fbpx
Freyr vefur

Og fegurðin mun ríkja ein…

Fréttaritari Framsíðunnar er með þá kenningu að sigrar og ósigrar komi í kippum. Einhvern veginn virðast öll liðin sem hann heldur með í handbolta og fótbolta – hér á landi sem erlendis – hafa stillt sig saman um að tapa eða vinna öll í einu. Þegar uppáhalds enska fótboltalið fréttaritarans vann 0:3 útisigur á Burton Albion í gömlu þriðju deildinni á laugardaginn og eftirlætis-Skotarnir náðu sigurmarki í uppbótartíma um svipað leyti, fór bjartsýnin fyrir Bestudeildarleik sunnudagsins aðeins að láta á sér kræla. Þegar Murielle Tiernan dansaði svo í gegnum Akureyrarvörnina eins og gyðjan Artemis og þrumaði með vinstri upp í bláhornið til að tryggja frægan sigur Framkvenna – þá sannfærðist fréttaritarinn um að sigur á Val væri handan við hornið.

Fréttaritarinn varði fyrri hluta sunnudagsins á pólitískum fundi í Borgarnesi. Á leiðinni til bæjarins, nánar tiltekið á Kjalarnesinu miðju, hringdi síminn: Kristinn stjórnarmaður var á línunni, hafði verið svikinn um pöbbkvisspurningar af félaga sínum og vildi vita hvort það væri einhver leið að galdra slíkar fram með nálega engum fyrirvara. Fréttaritarinn var með tölvuna í skottinu og ákvað að veðja á að hann ætti eitthvað nýtanlegt í sarpinum.

Það var því ekkert fínumannaboð hjá fréttaritara sem þurfti að spyrja skrílinn í Bar8unni spjörunum úr. Hann missti því af upptalningunni á byrjunarliðinu hjá Helga aðstoðarþjálfara. Liðsuppstillingin var hins vegar á þennan veg: Viktor í marki, Þorri, Sigurjón og Kennie í miðvörðum með Kyle í leikbanni. Már og Halli í bakvörðum. Israel, Simon og Freyr á miðjunni. Fred efst á miðjunni og Róbert uppi á toppi.

Eftir pöbbkvissið í almenningnum gekk fréttaritarinn niður í stúku. Skjaldsveinninn og Rabbi trymbill voru báðir fjarri góðu gamni í einhverri veiðiferðinni úti í rasskati. Þess í stað tók hann sér stöðu við miðlínuna, aftan við áhorfendabekkina, með foreldra Þorra á aðra hönd en Jóa Nissa, uppáhalds Fram-stuðningsmann okkar allra, á hina.

Valsarar mættu ekki til leiks eins og topplið að sækja þrjú stig, heldur lágu til baka frá upphafi og treystu á kýlingar framávið. Framliðið fékk að halda boltanum á miðjunni að vild (ekki endilega óskastaða okkar) en rauðklæddir lúðruðu fram í hvert sinn sem færi gafst. Fyrsta alvöru færið féll í okkar hlut þegar Kennie skallaði yfir eftir sjö mínútur. Þremur mínútum síðar var Róbert nærri því að koma okkur yfir, aftur eftir skalla.

Framarar héldu áfram að sækja en ógnuðu lítið. Gestirnir biðu hins vegar rólegir. Á 25. mínútu reið svo ógæfan yfir þegar Frömurum mistókst að hreinsa aðsteðjandi bolta vel frá og Valsmaður með bandarískt ríkisfang kom aðvífandi og negldi glæsilega í þaknetið – frábær afgreiðsla og staðan orðin 0:1.

Það sem eftir leið fyrri hálfleiks sýndu Framarar litla tilburði til að jafna metin. Í hléi safnaðist mannskapurinn saman í Bar-8unni og gestir og gangandi kepptust við að líta á björtu hliðarnar. Veruleikinn var þó sá að liðið leit illa út og þótt Framarar hefðu verið meira með boltann var staðan ekki ósanngjörn.

Blessunarlega kom allt annað Framlið til leiks eftir hlé. Halli var sparkaður niður í vítateig Valsmanna á 53. mínútu en ekkert dæmt. Valsliðið dró sig jafnt og þétt aftar á völlinn til að verja fenginn hlut en Framarar sóttu. Á 59. mínútu splundraði Freyr Sigurðsson – sem var langbestur okkar manna í dag – Valsvörninni, nánast upp úr engu, áður en hann renndi út á Simon Tibbling sem setti hann vandræðalaust í markhornið, 1:1 án minnstu fyrirhafnar.

Framarar héldu áfram að sækja, en þó dró fljótlega af liðinu, líkt og leiktíminn tæki sinn toll. Þjálfarateymið sýndi ekki minnsta áhuga á skiptingum, þar til Þorri þurfti að fara meiddur út af á 89. mínútu en Mingi kom inná í staðinn.

Mínútu eftir þessa fyrstu og einu skiptingu fékk Freyr boltann rétt fyrir utan teig – lét vaða á markið og boltinn small í hönd varnarmanns. Eftir miklar flækjur endaði Tibbling á að taka spyrnuna og skora sitt annað mark í leiknum, 2:1.

Við tók taugatrekkjandi sex mínútna lokakafli þar sem beðið var eftir lokatölum. Tap í kvöld hefði endanlega fokkað upp tímabilinu. Sigur þýðir að við fáum hreinan úrslitaleik um sæti í efri hlutanum eftir hálfan mánuð. Sigurvegarinn mun hirða allt…!

Stefán Pálsson

Share this post

Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!