor í marki. Þorry, Kyle og Sigurjón í öftustu varnarlínu. Halli og Kennie í bakvörðum. Freyr, Simon og Fred á miðjunni. Róbert og Vuk frammi.
Skytturnar þrjár fengu sér sæti Frammegin í stúkunni. Blikinn Gylfi Steinn, þjáningarbróðir fréttaritarans í Luton-stuðningi, ákvað að svíkja lit og sitja með hópnum. Ívar Guðjónsson kom þegar nokkuð var liðið á leik og sat milli hópsins og mömmu sinnar. Í röðinni fyrir aftan var bland í poka af íslensku bókmenntaelítunni og Coventry-stuðningingsmönnum. Haukur, pabbi Róberts, sat tveimur bekkjum framar og lét ófriðlega.
Grænklæddir komu ákveðnari til leiks og pressuðu talsvert fyrsta kortérið. Framvörnin kvikaði hins vegar hvergi og strax í upphafi kom í ljós að þeir Sigurjón og Þorri ætluðu hvergi að láta sig. Þeir voru báðir frábærir í leiknum og slást um titilinn maður leiksins. Eftir nokkra ágjöf í byrjun fóru okkar menn að fikra sig framar. Fyrsta alvöru sóknarlotan kom á fimmtándu mínútu þegar Fred komst í álitlegt færi en langskot hans fór beint á markvörð UBK. (Skammstöfunin UBK er einungis notuð í þessum pistli hér og síðar í ljósi þess að hún fer einhverra hluta vegna óstjórnlega í taugarnar á Blikum).
Um miðbik hálfleiksins komu nokkrar góðar sóknarlotur Fram í röð. Róbert saumaði að markverði UBK (Hah! Ég gerði það aftur!) og var nærri því að vinna boltann í dauðafæri. Kennie og Þorri léku saman og sá fyrrnefndi skaut naumlega framhjá og efnileg sóknarlota þeirra Freys, Vuk og Halla fjaraði að lokum út. Langbesta færið leit þó dagsins ljós á 27. mínútu þegar Freyr skaut hátt yfir úr gullnu færi eftir fínan undirbúning Halla og Vuk. Á lokamínútu fyrri hálfleiks átti UBK-markvörðurinn (þetta hættir ekki að vera fyndið!) stórkostlega vörslu þegar Kennie skallaði alveg úti við stöng.
Flautað var til hálfleiks og Framarar gátu með nokkrum rétti talið sig betra liðið fyrir hlé. Jújú, auðvitað höfðu Blikar átt sín færi þótt þau hafi ekki ratað inn í þessa skýrslu. Þau sem kynnu að hafa áhuga á að lesa um slíkt geta bara farið inn á heimasíðu Breiðabliks og lesið greinargerð Péturs Más – erkikeppinauts Fréttaritarans á sviði fótboltalýsinga á heimasíðum knattspyrnufélaga með nördalegum bókmennta- og sagnfræðivísunum.
Seinni hálfleikur hófst með sömu látum og sá fyrri hafði endað. Framarar voru einbeittari og eftir fjögurra mínútna leik lá boltinn í Blikamarkinu eftir frábæra skyndisókn. Freyr átti góða sendingu á Kennie sem geystist af stað – sendi síðan á Vuk sem renndi boltanum í netið – enn eitt markið frá okkar uppáhalds manni úr Hóla- og Fellahverfi!
Tveimur mínútum síðar kom færi aldarinnar – þar sem Halli sendi inn á Frey sem slapp einn í gegn en þrumaði í þverslána – þar hrökk boltinn til Róberts sem náði einhvern veginn að sópa honum yfir markið úr opnu færi. Í fyrsta sinn í sögunni hefur ein og sama sóknin mælst með 2 í xG…
„Nákvæmlega hvaða stöðu er Kennie að spila núna?“ – spurði undrandi Fréttaritarinn sessunauta sína. Enginn gat svarað spurningunni. Líklega væri hann Messi Framliðsins – léki þar sem honum þóknaðist: bakvörður án varnarskyldna? Af hverju ekki?
Simon og Þorri gerðu góða atlögu að því að tvöfalda forystuna eftir rétt tæplega klukkutíma leik, en skot þess síðarnefnda var varið. Við þetta urðu þó ákveðin skil í leiknum. Blikarnir náðu sláarskoti strax á næstu mínútu (utanverð sláin – þó vel að merkja!) og upp úr því tóku Framarar að draga sig verulega aftur á völlinn.
Már kom inná fyrir Róbert á 70 mínútu, en verulega var þá farið að draga af framherjanum. Það voru þó fleiri þreyttir og furðu snemma í leiknum voru menn farnir að leggjast með krampa – til marks um öll hlaupin og hátt tempó. Á 82. mínútu lagðist Freyr, sem var gríðarlega mikilvægur í kvöld og stóð sig eins og hetja. Israel kom inná fyrir hann og Mingi fyrir Vuk. Fred var kominn að fótum fram en þurfti þó að berjast til loka.
Tíminn leið og Blikar virtust aldrei sérstaklega líklegir til að jafna metin þrátt fyrir að vera með boltann megnið af tímanum. En á 88. mínútu reið ógæfan yfir. Eftir mikinn darraðardans við Frammarkið, þar sem skotið var í stöng og bjargað á línu barst boltinn út í teiginn þar sem sóknarmaður Blika sparkaði í sjálfan sig og féll til jarðar. Dómarinn flautaði víti – sem var augljóst rugl. Úr því kom jöfnunarmark, sem blés markaskorara UBK (hah!) slíkt kapp í kinn að hann ákvað í kjölfarið að hrinda Viktori markverði og uppskar fyrir vikið rautt spjald. Í kjölfarið hrinti hann skapstillingarmanninum Kyle sem var rekinn útaf fyrir vikið. Réttarmorð er hugtak sem nær engan veginn yfir atburði þessara mínútna.
Í uppbótartímanum kom Arnar Daníel Aðalsteinsson inná í sínum fyrsta leik fyrir Fram og er honum óskað til hamingju með það. Lokatölurnar urðu hins vegar 1:1 jafntefli, sem hefði kannski þótt ásættanlegt fyrir leik en er afar frústrerandi í ljósi þess sem á undan var gengið. Framliðið má hins vegar bera höfuðið hátt. Flestir áttu góðan leik. Við erum lið sem allir eru smeykir við að mæta og erum alltaf ógnandi í skyndisóknum. Nú er bara að landa sigri gegn Eyjamönnum á sunnudag. Sjáumst í Dal draumanna!
Stefán Pálsson