fbpx

Afrekssjóður Knattspyrnufélagsins Fram

Reglugerð um afrekssjóð Knattspyrnufélagsins Fram

1.gr. Hlutverk

Heiti sjóðsins er Afrekssjóður Knattspyrnufélagsins Fram. Hlutverk hans er að veita styrki til afreksfólks félagsins vegna þátttöku í landsliðsverkefnum og einstökum afreksverkefnum erlendis sem krefjast fjárhagslegrar aðkomu þátttakenda. Einnig er sjóðnum ætlað að styðja unga og efnilega þjálfara félagsins sem vilja sækja sér menntun eða reynslu erlendis, sérstaklega þegar um er að ræða kostnaðarsöm þjálfaranámskeið.

2.gr. Fjármagn

Sjóðurinn er fjármagnaður með tekjum af þorrablóti félagsins, þorrablóti 113. Einnig er heimilt að leita eftir viðbótarfjármagni frá öðrum aðilum. Stjórn sjóðsins ákveður árlega styrkupphæð í kjölfar þorrablóts félagsins. Sjóðsstjórn er heimilt að takmarka fjölda styrkja sem einstakir þátttakendur geta fengið á ári hverju. Óheimilt er að skuldbinda sjóðinn umfram þær fjárhæðir sem eru til ráðstöfunar hverju sinni.

3.gr. Skipan og hlutverk stjórnar

Sjóðsstjórn samanstendur af þremur aðilum innan félagsins: formanni þorrablótsnefndar, fulltrúa úr aðalstjórn félagsins og framkvæmdastjóra félagsins. Hlutverk sjóðsstjórnar er að yfirfara umsóknir um styrki og fylgjast með nýtingu þeirra.

4.gr. Markmið

Afrekssjóður Knattspyrnufélagsins Fram veitir styrki til eftirfarandi verkefna:

Þátttaka í landsliðsferðum, Norðurlandamótum, Evrópumótum og heimsmeistaramótum erlendis.

Önnur verkefni og sérstök afrek sem metin eru sérstaklega hverju sinni. Með sérstökum afrekum er átt við val í úrvalshóp til þátttöku í Ólympíuleikum, heimsmeistara-, Evrópu- eða Norðurlandamótum.

Menntunar- og þjálfunarverkefni erlendis fyrir unga og efnilega þjálfara félagsins, sérstaklega þegar um er að ræða kostnaðarsöm þjálfaranámskeið sem geta stuðlað að frekari faglegri þróun þjálfara félagsins.

Ferðir sem eru þátttakanda að kostnaðarlausu eru ekki styrkhæfar.

5.gr. Skilyrði

Umsækjendur skulu iðka/sinna íþrótt/þjálfun sína innan raða Knattspyrnufélagsins Fram.

6.gr. Umsóknir

Úthlutað er úr sjóðnum tvisvar á ári og er umsóknarfrestur auglýstur á heimasíðu Knattspyrnufélagsins Fram. Umsóknir skulu berast skrifstofu félagsins á þar til gerðu umsóknareyðublaði á netinu, eigi síðar en þremur mánuðum eftir að móti lýkur. Sjóðsstjórn er þó heimilt að hafa frumkvæði að veitingu einstakra styrkja.

Sjóðsstjórn áskilur sér rétt til að afla frekari upplýsinga en þeirra sem fram koma á umsóknareyðublöðum og leita umsagnar annarra aðila. Hún metur hverja umsókn til samþykktar eða synjunar. Ófullnægjandi gögn geta leitt til höfnunar umsóknar.

Styrkir eru greiddir út eftir að keppnisferð hefur verið farin og fullnægjandi grein hefur verið gerð fyrir henni. Þetta felur í sér að staðfesting, svo sem farseðlar eða vottorð frá viðkomandi sérsambandi, sé lögð fram á skrifstofu félagsins. Heimilt er að víkja frá þessari reglu ef ríkar ástæður eru fyrir hendi.

Styrkja skal vitja innan árs frá mótslokum, annars falla þeir niður. Sjóðsstjórn skal rökstyðja úthlutanir og synjanir sé þess óskað.

7.gr. Uppgjör

Framkvæmdastjóri skal skila skýrslu til aðalstjórnar Knattspyrnufélagsins Fram á sex mánaða fresti, þar sem fram kemur yfirlit yfir styrkveitingar og fjárreiður sjóðsins.

Skoðunarmenn félagsins skulu jafnframt hafa eftirlit með reikningum sjóðsins.

8.gr. Gildistími

Reglugerð þessi er sett af aðalstjórn Knattspyrnufélagsins Fram og tekur gildi við staðfestingu stjórnar félagsins. Hún gildir þar til stjórn félagsins ákveður annað.

Samþykkt á fundi stjórnar Knattspyrnufélagsins Fram þann X. mars 2025.

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!