fbpx
Þorri gegn ÍA

Drengirnir hans Skúla

Þann átjánda ágúst árið 1786 gáfu dönsk stjórnvöld út tilkynningu um kaupstaðaréttindi sex staða á Íslandi. Tilskipunin reyndist óþarflega metnaðarfull. Fimm af sex stöðum reyndust ekki standa undir stimplinum og misstu réttindin einn á fætur öðrum. Einungis Reykjavík, sem hafði fengið vaxtarsprautu vegna stofnunar – að mörgu leyti misráðinna – „Innréttinga“, iðnfyrirtækis sem laut stjórn Skúla Magnússonar landfógeta, reyndist lífvænlegur þéttbýliskjarni. Skúli fógeti hefur því verið kallaður „faðir Reykjavíkur“ og átjándi ágúst talist afmælisdagur höfuðstaðarins.

Það var vel til fundið af mótanefnd KSÍ að velja þennan dag fyrir stærsta Reykjavíkurslaginn af þeim öllum, Fram á móti KR. Það var sömuleiðis vel til fundið af stjórnendum Fram að gera viðureignina að styrktarleik fyrir minningarsjóð Bryndísar Klöru í viku kærleikans, þar sem Framarar mættu til leiks í sérhönnuðum dökkgráum treyjum með bleikum tónum og söluhagnaðurinn af treyjunni og miðasölunni rann í sjóðinn. Vel gert!

Fréttaritari Framsíðunnar tók daginn snemma og fór með strætó númer 18 í Dal draumanna. Þar var fínumannapartýið rétt að skríða í gang og hann náði rétt að spjalla við Sigga Tomm og Garðar bílstjóra áður en Rúnar þjálfari mætti og tilkynnti byrjunarliðið. Þar vantaði bæði Kennie, sem var í leikbanni og Vuk, sem er meiddur – auk þess sem Gummi Magg er róinn á önnur mið til loka tímabilsins til að halda merkjum Íslands á lofti í framrúðubikar Evrópu.

Liðið var svona skipað: Viktor í marki. Kyle, Sigurjón og Þorri í miðvörðum. Halli og Már í vængbakvörðum. Freyr, Simon og Fred á miðjunni. Róbert og Byström frammi. Eftir að hafa fengið byrjunarliðið staðfest og haft upp á Skjaldsveininum, sem var snúinn heim úr hundruðustu sólarlandaferðinni, lá leiðin í almenninginn í Bar-8unni. Þar var stríður straumur stuðningsmanna beggja liða í gúrmet-hamborgara og lapþunnan Lite af krana – allt eins og það á að vera.

Það leið að leikbyrjun og rétt þótti að reyna að finna sér pláss í stúkunni, sem var ekki heiglum hent enda áhorfendur í kvöld rúmlega 1.600 talsins. Þó tókst að finna fjögur laus sæti við miðlínuna, fyrir fréttaritara, skjaldsvein, Rabba trymbil og annan soninn – rétt við hliðina á mömmu Guðjónssona. Í röðinni fyrir aftan höfðu tveir KR-ingar plantað sér í miðjum Framhópnum. Annar þeirra reyndist vera Mikael Nikulásson, gamall skólafélagi fréttaritarans, sem var því látinn óáreittur og fæst nafngreindur þrátt fyrir að vera KR-ingur. Og talandi um KR-inga, þeir leika um þessar mundir í hvítum stuttbuxum sem er stórskrítið og óviðeigandi.

Þau sem bjuggust við að fyrri hálfleikur viðureignarinnar yrði glæst fórn á altari knattspyrnugyðjunnar urðu væntanlega fyrir sárum vonbrigðum. Afar lítið bar til tíðinda. Freyr átti reyndar sendingu á Róbert eftir rúmar fimm mínútur sem endaði með skoti í hliðarnetið, en að öðru leyti gerðist nánast ekki neitt. Kyle var kippt niður með nokkuð augljósu peysutogi í vítateign KR eftir tæpar tuttugu mínútur en ekkert var dæmt, af dómara sem var staðráðinn í að leyfa báðum liðum að leika býsna fast.

Eftir hálftíma áttu Framarar flotta rispu upp kantinn, þar sem Halli sendi fyrir og Byström stökk upp og skoraði með skalla – hann var hins vegar flaggaður rangstæður – og það ekki í fyrsta eða síðasta sinn í leiknum. Tveimur mínútum síðar fengu KR-ingar aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig Fram. Spyrnan virtist ekkert sérstök en Viktor náði hvorki að grípa hana né slá út fyrir, heldur hrökk hún beint fyrir fætur KR-ings sem skoraði auðveldlega, 0:1.

Fram að markinu höfðu Framarar verið meðvitundarlitlir en þeir vöknuðu aðeins til lífsins undir lok hálfleiksins. Simon átti flotta sendingu sem Róbert var nærri því að skora úr á 44. mínútu og rétt í kjölfarið vildi Byström fá víti eftir útistöður við einn Vesturbæinginn. Á lokamínútu hálfleiksins á Byström svo skalla yfir úr kjörfæri eftir góðan undibúning Halla.

Seinni hálfleikur byrjaði álíka rólega og sá fyrri endaði. Hvorugt liðið sótti að ráði né var líklegt til að skora. Fyrsta alvöru lífsmarkið okkar megin var eftir um klukkutíma leik þegar Fred tók bylmingsskot af löngu færi en markvörður KR greip auðveldlega.

Eftir þetta tóku Framarar völdin á vellinum á meðan gestirnir drógu sig til bara. Halli tók aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig sem Þorri skallaði naumlega framhjá. Skömmu síðar átti Róbert, sem var gríðarlega öflugur og leitandi í dag, góða rispu upp völlinn en gestirnir björguðu í horn á síðustu stundu. Róbert komst í dauðafæri á 69. mínútu en rangstöðuflaggið fór á loft.

Enn komst Róbert einn í gegn þegar kortér var eftir af venjulegum leiktíma, en einn KR-ingurinn bjargaði með stórkostlegri tæklingu. Pirringsstigið hjá Frömurum á pöllunum fór vaxandi – ætlaði okkur virkilega ekki að takast að skora þrátt fyrir þessar sóknarlotur?

Fyrsta skipting Rúnars og félaga kom á 82. mínútu þar sem Tryggvi og Israel komu inná fyrir Frey og Þorra. Þremur mínútum síðar kom Alex inná fyrir Má.

Sjö mínútum var bætt við leikinn og Fram hélt áfram að sækja, þótt undarlegt væri að sjá engan leikmann liggja frammi á 95. mínútu þegar mótherjarnir fengu aukaspyrnu. Síðasta hálffærið kom svo á lokamínútunni en endaði í rangstöðu eins og skuggalega margar sóknir í leiknum.

Niðurstaðan: svekkjandi tap gegn slöku KR-liði og nánast óskiljanlegt að okkur hafi ekki tekist að skora í seinni hálfleik eftir sannarlega mjög dapran fyrri hálfleik.
Næstu þrír leikir eru hreinir úrslitaleikir og ekki annað í boði en að fá að minnsta kosti sex stig. Næsta stopp Akureyri – en fyrst mætum við öll á stelpurnar á móti Víkingum á miðvikudag.

Stefán Pálsson

Share this post

Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!