Undirritaður var fyrir fram með böggum hildar þar sem hefðbundnu meðreiðarsveinarnir voru ekki á staðnum fyrir leik. Sefán Pálsson hafði bókað ferð til Lissabon eins og kjáni til þess eins að bráðna eins og smjér í hitabylgju (maðurinn sem rífur sig úr að ofan í 14°C til þess eins að skapa íþróttamynd ársins) og Rabbi trymbill var staddur í Ásbyrgi að njóta Núpasveitarinnar sem er fallegasta sveit landsins (STAÐFEST).
Undirritaður fór því á Fésbókina og tók stöðuna á Kristjáni Frey á Rás2 og Halsa úr Fellsmúlanum. Var því úr að Halsi (Kanslarinn) tók að sér akstur og við bættust fleiri félagar úr Fellsmúlanum, Þórður og bróðir hans. Því miður var ekki pláss fyrir pabbann úr Iðnaðarbankanum við Háaleitisbraut, sem var alltaf með á nótunum, bæði bankinn og pabbinn.
Ferðin gekk vel og var nokkuð straumþungt í göngunum. Er á Skagann var komið tók við rjómablíða þar sem trúbator skemmti vallargestum fyrir leik með helstu standördum, var hann í svo góðum gír að hann hætti ekki fyrr en leikurinn var hafinn. Skagamenn voru greinilega ekki að stressa sig um of á nýlegum sektum lögreglunnar í Garðabæ vegna litebjórssölu, heldur var boðið upp á 3 léttbjórstegundir, áðurnefndur Gull lite, Boli-X og Guinness í dós – allt fyrir fyrirmyndar og rúmlega það.
Skagamenn voru brattir fyrir leik enda komnir með nýjan þjálfara sem byrjaði vel með sigri á Vestra. Reyndar virðast allir geta unnið Vestra um þessar mundir en við skulum ekki fara að hætta okkur út á það svell, það er jú bikarleikur næstu helgi…
Nokkuð úrval Frammara var mætt í sólina, Þorbjörn Atli ásamt betri helming, Binni bróðir Benna Hjartar, Stefán Freyr, foreldrar Halla og svo mætti lengi telja. Þau sem mættu með sólgleraugu og sólarvörn fóru í brekkuna á móti sól, þau sem klikkuðu á öðru hvoru eða hvorutveggja fóru í stúkuna undir súð. Game on.
Undirritaður skrifaði um fyrri leik liðanna, þar sem Stefán var enn einusinni erlendis, í það skiptið þóttist hann vera að flýja yfirvofandi fimmtugsafmæli, en núna er hann bara að tana og fylgjast með yngri syninum í knattleik í uppsveitum Lissabon. Hann tók því leikinn á strandbar – sem er eins rangt og hugsast getur, en við tökum viljann fyrir verkið.
Byrjunarliðið var sterkt og kom nokkuð á óvart. Halli kom inn eftir bann í síðasta leik en Kyle var settur á tréverkið (líklega úr plasti samt) eftir bann fyrir að taka á lurginn á trylltum Blika og forða honum frá sjálfskaða. Viktor í markinu að venju, Sigurjón fyrir miðju varnar með Þorra og Halla öðru megin og Kennie og Má hinumegin. Miðjan var stutt í loftinu en öflug, Freyr, Fred og Simon og svo Vuk og Róbert frammi. Þrír í þessu liði áttu það á hættu að vera vélaðir í keppnina rauðhærðasti Íslendingurinn sem haldinn var í tengslum við Írska daga á Akranesi þessa helgi – en þeir sluppu.
Leikurinn byrjaði vel fyrir Fram – Freyr fékk fínt færi áður en Vuk skoraði úr horni eftir skalla frá Kennie. Ég man hreinlega ekki hvenær við skorðum síðast úr horni – hugsanlega á móti Val í fyrra. Markapelinn á loft og allt í standi. Næsta korterið var áfram einstefna þar sem Skagamarkmaðurinn varði eða menn voru ekki að hitta á rammann. Freyr og Mási fengu báðir góð færi en Skagamarkmaðurinn varði nokkuð vel í báðum tilfellum. Einn bezti hálfleikur sem við höfum átt í sumar og það á loðnu grasi.
Í hléi var fátt eitt að gera en bera höfuðið hátt, gera gys að heimamönnum undir rós án þess að vera laminn og fara á lite-barinn. Var það úr að fara í Guinness í bauk – með það plan að ná bauknum í stúkuna og gæða sér á honum þar í seinni hálfleik. Þetta plan gekk fullkomlega upp, allt þar til að Kristjáni Frey mislíkaði störf dómarans og helti niður sínum bauk. Reyndar voru allir brjálaðir þar sem Vuk var fyrir opnu marki en hangið var í honum þannig að hann náði ekki til knattarins. Dómarinn vissi uppá sig sökina og skipti sér sjáfum út af eftir þetta atvik og skuldar hann Kristjáni Frey einn Guinness.
Eftir þetta náðu Skagamenn aðeins að bíta frá sér og þurfti Viktor að verja, eitt skiptið með fótunum eftir að vera lagður af stað í hitt hornið. Svo settu þeir hann í slánna og svo hátt yfir út ákjósanlegu færi. Þegar þarna var komið við sögu var hent í þrefalda skiptingu þar sem Israel, Mingi og Kyle komu inná fyrir Halla, Róbert og Má. Þessi skipting svínvirkaði og gerist ekkert í leiknum eftir þetta – þrátt fyrir að varadómarinn hafi bætt við 9 mínútum sem flestar voru tilkomnar vegna skiptingar dómara.
Niðurstaðan var geggjaður sigur – siggisagga tekinn við báðar stúkur. Allir sáttir þar til í ljós kom að sjálfsögðu lokar safabúðin kl 16 á Skaganum á Írskum dögum. Þar var því brennt í bæinn og tekið neyðarstopp í Mosó þar sem allt er opið til kl. 18 – hvernig er hægt að mismuna sveitafélögum svona?
Allir góðir í dag – vörnin þétt, miðjan hreyfanleg og sóknin nokkuð beitt. Best að fara að leggja inn heimavið fyrir næstu helgi, því Vestur vil ég…
Skjaldsveinninn V. Norðri