fbpx
54574567726_7624a8c614_k

Rennihurðin

Hugmyndin um augnablikið þar sem tilviljanakenndur atburður hefur afgerandi áhrif á framvindu mála er gömul og rótgróin. Listamenn hafa leikið sér með fyrirbærið í bókum og leikritum. Enskumælandi hafa um þetta sérstakt hugtak, sem vísar í vellumynd frá Hollywood undir lok síðustu aldar, þar sem afdrif aðalpersóna ultu á því hvort þær sluppu í gegnum dyr áður en rennihurð lokaðist eða ekki. Meira um það síðar.

Aðalritari Framsíðunnar var orðinn býsna þyrstur í að komast á fótboltavöllinn í dag. Landsleikjahlé og útileikur Framkvenna í síðustu umferð (þar sem við töpuðum á óskiljanlegan hátt fyrir Sauðkrækingum) skýrðu þessa aðkilnaðarröskun. Það var því með sól í hjarta sem haldið var á kaldasta knattspyrnuvöll landsins í Garðabæ. Þar var kalt sem vænta mátti, en grá ullarpeysa bjargaði því sem bjargað varð.

Fréttaritarinn þekkti fáa, enda fáum til að dreifa. Í lok leiksins tilkynnti vallarþulur að 127 áhorfendur hefðu verið á leiknum. Þeir hafa þó varla verið fleir en fjörutíu í byrjun. Þessi leiktími, sex á föstudegi, ætlar ekki að venjast.

Fram tefldi fram kunnuglegu liði. Ashley í markinu. Emma Young og Mackenzie Smith í miðvörðum. Dom og Hildur María bakverðir. Kam og Lily á köntunum, Katrín Erna öftust á miðjunni með Unu fyrir framan sig og Alda og Murielle frammi. Fyrr í sumar léku okkar konur Garðbæinga ansi grátt í Dal draumanna og voru heimakonur væntanlega í hefndarhug.

Framliðið byrjaði betur og var það einkum Kam sem olli usla með hraða sínum. Stjörnuvörnin var hálfsilaleg og þegar á níundu mínútu kom prýðileg sending inn á Murielle sem var fljót að hugsa og stakk boltanum í gegn á Kam sem kom á fleygiferð og afgreiddi boltann glæsilega í markhornið, 0:1. Næstu mínúturnar voru Framarar líklegri. Alda komst í skotfæri en setti knöttinn hátt yfir. Á fimmtándu mínútu kom svo rennihurðar-augnablikið. Löng sending í gegnum vörnina skilaði Kam aleinni á móti markverði Stjörnunnar, sem tókst á glæsilegan hátt að verja úr dauðafæri. Betri verða sénsarnir varla. Viðbúið er að tveggja marka munur eftir stundarfjórðungsleik hefði slegið bláklætt heimaliðið út af laginu, en varslan olli þess í stað þáttaskilum.

Garðbæingar náðu fljótlega öllum völdum á miðjunni og gáfu þau varla eftir það sem lifði leiks. Ashley varði vel í tví- eða þrígang en öllum mátti samt vera ljóst að jöfnunarmark lægi í loftinu. Það raungerðist eftir nákvæmlega hálftíma leik, 1:1. Við markið virtist aðeins meira jafnvægi komast á leikinn. Fram tókst aðeins að þétta vörnina, sem fyrr fór þó lítið fyrir miðjuspili. Þegar markvörður eða vörn Framara fengu boltann var þess einatt freistað að þruma fram í von um að eitthvað hrykki fyrir fætur sóknarmannanna. Helstu færi Framliðsins komu eftir misheppnaðar sendingar Stjörnukvenna sín á milli – sem voru reyndar svo margar og tíðar að leikaðferðin var ekkert út í hött. Í fáein sekúndubrot virtist Fram hafa náð að stela forystunni á ný, rétt fyrir hlé, eftir fallegt skallamark Murielle eftir góða sendingu frá Dom, en flagg aðstoðardómarans var komið á loft vegna rangstöðu.

Seinni hálfleikur spilaðist eins. Stjarnan var sterkara liðið og miklu meira með boltann. Framkonur þreyttust við að þurfa sífellt að elta og sóknarlotur okkar urðu færri og máttlausari. Á 53. mínútu tók Stjarnan forystuna og var það ekki sérlega óvænt. Tvöföld skipting á 66. mínútu, þar sem Ólína Ágústa og Eyrún Vala komu inná fyrir Öldu og Katrínu Erlu átti að auka bitið, en tveimur mínútum síðar mátti heita að Stjarnan kláraði leikinn með þriðja markinu. Fátt markvert gerðist síðustu tuttugu mínúturnar. Freyja Dís kom inná fyrir Unu undir lokin en ergilegur ósigur varð niðurstaðan. Ljóst er að Fram mun lenda í neðri hlutanum eftir skiptinguna, en mikilvægt er að enda vel á móti Val í næsta leik til byrja lokasprettinn í sem bestri stöðu.

Stefán Pálsson

Share this post

Karfa0
There are no products in the cart!
Halda áfram að versla
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!