fbpx
Róbert

Af fullkomnum og ófullkomnum tölum

Náttúruleg tala er sögð fullkomin, ef hún er jöfn summu allra þeirra talna sem eru minni en hún sjálf og ganga upp í henni. Þannig er 6 fullkomin tala, því 6 = 1 + 2 + 3, og einnig er 28 fullkomin, því 28 = 1 + 2 + 4 + 7 + 14. Þrátt fyrir að fullkomnar tölur hafi verið þekktar í langan tíma á enn eftir að svara fjölmörgum spurningum um þær, meira púður hefur hins vegar farið í rannsóknir á frumtölum, sem er galið. Til dæmis er alls ekki vitað hvort til sé fullkomin oddatala og eru aðeins 44 fullkomnar tölur þekktar í dag.

Þegar stöðutaflan var skoðuð fyrir leik kveldsins kom í ljós að liðin væru að vinna með sömu hugmyndafræði og voru líkindin áþreifanleg, jafnvel óþægileg. Bæði lið með 24 stig eftir 16 leiki, bæði lið með 7 sigra og 3 jafntefli en FRAM raðast oftar enda með 4 mörk í plús á meðan andstæðingar dagsins, Garðahreppsmenn úr Stjörnubæ voru aðeins með tvö mörk í plús fyrir leik. Hér er rétt að taka fram að talan 24 er ekki fullkomin tala, þar sem 1, 2, 3, 4, 6, 8 og 12 ganga upp í 24, en summa þeirra er 36 – þið eruð sem sagt búin að ná þessu núna.

Það kom því varla á óvart að flestir sparkspekingar landsins spáðu leiknum jafntefli, janvel margir á því að þetta yrði markalaus leikur, hinn svokallaði fullkomni knattspyrnuleikur, en galgopar í stéttinni spáðu að hvort lið myndi skora eitt mark, jafnvel bæði sjálfsmörk. Lengjustuðullinn á jafntefli fyrir leik var 3.69 – þvílíkt dauðafæri á að ná yfirdrættinum niður eftir sumarleyfið.  

Líkindin enduðu ekki hérna, heldur hafa Garðahreppsmenn úr Stjörnubæ fengið til liðs við sig varnarmanninn Steven Roy Caulker, en hann hefur nú aðallega fengið að verma bekkinn hingað til, þó ekki alveg á Carlosar Kaiser skala (Draugar fortíðar – þáttur 186). Steven hefur þann þunga kistil að bera á herðum sér að hafa eitt sinn flokkast sem leikmaður Liverpool, og náð að taka þátt í 3 leiknum undir stjóranum Klopp. Þetta kallast nú varla frumleg nálgun, þar sem FRAM gekk frá sínum Liverpool tengingum fyrir nokkrum leiktíðum þegar Danny Guthrie hjálpaði FRAMliðinu að komast upp úr Lengjudeildinni árið 2021. Reyndar er alnetið á því að hann hafi spilað 17 leiki með okkur þetta tímabil, þar af fór hann þrisvar sinnum út úr miðjuhringnum, í öll skiptin til að taka aukaspyrnu. Reyndar eru allar heimildir frá þessum tíma í skötulíki, þar sem þetta var Covid sumarið mikla og áhorfendur yfirleitt bannaðir eða með heilaþoku vegna veikinda og bólusetninga. Og hvað á Danny Guthrie svo marga leiki með Liverpool í deildinni? Jú, mikið rétt, auðvitað á hann 3 leiki, leiktíðina 2006-7, þrír er reyndar ekki fullkomin tala – en við tökum viljann fyrir verkið hjá þeim Liverpool bræðrum. 

Það var því jafnt á öllum tölum fyrir leik og rúmlega það, sumar fullkomnar, aðrar ekki. FRAMliðið var að sleikja sárin eftir jafntefli við Víkinga í síðasta leik, á meðan Garðahreppsmenn lögðu Aftureldingu, en einungis eftir að fækkað var í liði eldingarmanna. Vel var mætt í heitustu stúku landsins, enda var leikurinn ekki bara baráttan um fullkomnu tölurnar, fullkomnu bláu búningana, fullkomna fjórða sætið, heldur einnig hugsanleg barátta um fullkomið Evrópusæti, þó svo að enginn hafi viljað viðurkenna það fyrir fram. Áhorfendurnir sem mættu úr Garðahreppnum voru yfirleitt ofklæddir, komandi úr köldustu stúku landsins, en flestir voru vel litaðir eftir ævintýri sumarsins á Cayman eyjum, FRAMarar sem höfðu farið austur eða norður í sumar voru með lit, aðrir ekki.

Allir voru mættir á leikinn og ömmur þeirra, Kristján Freyr á Rás2, Skonrokk bróðirinn, Bjössi Þorrapabbi, Addi úr bankanum, Rabbi trymbill, biskupinn og bílstjórinn og svo mætti lengi telja. En enginn Stefán Pálsson var á áhorfendabekkjunum, þar sem hann var fastur á friðarráðstefnu um kjaravopn (Úran – sætistala 92, ekki fullkomin tala). Reyndar átti ráðstefnan víst að klárast um fimmleitið, en á eftir friði kemur ófriður og var eflaust verið að öskursyngja Njallann eða einhvern slagara með Yoko Ono er dómarinn flautaði leikinn á, í Dal draumanna í fínasta fótboltaveðri.

Byrjunarliðið litaðist nokkuð af banni og meiðslum. Viktor var í markinu að vanda, Sigurjón var í banni og því mynduðu Kyle, Þorri og Kennie þrenninguna aftast. Halli og Mási í vængbakvörðum, Fred, Simon og Feyr inná miðjunni og svo Róbert og Jakob frammi. Vuk á bekknum eftir að hafa verið blóðgaður illilega fyrir nokkru. Stóru fréttirnar hjá andstæðingunum voru að Liverpool maðurinn var í byrjunarliðinu – hann er stór og var í mjög stórum búningi.

Leikurinn byrjaði að krafti og vorum við mun sterkari. Fengum álitlegar stöður og færi eftir færi en ekki vildi boltinn inn. Fyrst átti Freyr skalla eftir 2 mínútur en fljótlega eftir það þurfti Viktor að verja. Eftir 10 mín átti Byström sending út í teig þar sem Fred kom og átti ágætt skot sem var varið. Áfram áttum við leikinn fyrir utan eitt rangstöðumark frá þeim sem gat aldrei náð tali. Nú fór Róbert að gera sig gildandi og átti 2 tilraunir, en ekkert gekk. Áfram hélt sókn okkar og reddaði Liverpool maðurinn (munið – bara 3 leikir) þeim með góðum tækklingum og almennum tuddaskap. Enn var Róbert atkvæðamikill og átti hann sláarskot eftir góða rispu eftir 38 mín. Rétt fyrir hlé fékk Byström að finna fyrir Liverpool manninum, sem fékk réttilega gult kort fyrir kröftugt brot. Reyndar fékk Fred stuttu síðar spjald fyrir nákvæmlega engar sakir. Flautaði dómarinn svo hálfleikinn af og snérist hálfleiksspjallið hjá öllum um það hvers vegna í ósköpunum við værum ekki búnir að ganga frá þessum leik. Uppspil þeirra úr Garðahreppi snérist um að markmaðurinn setti bolta fram á stóra manninn frammi, sem átti að ná honum niður og búa eitthvað til – það gekk ekki eftir enda er árið ekki 496, reyndar er þetta ártal bara notað til að koma næstu fullkomnu tölu að.

Eftir góðan viðgjörning á Bar8 með innliti í VIP – þá var haldið í seinni hálfleikinn með þá von að nú kæmu mörkin (Höskuldarviðvörun – þau komu). Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri með skalla frá Frey. Áfram vorum við sterkari og átti Mási skot eftir 7 mínútna leik en allt kom fyrir ekki. Hér hentu andstæðingarnir í tvöfalda skiptingu enda stefndi allt í óefni hjá þeim. Það var eftir klukkutíma leik að við fengum horn sem var tekið stutt og átti Fred góða sendingu fyrir sem Róbert náði að koma boltanum í netið, hugsanlega með mjöðminni eða öðrum líkamshluta. EN hverjum er ekki sama, mark er mark og nú var pelinn tekinn til kostanna og allt varð gott. Eftir markið fór Liverpool maðurinn að laumast fram í sóknina til að skapa ursla og tókst það nokkuð vel. Við lögðumst helst til of aftarlega og skyndilega fóru þeir að ná að manna teginn vel og skapa hættu. Á þessu tímabili átti Viktor góðar vörslur og Kennie kom okkur oftar en einusinni til bjargar. Þarna var Vuk kominn inná fyrir Bystöm sem stóð fyrir sínu. Garðahreppur hélt áfram að ógna, en við áttum sóknarmöguleika inn á milli sem ekki voru nýttir nægilega vel. Freyr lauk svo leik og kom Tryggvi inná. Enn var herjað á okkur og skoruðu þeir svo úr horni eftir darraðardans í teignum. Eftir markið jafnaðist leikurinn aftur og áttu hvorugt liðið álitleg færi eftir þetta. Dómarinn kom í veg fyrir gott upphlaup okkar manna og leikurinn fjaraði út.

Þetta var svona leikur þar sem allir voru svekktir eftir leik, vonandi dómarinn líka með því að taka af okkur upplagt upphlaup í restina. Þessi úrslit og önnur í þessari umferð gera næsta leik fyrir vestan enn mikilvægari ef við ætlum okkur fjórða sætið.

Skjaldsveinninn Valur Norðri    

Share this post

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0

Skráðu þig á póstlistann!

Fáðu allar fréttir, tilboð og aðrar upplýsingar beint í æð!