Hátimbraðasti sjónvarpsþáttur RÚV á níunda áratugnum var hinn árvissi „Spekingar spjalla“, sem tekinn var upp af sænska ríkissjónvarpinu og leiddi saman nokkra Nóbelsverðlaunahafa hvers árs sem tóku þátt í gríðarlega uppskrúfuðum pallborðsumræðum um helstu mál samtímans. Enginn áhorfandi skildi eitt eða neitt, en öll vissum við að um gríðarlega speki væri að ræða.
Lífið leikur eftir listinni og í kvöld raungerðist sænski sjónvarpsþátturinn á Lambhagavellinum í Dal draumanna. Fréttaritari Framsíðunnar mætti, laust fyrir leik Fram og Breiðabliks í Bestu deild kvenna. Hann var örlítið lítill í sér eftir að skjaldsveinninn hafði rúllað upp skýrslugerð gærdagsins og því óviss um sína stöðu. Í fínumannasalnum á annarri hæð reyndist enginn vera viðstaddur, nema okkar allra besti formaður knattspyrnudeildar, Guðmundur Torfason.
Fréttaritarinn og Gummi Torfa fengu sér sæti og náðu með herkjum að tengja nálæga bjórdælu. Þarna yrði sko ekki töluð vitleysan!
Kvennaflokkur Fram hefur komið gleðilega á óvart á yfirstandandi tímabili. Liðið hefur náð fjölmörgum óvæntum úrslitum og í raun ekki lent í verulegum vandræðum gegn neinum mótherjum… nema Blikum. Kópavogsliðið er einfaldlega hið langbesta í deildinni og það sem önnur lið hljóta að kappkosta að ná.
Það auðveldaði ekki brekkuna að þessu sinni að Elaina, aðalmarkvörður okkar, var fjarri góðu gamni út af einhverjum hártogunum. Þóra Rún stóð á milli stanganna í hennar stað og stóð sig raunar með prýði. Óskar bauð upp á fjögurra manna varnarlínu með Freyju, Dom, Ólínu og Hildi Maríu í varnarlínunni. Katrín Erla var öftust á miðjunni, með Mackenzie og Unu Rós fyrir framan sig. Alda og Murielle frammi (þó aldrei báðar í einu). Þær Dom og Kam hafa myndað frábært tvíeyki í sumar, en sú síðarnefnda var meidd og það því skarð fyrir skildi.
Okkar konur lágu til baka nánast frá byrjun og á 8. mínútu dró til tíðinda þegar Þóra Rún átti hörkuvörslu úr dauðafæri Blika. Fréttaritarinn og Gummi Torfa hættu snarlega að ræða skosku knattspyrnuna og fögnuðu vörslunni vel. Sá fögnuður rann fljótt út í sandinn þegar í ljós kom að dómarinn – Ási sem rak lengi vel kraftbarinn Session og er sómapiltur þrátt fyrir að vera Valsari – dæmdi víti, að sögn út af einhverju samstuði annars staðar í teignum. Úr vítaspyrnunni skoruðu Íslandsmeistararnir, 0:1.
Við tók tímabil þar sem leikurinn var í miklu jafnvægi og fátt gerðist sannast sagna ef frá er talið eitt gott marktækifæri frá hvoru liði. Á 35. mínútu var hins vegar klafs í vítateig Framara sem komu boltanum aðeins út fyrir teig þar sem aðvífandi bliki tvöfaldaði forystuna. Þrusumark sem viðkomandi hefði ekki getað leikið eftir í 20 tilraunum. Gestirnir voru eftir þetta miklu líklegri til að auka muninn með þriðja markinu.
Í leikhléi stakk markahrókurinn og eftirlætisleikmaður St. Mirren og Beveren af en í staðinn komu Sigríður Elín formaður og Svenni úr gæslunni. Ekki dró þar úr spekingaspjalli!
Framkonur mættu ákveðnar til leiks í seinni hálfleik og eftir þriggja mínútna leik vann Murr aukaspyrnu á miðjum vellinum, var fljót að hugsa og sendi fram á Lily sem stakk alla mótherja af áður en hún lét boltann syngja í marknetinu, 1:2 og allt í einu var allt opið aftur upp á gátt.
Þetta mark reyndist þó svikalogn og beint í kjölfarið tóku Blikar öll völd á vellinum og á sjö mínútna tímabili breyttu þær stöðunni úr 1:2 í 1:5. Sjötta markið bættist svo við í lokin og Framarar hafa rækilega lagt sitt að mörkum til að tryggja Kópavogsliðinu endurnýjaðan Íslandsmeistaratitil. Hvað okkur varðar er þó engin ástæða til að hafa áhyggjur. Alda sneri aftur úr meiðslum og Elaina snýr aftur í næsta leik. Fram mætir í Fjarðabyggðahöllina í stórhættulega viðureign gegn liði sem er miklu betra en stigataflan gefur til kynna. Nú er að duga eða drepast!
Stefán Pálsson