fbpx
Mfl.kv. II

Guli miðinn

Guli miðinn

Dagurinn byrjaði frábærlega hjá fréttaritara Framsíðunnar, þar sem hann ók á sínum ljósbláa Volkswagen Golf í útibú Aðalskoðunar í Skeifunni. Hann var vart fyrr kominn inn á gólf og búinn að skenkja sér kaffi í fingurbjörg úr pappa en starfsmaður skoðunarfyrirtækisins birtist í gættinni og tilkynnti að skoðun væri lokið. Gulur 26-miði var kominn á númeraplötuna. Maðurinn sem einatt hefur átt druslur og skrjóða – lávarður endurskoðunarmiðanna – var kominn með athugasemdalausa skoðun í fyrstu tilraun. Yrði þetta upphafið að einhverju miklu að stærra? (Höskuldarviðvörun: þetta reyndust einu góðu fréttir dagsins.)

Fréttaritarinn, ekki hugsandi – heldur glaður yfir báðum gulu miðunum, mætti í Lambhagasalatskálina rétt rúmlega 17. Ef til vill aðeins of tímanlega – þessi skringilegi leiktími kl. 18 í Bestu deild kvenna er ekki auðveldur og sjálfboðaliðar eru að tínast inn á völlinn alltof skömmu fyrir leik. Það var þó hægt að sníkja út gúrmet-hamborgara og ölkollu í Bar8unni – hvað er hægt að biðja um meira?

Líkt og hjá karlaliðinu fyrr í vikunni, var um fjáröflunar- og vitundarvakningarleik að ræða fyrir styrktarsjóð Bryndísar Klöru (Víkingsliðið efndi til samskota og afhenti ávísun til söfnunarinnar fyrir leik – vel gert Víkingar!) Framkonur léku í fínu dökkgráu búningunum – sem kann að hafa verið óheppilegt í 19 stiga hita og brakandi sól Úlfarsárdalsins. Víkingar léku í hvítu. Fréttaritarinn hafði steingleymt veðursældinni og skildi skyggðu gleraugun eftir heima. Við tók móðir allra augnapírínga.

Fréttaritarinn settist steinsnar frá Grindavíkurpabbanum. Sigurður Freyr kom fljótlega og settist fréttaritaranum á vinstri hönd og skömmu síðar mætti Ívar Guðjónsson á þá vinstri. Almennt séð var mætingin fín.

Framliðið varð fyrir skelfilegu áfalli á dögunum þegar Elaina, besti markvörður deildarinnar, meiddist og verður ekki meira með í sumar. Vonandi hefur stjórnin sótt um bætur úr Viðlagatryggingasjóði vegna þessa. En kona kemur í konu stað. Þóra Rún stóð á milli stanganna. Miðverðirnir fyrir framan hana voru þær Emma Young – nýkomin frá Grindavík – og Mackenzie Smith, sem hefur yfirleitt verið ívið framar á vellinum. Þær Dom og Hildur María voru í bakvörðum. Katrín Erla öftust á miðjunni með Unu Rós, Lily og Ólínu Ágústu fyrir framan sig. Murielle og Ólína frammi. Þessi ágiskun á leikskipulag er sett fram með öllum fyrirvörum um að fréttaritarinn var sólgleraugnalaus og í tilfinningalegu uppnámi eftir að hafa sloppið í gegnum ökutækisskoðun.

Hin epíska skoðun í Aþenu norðursins – sem heimamenn kalla stundum Skeifuna – hafði tekið nákvæmlega níu mínútur. Það er nokkurn veginn sami tími og Framliðið réð lögum og lofum í leikbyrjun. Frá fjórðu mínútu til þeirrar þrettándu átti Framliðið 3-4 prýðileg marktækifæri. Það besta þegar Alda slapp ein í gegnum Víkingsvörnina en náði að lokum ekki að leggja boltann fyrir sig og sóknin rann út í sandinn. Tveimur mínútum síðar hrökk boltinn upp í hönd varnarmanns Víkings á markteigslínu og Lily sópaði honum yfir í kjölfarið.

Eftir uppörvandi byrjun var Framliðið kýlt í magann á sextándu mínútu þegar slök hreinsun Framara féll beint fyrir fætur aðvífandi Víkingskonu sem skaut af löngu færi, hárnákvæmt í markhornið, 0:1. Þetta var svo sannarlega ekki planið og í kjölfarið virtist Framliðið gjörsamlega slegið út af laginu. Næsta stundarfjórðunginn fór sáralítið fyrir spili okkar kvenna en þeim mun meira fyrir nauðvörn og skítareddingum í vörninni. Víkingar hefðu auðveldlega getað náð þriggja marka forystu á þessum kafla. Að lokum tókst Óskari og þjálfarateyminu aðeins að stoppa blæðinguna, gestirnir fóru að draga sig aftar á völlinn og Framarar að sækja. Á 37. mínútu var Framliðið að dóla sér sakleysislega fyrir utan vítateig Víkinga þegar Lily lét skyndilega vaða á markið svo small í stönginni. Það sem eftir leið hálfleiksins var Framliðið líklegra og því tiltölulega rólegir Framarar sem héldu til áfyllingar í Bar8unni.

Eftir hlé voru Siguðrur og Ívar á bak og burt, en fréttaritarinn gat lokkað félaga Björn úr íbúaráði Grafarvogs- og Úlfarsárdals til að sitja með sér í seinni hálfleiknum. Hann hafði áður neyðst til að sitja hjá einhverjum bumbusláandi Víkingum í vondumannastúkunni. Framarar gerðu breytingu strax í byrjun Kam kom inná fyrir Ólínu Ágústu og breytti strax leik okkar með hraða sínum og áræðni. Meðalhæð liðsins minnkaði þó allnokkuð við skiptinguna.

Lífleg byrjun í seinni hálfleik kom þó fyrir lítið þegar furðulegt fát á Framvörninni gaf gestunum annað mark á silfurfati, 0:2. Strax í næstu sókn komust Framkonur í dauðafæri. Murielle átti skot sem var slegið út í teig þar sem Kam kom aðvífandi en spyrna hennar smalla af Víkingskonu á marklínu. Víkingar hlupu upp völlinn og skömmu síðar átti leikmaður þeirra misheppnaða sendingu sem endaði á að dansa á markslánni. Murielle kom sér síðan í tvo prýðilega sénsa áður en gestirnir fengu dauðadauðafæri, sem Grindavíkur-Emma bjargaði í horn á síðustu stundu.

Á 64. mínútu fengu Framarar hornspyrnu sem var markvörður gestanna sló út í teiginn, beint fyrir fæturnar á Dom sem átti ekki í vandræðum með að skora, 1:2 og leikurinn var aftur orðinn leikur! Á þessum tímapunkti virtist jöfnunarmark Fram óumflýjanlegt. Kam brunaði upp og niður völlinn að vild og á 66. mínútu gerði hún þau mistök að standa af sér klunnalega tæklingu í vítateig Víkinga í stað þess að fara niður og hirða vítið. Í kjölfarið sendi hún fyrir markið þar sem Alda var sentimetra frá því að ná í boltann og jafna metin.

Eva var ekki lengi í Paradís. Þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka missti Framliðið boltann kæruleysislega á miðjunni, Víkingar brunuðu upp og komust í þægilegt skotfæri yst í teignum, 1:3 og brekkan aftur orðin jafn brött og fyrr.

Óskar gerði tvöfalda skiptingu. Katrín Erla og Dom fóru af velli en Eyrún Vala og Olga Ingibjörg komu inná. Víkingsliðið dró sig enn á ný aftur á völlinn og gaf okkar konum færi á að sækja, þar sem Kam var fremst í flokki.

Á 73. mínútu dró enn til tíðinda. Lily lagði boltann á Unu Rós sem þrumaði á markið (við hefðum að ósekju mátt gera meira af því að reyna á Víkingsmarkvörðinn í leiknum) hún varði en boltinn hrökk á Murielle sem átti gott skot sem aftur var varið, uns Mackenzie mætti á fjærstöngina og minnkaði muninn á ný – 2:3.

Una Rós fór útaf fyrir Söru Dögg og Framarar virtust á ný líklegir til að knýja fram jafnteflið í það minnsta – en eins og áður varð kæruleysið í varnarleiknum okkur að falli. Með liðið komið hátt upp á völlinn tókst gestunum að vinna boltann, bruna fram og skora 2:4. Þar með var allur vindur úr seglum okkar kvenna. Víkingar bættu fimmta markinu við og það urðu lokatölur.

Það var augljóslega ekki óskastaðan að tapa þessum leik og Fram hefur dregist hratt niður töfluna eftir hléið langa fyrr í sumar. Margt í varnarleiknum er áhyggjuefni, en góðu fréttirnar eru þær að þegar við beitum okkur framávið getum við alltaf ógnað og fundið mörk. Kam var okkar allra besti leikmaður í dag, en Lily átti líka góða spretti. Næsti leikur er á Akureyri gegn skástrikinu. Miði er möguleiki.

Stefán Pálsson

Share this post

Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!